„Betri er „selfie“ en samkennd“

Það var mjög gaman að horfa á útskriftarsýningu leikarabrautar Listaháskólans í gær, ekki síst af því að hópurinn var eins góður og raun ber vitni.  Haldin var leikritasamkeppni þar sem verk skyldi samið sérstaklega fyrir þennan hóp og hlutskarpast varð leikritið Við deyjum á Mars eftir nýjan höfund, Jónas Reyni Gunnarsson. Leikritasamkeppnin hefur legið niðri nokkur ár en er nú tekin upp aftur og það er vel, fyrri sýningar af þessu tagi hafa verið eftirminnilegar.

Níu stjörnur

Níu ungar manneskjur, sex konur og þrír karlar, hafa verið valin úr stórum hópi til að fara til Mars, stofna þar samfélag og fjölga sér. Leiðtogi og hópstjóri er hin hressa Heiður (María Dögg Nelson) og ferðin er í beinni útsendingu, sem sagt fjármögnuð með veruleikasjónvarpi þannig að detti áhorfið niður hætta vistir að berast og lending á Mars ekki sjálfsögð. Ferðin á að taka 300 daga. Fljótlega upphefst togstreita milli ungmennanna, fyrst út af makavali þar sem margir vilja vera með sumum og fáir með öðrum. Valdabarátta brýst út og leiðtogaskipti verða þegar Rut (María Thelma Smáradóttir) brýst til valda og enn aftur þegar Viktor (Alexander Erlendsson) veltir henni úr sessi. Þegar það gerist er áhorf dottið niður og áhöfnin farin að berjast fyrir lífi sínu.

Þetta virkar eins og blanda af Hungurleikunum, Star Wars, Lost og öðrum unglinga- og afþreyingarmyndum en ristir dýpra.
Smám saman kemur líka í ljós að þau hafa öll sínn djöful að draga eins og Brynja (Birna Rún Eiríksdóttir) sem hefur yfirgefið barnið sitt og kemur á fölskum forsendum í ferðina. Það uppgötvar hörkutólið Kolbrún (Aldís Amah Hamilton) og er ekki sátt. Í hópnum vex óþolið í innilokuninni og návíginu. Vigdís (Íris Tanja Ívars Flygering) verður tilefni til trúarofsókna, hún er músin sem læðist og þráir Viktor sem hún getur ekki fengið. Lúserinn Sölvi (Hjalti Rúnar Jónsson) er glaðlyndur og ristir ekki mjög djúpt því hann hugsar bara um kynlíf og hinn duli Már (Sigurbjartur Sturla Atlason) vill líka eignast kærustu en bara þá sem hann getur ekki fengið, þá fögru en grimmu Ester (Snæfríði Ingvarsdóttur). Þetta virkar eins og blanda af Hungurleikunum, Star Wars, Lost og öðrum unglinga- og afþreyingarmyndum en ristir dýpra. Unga fólkið í geimskipinu þarf ekki að leysa þrautir til að lifa af – þau þurfa bara að halda athygli áhorfenda sem birtist í teljara á veggnum eins og alltsjáandi auga.

Betri er „selfie“….

Leikararnir ungu voru þrælgóðir og túlkuðu persónur sínar af mikilli íþrótt undir hugkvæmri stjórn Stefáns Jónssonar. Það verður gaman þegar þessi hópur kemur inn í leiklistarlífið. Þau lofa góðu.

Það verður gaman þegar þessi hópur kemur inn í leiklistarlífið. Þau lofa góðu.
Það er líka skotið föstum skotum í sýningunni á það „panopticon“ kerfi eða alsjána sem við höfum sjálf kallað yfir okkur í stöðugri sjálfssviðsetningu á samfélagsmiðlum, stöðugum fréttum af áliti allra á öllu milli himins og jarðar, sniðugheitum og fegurð í myndaregni eða eins og segir í ávarpi leikstjóra: „Öllum brögðum er beitt til að fjöldinn taki þátt í dansinum, sé deyfður, óupplýstur og fljóti sofandi að feigðar ósi. Betri er „selfie“ en samkennd.“[line]Leikstjóri: Stefán Jónsson, fagstjóri leikarabrautar
Tónlist og hljóðmynd: Árni Rúnar Hlöðversson
Leikmynd, búningar og leikmunir: Aron Bergmann Magnússon
Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson
Myndbandshönnun: Gabríel Markan, nemi í grafískri hönnun
Tæknistjóri: Guðmundur Felixson
Leikmyndarsmiður: Egill Ingibergsson
Aðstoð við sviðshreyfingar: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir

[Ljósmynd með grein: Þröstur Valgarðsson]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila