Dietrich BonhoefferStríðsárin voru nokkuð áberandi í nýafstöðnu bókaflóði eins og vænta mátti er réttir sjö áratugir eru frá stríðslokum. Íslensk þýðing á Fangelsisbréfum Dietrichs Bonhoeffer skipar þar mikla sérstöðu. Þar eru á ferðinni innhverfir, lágstemmdir textar sem gefa innsýn í daglegt líf og líðan fanga á stríðsárunum en beina jafnframt athyglinni að grundvallarspurningum trúar og mannlegrar tilvistar. Stríðið er þó sjaldan langt undan. Skriftirnar eru rofnar hvað eftir annað af loftvarnarflautum, loft- og stórskotaárásum. Fangelsisbréfin sýna meðal annars hvernig höfundur hélt ró sinni við þessar sérstæðu aðstæður.
Fangelsisbréfin
Íslensk þýðing, inngangur
og skýringar:
Gunnar Kristjánsson
Ljóðaþýðingar:
Sölvi Björn Sigurðsson
Hið íslenska
bókmenntafélag, 2015
Dietrich Bonhoeffer var þýskur guðfræðingur og prestur, fæddur 4. febrúar 1906, handtekinn 1943 og hafður í haldi uns hann var hengdur eftir sýndarréttarhöld 9. apríl 1945, þá 39 ára gamall. Bonhoeffer var frá upphafi rakinn andstæðingur nasista og vóg þar þungt afstaða þeirra til „líknardrápa“ auk kynþáttastefnunnar. Hann var einn af stofnendum og leiðtogum Játningarkirkjunnar. Hún var fremur fámennt klofningsbrot af lúthersku kirkjunni í Þriðja ríkinu sem starfaði á grundvelli Barmen yfirlýsingarinnar og lagði áherslu á að Kristur væri höfuð kirkjunnar en ekki Foringinn. Meirihlutinn innan lúthersku kirkjunnar hélt hins vegar hlýðni við stjórnvöld og starfaði undir heitinu Deutsche Christen. Umhugsunarefni er að hve miklu leyti hefðbundin tengsl ríkis og kirkju í hinum lúthersku hlutum Þýskalands réðu úrslitum um val manna í þessu efni. Hvernig bregst hefðbundin ríkiskirkja við skyndilegri valdatöku mannfjandsamlegra afla hvort sem hún er lögleg eða ekki?
Skrifin eru ekki yfirveguð, slípuð og fáguð heldur oft hripuð í flýti milli árása eða vegna þess að færi gefst á að koma þeim áleiðis til viðtakenda með hjálp vinveittra varða.Auðvitað er texti Fangelsisbréfanna ærið sérstakur og bréfin verður að lesa með tilliti til þeirra aðstæðna sem þau urðu til við. Þarna er að mestu um persónuleg sendibréf að ræða til foreldra og náins vinar. Inn á milli eru þó annars konar textar: ávarp til skírnarbarns, drög að ritgerðum og ljóð. Skrifin eru ekki yfirveguð, slípuð og fáguð heldur oft hripuð í flýti milli árása eða vegna þess að færi gefst á að koma þeim áleiðis til viðtakenda með hjálp vinveittra varða. Þá er sumt aðeins varðveitt í drögum og ljóðin alls ekki hugsuð öðru vísi en til að fiska eftir áliti vinar. Bonhoeffer upplifði sig ekki sem skáld. Bréfin mótast þó af því að við hlið bréfaskriftanna vann Bonhoeffer að annars konar skrifum auk þess sem hann sökkti sér í lestur og rannsóknir. Tilgangur bréfanna er líka ólíkur. Bréfin til foreldranna virðast skrifuð til huggunar og sálgæslu. Bréfritara er í mun að draga úr áhyggjum þeirra og sannfæra þau um að sér líði þrátt fyrir allt vel í varðhaldinu. Í bréfunum til vinarins vekur Bonhoeffer hins vegar stöðugt ágengari spurningar því lengra sem á fangavistina líður.
Fangelsisbréfin sýna á athyglisverðan máta hvernig mögulegt er að halda áttum og geðheilsu við þær aðstæður sem Bonhoeffer bjó síðustu ár ævinnar. Sænski „menningarpenninn“ Carl-Göran Ekerwald skilgreindi menningu á einum stað svo að hún væri sjálfsbjargarviðleitni og fælist í öllu sem maðurinn tæki sér fyrir hendur þegar honum væri ógnað, til dæmis af niðurdrepandi tilbreytingarleysi, tilgangsleysi, valdbeitingu og ofsóknum. Í Fangelsisbréfunum kemur glöggt fram hvers menntun, menning og trú má sín í þessu sambandi. Þangað sótti Bonhoeffer verkfæri til að skynja „fjölvídd“ í tilveru sinni sem vann gegn því að ótti og uppgjöf næðu tökum á honum.
Umhverfið, samfangar og fangaverðir, virðast hafa skynjað þessa sérstöðu hans og virst hann fullur rósemdar og hugrekkis. Hann brást einnig öðru vísi við loftárásum en ýmsir hinna. Þegar sumir misstu vald á líkamsvessum sínum er ósköpin dundu yfir leit hann á klukkuna og taldi ólíklegt að hrinan stæði nema svona eins og 10 mínútur í viðbót og þótti kaldranalegt. Bonhoeffer var þó fjarri því að telja að hinn kristni maður stæði öðrum framar eða að hin kristnu „svör“ hefðu meira vægi frammi fyrir lífi og dauða en önnur heiðarleg, mannleg viðleitni.
Það er áleitið álitamál hvort sá hugmyndaheimur sem við skyggnumst inn í með hjálp Fangelsisbréfanna eigi ekki ærið erindi inn í þá grunnfærnu orðræðu um trú og vantrú sem nú er stunduð í íslensku samfélagi.Í fangavistinni missti hefðbundin, kristin trúartjáning gjörsamlega merkingu sína fyrir Bonhoeffer sem og helstu stefnur og straumar í guðfræði samtíma hans. Hann segir þeirri hugsun stríð á hendur að Guð sé vinnutilgáta til að leysa óráðnar gátur í vísindum, listum eða þess vegna siðfræði. Í stað vélrænnar trúar á vélrænan Guð sem gripið er til þegar aðrar lausnir duga ekki (deus ex machina) leitaði hann einhvers annars og dýpra. Að lokum stóð hann frammi fyrir spurningunni hvort til sé „trúlaus kristindómur“ sem hæfi veraldlegu samfélagi og myndugu mannkyni, það er kristindómur án frasa, klisja og hefða sem varðaði ekki aðeins hjálpræði einstaklingsins heldur gjörvalls mannkyns, samfélags og heimsins alls.
Víst eyddi Dietrich Bonhoeffer síðustu árum ævinnar við aðstæður sem eru í grundvallaratriðum aðrar en við búum við. Við höfum engar forsendur til að setja okkur í spor hans. Það er hins vegar áleitið álitamál hvort sá hugmyndaheimur sem við skyggnumst inn í með hjálp Fangelsisbréfanna eigi ekki ærið erindi inn í þá grunnfærnu orðræðu um trú og vantrú sem nú er stunduð í íslensku samfélagi.
[fblike]
Deila