Stefán Máni
Nautið
Sögur, 2015
Nautið eftir Stefán Mána er nýjasta verk þessa landsþekkta spennusagnahöfundar. Meðal þekktustu verka hans er án efa Svartur á leik sem kom út árið 2004 en gerð var kvikmynd eftir bókinni árið 2012 sem naut mikilla vinsælda og hlaut lof gagnrýnenda fyrir. Það má segja að hinn myrki undirheimur sem höfundur hefur svo góð tök á að lýsa rati á nýjan leik á síður nýjustu skáldsögu hans.

Bókin segir sögu nokkurra einstaklinga sem tengjast allir einni persónunni á einhvern hátt, henni Jóhönnu Jónatansdóttur eða Hönnu. Hanna er komin yfir þrítugt, er eiturlyfjafíkill og hefur ekki átt sjö dagana sæla. Sögusviðið er vítt og spannar ævi Hönnu, en líkt og fyrri skáldverk Stefáns Mána er Nautið brotið upp í endurlit og innskot þar sem hann stekkur á milli fortíðar og nútíðar. Sagan byrjar á ferðalagi tveggja vinkvenna frá Svíþjóð og Ástralíu sem verða bensínlausar og símasambandslausar. Þær neyðast því til að ganga af stað upp veginn í leit að einhverjum bæ og aðstoð. Þær ramba fram á bæ einn, Uxavelli, og þrátt fyrir að svæðið veki hjá þeim óhug, nálgast þær hljóðlátt húsið og baulið frá hlöðunni. Hábjartur dagur og kæfandi hiti sólarinnar magnar hryllinginn sem bíður þeirra í báðum húsum þar sem hrottaleg morð hafa verið framin, sem minna um margt á The Texas Chainsaw Massacre, hryllingskvikmynd frá árinu 1974.

Eftir nákvæmar lýsingar á sviði því sem ferðalangarnir detta inn á byrjar sjálf bókin, án þess þó að segja meira frá því sem tekur við eftir öskur ferðafélaganna sem lesandinn skilur við þar sem nautsleg vera rymur og nálgast af risi íbúðarhússins.

Við kynnumst aðalpersónum verksins, þeim Hönnu og Rikka. Þau eru hluti af  undirheimum höfuðborgarinnar en Hanna er trúlofuð hrottafengnum og miskunnarlausum eiturlyfjasala, Antoni og vinnur Rikki fyrir hann í formi eiturlyfjasölu og annarra smáglæpa. Hanna hefur mátt þola alls kyns misþyrmingar frá unnusta sínum en þorir ekki fyrir sitt litla líf að yfirgefa hann.

Höfundi tekst vel að halda lesanda föngnum með því að fletta sundur margslungnum lögum af flókinni ævi sögupersóna
Smám saman kynnumst við Hönnu betur með endurlitum til fortíðar og bæjarins Uxavalla. Hún þjáðist á árum áður af lotugræðgi og virðist kynferðisleg misnotkun föður hennar vera valdur að ómældri vanlíðan hennar. Hún á hins vegar bróður, Óskar sem er seinþroska og sennilega andlega fatlaður. Óskar er sá eini sem hún saknar úr fjölskyldu sinni og hún sér eftir að hafa skilið hann eftir þegar hún lét sig hverfa í eiturlyf og sjálfseyðingarhvöt. Frikki þekkti aldrei bandarískan föður sinn og kemur frá Keflavík þar sem hann er þekktur fyrir smáglæpi. Ekki er að undra að hana og Frikka dreymi um betra líf, fjarri nöturlegum aðstæðum í heimalandinu.

Í fyrstu virðast Hanna og Rikki ekki tengjast ferðamönnunum í byrjun sögunnar en vonin eftir skýringu á morðunum knýr lesandann til þess að lesa áfram og gefur spennan þar af leiðandi meiri dýpt í persónurnar frá Uxavöllum. Klukkutif marka kaflaskil, Tikk. Takk., og sjá um flakkið milli fortíðar og nútíðar. Höfundi tekst vel að halda lesanda föngnum með því að fletta sundur margslungnum lögum af flókinni ævi sögupersóna. Innskotin úr fortíð Hönnu hægja á hraða sögunnar en draga þó ekki úr spennunni sem höfundi tekst að skapa.

Verkið næstum kallar á myndræna endurtúlkun hvort sem það er í formi sjónvarpsþátta eða kvikmyndar
Nautið er ávallt til staðar í bókinni í ólíkum formum. Í formi raunverulegs nauts, í formi skapills bónda og í formi styttu. Uppbygging spennunnar er í formi nákvæmra og myndrænna lýsinga á sögusviði bókarinnar og svipar tilfinningunni við lesturinn til kvikmyndaáhorfs. Ekki er að undra að heyrst hafa sögur þess efnis að gera á spennuþáttaröð byggða á Nautinu en Baldvin Z er orðaður við leikstjórahlutverkið. Karlmannshlutverkið og í raun sýn Stefáns Mána á feðraveldið í verkum sínum hafa ávallt vakið áhuga minn og er athyglisvert að sjá umkomuleysi kvennanna sem og hvað það þýðir að vera karlmaður í Nautinu. Hanna er mörkuð af feðraveldinu. Faðirinn misnotaði hana í æsku fram á unglingsár alveg þar til hún flýði. Móðirin sfyllist afbrýðissemi út í dóttur sína í stað þess að ásaka föðurinn, sem gæti verið ákveðin birtingarmynd af hræðslu hennar gagnvart drykkfelldum manni sínum. Systir móðurinnar ýtir ekki nægilega hart á að hjálpa systurdóttur sinni og hræðist auðveldlega andúð fjölskulduföðurins.

Hanna laðast að mönnum sem misnota hana, Anton og gengið hans eru eintómir hrottar og virðist Rikki ekki vera neitt skárri. Seinþroska bróðirinn sem er nautsterkur og stór líkt og fjölskuldufaðirinn en um leið viðkvæmasta blómið í allri skáldsögunni virðist eini karlkyns karakterinn sem stríðir gegn þeirri hrottalegu karlmannsímynd sem sett er fram í bókinni. Þegar upp er staðið er Óskar sá sem hlýtur hvað mestan skaðann og er í raun stærsta fórnarlamb feðraveldisins; seinþroskað einstaklingur sem er í senn fóstursonur ömmu sinnar, bróðir móður sinnar og sonur afa síns.

Svartur á leik markaði ákveðin þáttaskil í ferli Stefáns Mána og með því verki hefur hann óneitanlega skapað há viðmið hvað varðar næstu verk á eftir. Eftir að hafa orðið fyrir þó nokkrum vonbrigðum á lestri Litlu dauðanna eftir sama höfund, nálgaðist ég verkið Nautið með ákveðnum fyrirvara. Spennan sem var til staðar í byrjun Litlu dauðanna koðnar strax niður aftur, ekki síst vegna staðalímynda þar sem hæst bera miklir karlmennskukomplexar aðalsöguhetjunnar. Nautið er hins vegar glæpa- og spennutryllir sem grípur lesanda á fleygiferð og hrífur hann inn í miðja hringiðu atburða í fortíð og nútíð. Erfitt er í byrjun að sjá mikilvægi tímaflakksins og tifs klukkunnar, Tikk. Takk, en þegar nær dregur sögulokum virðast öll tannhjól falla rétt saman og myndar gangverkið þá eina heild þar sem byrjun og endir mynda ramma umhluta sögunnar. Verkið næstum kallar á myndræna endurtúlkun hvort sem það er í formi sjónvarpsþátta eða kvikmyndar og er þetta eitt verka Stefáns Mána sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

[line]Grein þessi var unnin sem verkefni í námskeiðinu Gagnrýni og ritdómar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundar nú MA-nám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sama skóla.

[fblike]

Deila