Spámennirnir í Botnleysufirði

Skáldsaga Kims Leine, Profeterne i Evighedsfjorden, er komin út á íslensku í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar undir heitinu Spámennirnir í Botnleysufirði. Útgefandi er bókaútgáfan Sæmundur. Höfundurinn fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina árið 2013 og hefur fengið mikið lof fyrir verk sitt. Samhliða hafa orðið deilur um bókina í Danmörku og þá mynd sem dregin er upp af veru Dana í Grænlandi. Þýðingin hefur verið tilnefnd til íslensku þýðingaverðlaunanna.

Kim Leine
Spámennirnir í Botnleysufirði
Jón Hallur Stefánsson íslenskaði
Sæmundur, 2015

Þetta er mikið verk, 500 blaðsíður, og því stórvirki hjá bókaútgáfunni Sæmundi að gefa ritið út. Ég las frumútgáfuna fljótlega eftir útkomu hennar árið 2012 og heillaðist af verkinu; þess vegna gladdist ég að heyra af því að það hefði verið íslenskað, og nú berast fréttir af því að þýðingin sé tilnefnd til hinna íslensku bókmenntaverðlauna.

Ég las bókina m.a. vegna þess að Grænland hefur smám saman orðið æ mikilvægara í mínum eigin rannsóknum. Ég hef áttað mig á því að Grænland er mikilvægur hluti af sjálfsskilningi Íslendinga. Mér finnst ég líka sjá, þegar ég velti fyrir mér aðstæðum í þessum tveimur löndum, að þar sé margt líkara en fólk hérlendis hefur viljað vera láta. En það er önnur saga.

Bókin fjallar um líf trúboða í Grænlandi, Mortens Pedersen Falck. Við fylgjum honum frá æskuárum hans í Noregi, yfir til Kaupmannahafnar þar sem hann á að læra til prests, hvernig hann þroskast þar og lærir á lífið, en lengsti hluti verksins fjallar um veru trúboðans í Grænlandi og samferðafólks hans þar. Við fylgjum Morten Falck síðan aftur til Noregs þar sem hann dvelur um skeið, þá til Kaupmannahafnar og loks aftur til Grænlands. Frásögnin er þó ekki línuleg. Við förum fram og aftur í tíma.

Sagan gerist undir lok 18. aldar og í upphafi 19. aldar en dönsk stjórnvöld lögðu landið smám saman undir sig frá þriðja áratugi 18. aldar. Norski trúboðinn Hans Egede og föruneyti hans komu til Grænlands árið 1721. Í kjölfar þess voru smám saman stofnaðar fleiri trúboðs- og verslunarstöðvar víðs vegar á vesturströnd Grænlands, svokallaðar nýlendur eða kolonier. Nýlendustjórnin náði hins vegar ekki til austurstrandar landsins fyrr en á ofanverðri 19. öld og eftir að liðið var nokkuð á 20. öld, þegar landakröfur Norðmanna urðu til þess að komið var á fót verslunarstöðum á Austur-Grænlandi, hafið þar trúboð og fólk jafnvel flutt nauðugt-viljugt til Scoresbysunds til þess að styðja við yfirráð Dana yfir landinu. Síðan eru ekki liðin nema 90 ár.

Höfundurinn, Kim Leine, bjó um margra ára skeið í Grænlandi, lengst af á austurströndinni. Það er mikilvægt að taka fram vegna þess að þar eru félagsleg vandamál meiri en á vesturströndinni og einangrun meiri. Í Grænlandi er litið á fólk í Austur-Grænlandi sem hinn fjarlæga jaðar. Þar skilur líka á milli að tungumálið/mállýskan sem þar er talað er talsvert ólíkt því sem tíðkast vestanmegin. Kim Leine er norskur, eins og Hans Egede, ólst þar upp í fjölskyldu sem taldist til Votta Jehóva. Eftir að hann komst á unglingsár þoldi hann ekki við í þessu umhverfi, fór að heiman og til föður síns sem áður hafði yfirgefið fjölskylduna og sest að í Kaupmannahöfn. Þangað fór Kim og má víst segja að ekki hafi tekið betra við. Hann var misnotaður af föður sínum um árabil. Að námi loknu fluttist hann til Grænlands sem fyrr segir, með fjölskyldu sinni, eiginkonu og börnum. En fjölskylduböndin rofnuðu og smám saman náði áfengis- og eiturlyfjafíkn yfirhöndinni þar til hann fluttist frá Grænlandi og náði smám saman tökum á lífi sínu.

Spámennirnir eru því örlagasaga, saga yfirgangs, saga um mót menningarheima, nýlenduhyggju, um misnotkun, um byltingu og gagnbyltingu.
Í Spámönnunum eru sagðar margar sögur. Ein þeirra er þroskasaga ungs manns, manns sem kannar líf og dauða, prófar sig áfram, tengist, hleypst á brott, elskar, svíkur, gefst upp, fer til botns, rís upp. Þetta er líka saga margra annarra, nýlenduherra sem kúga, trúboða sem nauðga, „blendinga“ sem eiga sér ekki samastað, spámanna sem bjóða öllu byrginn, Grænlendinga sem lifa og deyja. Spámennirnir eru því örlagasaga, saga yfirgangs, saga um mót menningarheima, nýlenduhyggju, um misnotkun, um byltingu og gagnbyltingu. Hún er líka saga vonar og sagan um það hvernig nútíminn heldur inn í samfélag veiðimanna.

Spámennirnir eru þroskasaga, ungs manns sem kannar og greinir fólk og líf, bæði fyrir og eftir dauðann, manns sem ætlað er að fara tiltekna leið. Það hugnast honum ekki en hann fer hana samt áður en yfir lýkur. Við fylgjumst með þegar kynhvötin vaknar, hvernig hann myndar tengsl, hvernig afstaða hans mótast til tilverunnar, hvernig hann rýfur tengsl og svíkur, kannski vegna þess að hann getur ekki tengst neinum nánum böndum. Hið sama kemur líka fram síðar í verkinu eftir að hann hefur snúið aftur frá Grænlandi, hann á erfitt með að bindast annarri manneskju. Það er mikið um kynferðislegar lýsingar, samkynhneigð, oft ofbeldi, stundum mikið ofbeldi, lífið er lítils virði. Þegar sjómennirnir á skipinu á leiðinni til Grænlands hafa misnotað skipsdrenginn drepa þeir hann, hans er sökin.

Höfundur dregur upp mjög lifandi myndir af mannlífinu, bæði í Kaupmannahöfn og Grænlandi. Hann sannfærir lesanda um að hann hafi unnið heimavinnuna en hefur þó verið gagnrýndur fyrir að gera það ekki á fullnægjandi hátt. Thorkild Kjærgaard, fyrrum háskólakennari í Nuuk, hefur dregið fram misfellur í þessu tilliti. En varðar lesanda um það? Hann er ekki að kynna sér endursköpun sagnfræðings heldur að lesa skáldsögu.

Meginefni verksins fjallar um tengsl nýlenduherra og nýlendubúa og hvernig trúboðanum, Morten Falck og þeim sem hann tengist, reiðir af innan þess ramma. Hvernig nýlenduherrarnir stjórna lífi og dauða, byggja upp eigin heim, flytja allt með sér, jafnvel danska mold til þess að koma upp matjurtagarði. Hvernig allt sem tengist heimafólki er óæðra, einskis virði, hvernig mælikvarðarnir breytast, allt er mælt á kvarða hinna ráðandi. Jafnvel þeir sem standa lægst í danska virðingarstiganum eru miklu ofar en þeir sem eru efst í hinum grænlenska. Við fylgjumst með hvernig ofbeldið er alls ráðandi, ekki bara menningin sem er óæðri. Allt má taka. Sérstaklega konur, unglingsstúlkur. Nauðgun og misnotkun er daglegt brauð, jafnvel má nauðga dönskum konum og trúboðarnir nauðga eigin börnum. Líf Grænlendinganna er einskis virði; kýrin sem trúboðinn flutti með sér frá Danmörku fær miklu betra atlæti en heimafólkið.

Afleiðingin verður eyðilegging. Lífið verður fullt af fyrirlitningu, sjálfsfyrirlitningu, allt rotnar, fötin, húsin, fólkið. „Blendingarnir“ eru fyrirlitnir af öllum. Líka trúboðinn. Hann eyðileggst. Missir tennur, verður vannærður, lúsugur, missir auga, verður alki, þjófur, morðingi. Hverjir komast helst af? Valdið þrífst, kaupmaðurinn – sem jafnframt er veraldlegt yfirvald. Það var í raun svo að Konunglega danska einokunarverslunin og fulltrúar hennar voru yfirvaldið á Grænlandi. Sú stjórn var ekki lögð af fyrr en snemma á 20. öld. Böðullinn og smiðurinn, kemst líka af, eða hvað; hefur hann kannski mök við kú trúboðans? Og kaupmaðurinn hverfur á endanum í hafið.

En það er von. Sögusviðið er á tímum frönsku byltingarinnar. Það verður líka bylting í Grænlandi. Fólkið gerir uppreisn sem leidd er af grænlensku spámönnunum og hjónunum Maríu Magdalenu og Habakúk, María er í beinu sambandi við Krist. Þau hjónakorn voru til í verunni án þess þó að hafa haft nákvæmlega það hlutverk sem lýst er í bókinni. Þau koma á fót útópísku samfélagi, þar ríkir velsæld, friður og frelsi, án Dana, án Evrópumanna. Ekki skortur og neyð. Fólk streymir þangað. Samfélagið verður ógn. Nýlenduveldið fer þangað og leggur það í rúst. Það er athyglisvert að sjá að stundum svipar lýsingum höfundar á þessum vettvangi til umfjöllunar sumra landkönnuða sem voru í Grænlandi á ofanverðri 19. öld, t.d. norska heimskautafarans Friðþjófs Nansen. Í bókarlok fullyrðir trúboðinn Falck t.d. að heiðingjarnir séu betri en hinir kristnu. Það áleit Nansen líka og ýmsir fleiri landkönnuðir sem óttuðust afleiðingar nútímavæðingar á Grænland. Þrátt fyrir augljósa samúð með Grænlendingum dregur hann þó einnig fram hversu erfitt og hart lífið gat orðið í landinu: Á tímum hungursneyðar voru börn og gamalmenni borin út.

Bókinni lýkur svo með orðum Bertels Jensen kapelláns; það hefur verið friður og sæmileg velsæld vegna Napoleonsstyrjaldanna. Tengslin við Danmörku hafa rofnað tímabundið, prestunum fækkað og fólkið verður að standa á eigin fótum.

… sagan gleypir mann, byrjar og hættir ekki, stendur eiginlega á öndinni alveg frá upphafi, allt frá morði á annarri síðu.
Hvað með textann og þýðinguna? Persónusköpunin er trúverðug og sagan gleypir mann, byrjar og hættir ekki, stendur eiginlega á öndinni alveg frá upphafi, allt frá morði á annarri síðu. Þýðingin er líka glæsileg: „Prestakraginn, gjöf frá föður hans, er aftur kominn úr fellingunum, hann er slyttislegur og klístraður, og líkist bæklingi hirtum upp úr göturæsi. Hrosshárskollan hefur sogið í sig svo mikið vatn að hún hefur tvöfaldað þyngd sína og púðrið hefur safnast í þykka hveitiköggla sem lýsnar gera sér gott af“ (bls. 149). Aðeins eitt dæmi af mörgum um flottan og innihaldsríkan texta. Lýsing brunans í Kaupmannahöfn er líka mögnuð, svo tekin séu örfá dæmi af fjölmörgum mögulegum.

Það er engin tilviljun að Kim Leine tileinkar verk sitt grænlensku heimastjórninni og frumkvöðlum hennar. Eins og margir hafa bent á eru Spámennirnir rit sem fjallar um samtímann öðrum þræði: Um misvægið í samskiptum Dana og Grænlendinga, um söguna sem aldrei hefur verið gerð upp, um félagslegu vandamálin sem hrjá samfélagið. Takið völdin í eigin hendur er boðskapur Kims Leine, standið á eigin fótum. „Declare independence“ segir Björk.

Verkið er uppgjör við nýlendutíma, við nýlenduhugsun. Samhliða er það þó saga höfundarins, saga um leit, saga um misnotkun, saga um að geta ekki treyst og tengst, saga um það að falla til botns en ná samt upp á yfirborðið aftur. Morten Falck sneri aftur til Grænlands og það gerir Kim Leine líka með þessari bók. Í Danmörku vakti hún deilur sem fyrr segir, rangt væri farið með. Því fari fjarri að framkoma Dana hafi verið í líkingu við það sem lýst er í bókinni. Þvert á móti: Grænlendingar hafi verið heppnir að lenda undir yfirráðum Dana en ekki einhverra annarra: Danir hafi verið gott nýlenduveldi. Tengsl Dana og Grænlendinga hafi eiginlega ekki verið nýlendutengsl. Þessi efni verða ekki rædd ýtarlega hér, aðeins bent á að Danir hafa hafnað því að taka sæti í sáttanefnd sem ætlað er það hlutverk að leggja mat á samskipti þjóðanna. Má vera að enn sé ekki komið að því að Danir horfist í augu við sjálfa sig að því er Grænland varðar?

Kim Leine og Jón Hallur hafið þökk fyrir frábært verk. Það er mikilvægt að bókin hefur verið þýdd á íslensku, ekki aðeins vegna þess að hún er frábært listaverk heldur líka vegna þess að hún getur aukið skilning á aðstæðum í Grænlandi og dregið úr fordómum. Nú þegar samskipti Íslands og Grænlands aukast hratt þurfum við líka að átta okkur á af hverju hafa þau einkennst hingað til; þar er kannski líka ýmislegt sem betur hefði mátt fara.

Um höfundinn
Sumarliði R. Ísleifsson

Sumarliði R. Ísleifsson

Sumarliði R. Ísleifsson er sagnfræðingur og lektor í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað ímyndir Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar.

[fblike]

Deila