Vilborg Bjarkadóttir
Með brjóstin úti
Útúr, 2015

Með brjóstin úti er bók sem fangar augað, svo mikið er víst. Útlitshönnunin er í samræmi við titilinn; kápan er þakin teikningum af bleikappelsínugulum boltum með rauðar útstæðar geirvörtur. Brjóstin eru sannarlega úti og vekja athygli, líklega aðdáun jafnt sem hneykslun. Miðað við útgáfuárið 2015 mætti ætla að hér væri um að ræða geirvörtufrelsandi byltingarljóð en svo er þó ekki. Ljóðin í þessari fyrstu bók myndlistarkonunnar Vilborgar Bjarkadóttur fjalla vissulega um kvenlíkamann en útgangspunkturinn er ekki barátta við klámvæðingu heldur hið dramatíska ferli sem fer í gang þegar kona verður þunguð og eignast barn.

Líkaminn er miðlægur í öllu verkinu, bæði í ljóðunum og teikningum höfundar sem leika stórt hlutverk í heildarmynd þess. Ljóðin tjá upplifun og vangaveltur ljóðmælanda, sem er móðir, um getnað, meðgöngu og fyrstu mánuðina eftir fæðingu barns. Bókin skiptist að sama skapi í þrjá hluta: „upphafið“, „hamskiptin“ og „nýburann“. Myndirnar eru einfaldar og fremur grófar teikningar af líkömum og líkamspörtum, fyrst og fremst brjóstum – kápan góða er vitanlega úr sömu smiðju – en einnig píkum og eggjastokkum og bleyjubarni í síðasta hlutanum.

Eitt af meginþemum bókarinnar er vitanlega brjóst; nánar tiltekið þær breytingar sem verða á brjóstunum og hlutverki þeirra á meðgöngu og eftir fæðingu. Myndirnar sem ljóðmælandi dregur upp eru írónískar og stundum dálítið gróteskar en þó líka hlýlegar; líklega eru þær fyrst og fremst raunsannar:

geirvörturnar verða að salami
með meira litarefni en blátt m&m
nett brjóst verða að mjólkurbrúsum
á stærð við barnshöfuð
brjóstahaldaraskálin minnir á hatt
og ég breytist í venus frá willendorf
(bls. 31)

Brjóstin stækka ekki bara heldur fyllast af framandi vökva; þau eru „tilbúnar mjaltavélar / það eina sem vantar er kálfurinn“ (bls. 33). Eftir fæðinguna, þegar kálfurinn er mættur, fá þau svo nýtt hlutverk sem vissulega er göfugt en tekur einnig á:

brjóst
mamma
brjóst
mamma brjóst
ég vil mömmu […]

barnið étur upp
brjóstin, magann,
rassinn og mig alla […]
(bls. 55)

Teikningarnar undirstrika enn fremur viðfangsefni ljóðanna en í gegnum alla bókina má finna myndir af mjólkurspúandi brjóstum. Segja má að í þessu samspili mynda og ljóða sé bent á að við meðgöngu og fæðingu missir konan full umráð yfir líkama sínum, þar sem barnið verður hluti af líkamanum, breytir honum, nærist á honum og fær þar með ákveðinn yfirráðarétt yfir honum. Rómantísk upphafning á ástandinu og ferlinu öllu er víðs fjarri og það er mjög hressandi.

Annað meginþema bókarinnar er nátengt hinu en það er hvernig kvenlíkaminn verður eins konar almenningseign um leið og barn byrjar að vaxa innan hans; hann verður svæði sem fólk telur sig hafa rétt til að hafa skoðun á og skipta sér af. Írónían í þeim ljóðum sem taka á þessu er beittari en í brjóstaljóðunum og oftar en ekki samsett úr athugasemdum og spurningum sem dynja á ljóðmælandanum:

allir vilja snerta kúluna
leggja blessun sína yfir lífið
leggja blessun sína yfir barnið
(bls. 29)

en veistu þú munt sakna kúlunnar þinnar
en ertu viss um að þú sért ólétt
af því þú ert svo nett?
(bls. 26)

konur sem óska mér
til hamingju með barnið
horfa allar á magann minn

við hverju búast þær?
flötum nýstraujuðum maga?
(bls. 59)

Viðfangsefni þessarar hressilegu ljóðabókar er þannig vissulega áhugavert en úrvinnslan er ekki að sama skapi hrífandi. Ljóðin eru almennt einföld og blátt áfram, sem er oft kostur en tungumálinu er hér ekki beitt þannig að einfaldleikinn njóti sín. Málið er oft stirt og lítið er um áhrifaríkt myndmál eða annars konar dýpt sem kallar fram áhugaverð hugrenningatengsl. Frá þessu eru þó vissulega nokkrar undantekningar sem flestar koma fyrir í fyrsta hlutanum, áður en hamskiptin sjálf taka við, til dæmis í þessu stutta ljóði sem margfaldast að stærð þegar þeim tengingum sem það býður upp á er fylgt eftir:

babúska

heilt samfélag
af óléttum konum
(bls. 17)

Eins og áður segir má auðveldlega lesa íróníu út úr mörgum ljóðanna en þau eru þó ekki beinlínis fyndin, í það minnsta hittu þau ekki í mark hjá þessum lesanda sem saknaði þess að möguleikar tungumálsins væru nýttir betur og gengið væri lengra í að draga fram fáránleika eða undur þessara líkamshamfara.

Um höfundinn
Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og University College Dublin. Hún sinnir einnig stundakennslu og landvörslu þegar svo ber undir. Doktorsverkefni hennar fjallar um samkynja ástir í verkum eftir Elías Mar. Sjá nánar

[fblike]

Deila