Hið kynjaða rými milli steins og sleggju

„Af hverju sjáið þið mig ekki sem manneskju?“ spurði ungi maðurinn frá Afganistan þar sem hann sat á móti hópi fólks á Lesbos og horfði beint í augun á okkur öllum. Ég var þar stödd sumarið 2014 að gera hluta af doktorsrannsókn minni. Þessi setning snerti mig djúpt því ég hafði heyrt hana svo oft og átti eftir að heyra út allt vettvangsnám mitt.
Reza[1] ólst upp í flóttamannabúðum í Íran, við litla menntun og mikinn rasisma. Þegar hann yfirgaf búðirnar var hann ekki með á hreinu hvað hann væri gamall í vestrænum skilningi en þegar hann kom til Lesbos, líklega í kringum 15 ára, tóku landamæraverðir á móti honum með gúmmíhanska, sjúkragrímur og Ray-ban spegilsólgleraugu, líkt og hann væri hlutur til meðhöndlunar án tilfinninga. Samskipti flóttafólks[2] við landamæraverði hafa verið af ýmsu tagi. Annars vegar hafa landamæraverðir vald til að „bjarga“ flóttafólki og hefja ferli þeirra til að fá hæli í Evrópu og fyrir það er fólkið mjög þakklát. Hins vegar hafa landmæraverðir sýnt afskiptaleysi og látið eins og flóttafólkið séu ekki manneskjur. Hættulegasta framkoman er þó á sjóleiðinni en þá getur flóttafólk átt von á að landamæraverðir stingi á báta þeirra, skilji það eftir á sökkvandi bátum, skapi hættulegar öldur með sínum stóru bátum eða skjóti úr rifflum nálægt þeim til að „hvetja“ þau til að fara til baka. Flóttafólk er búið undir harkalega framkomu smyglara en það verður flest fyrir áfalli þegar það uppgötvar hvernig ástandið er innan Evrópu og hið langa limbó sem bíður þeirra.

Sumarið 2014 var verið að gera flóttamannabúðirnar Moria klárar. Þeim var komið á laggirnar fyrir tilskipanir frá Evrópusambandinu vegna harkalegra umsagna frá alþjóða mannréttindasamtökum um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi.[3] Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna (UNCHR) kom að uppbyggingu búðanna í þeirri von að betur mætti gæta þess að viðkvæmir hópar væru aðskildir og ástandið mannúðlegt. Í skjóli orðræðu um mannúð hafa Evrópuríkin tekið þátt í að endurskipuleggja hælisleitendakerfið í Grikklandi svo hægt sé að auka endursendingar. Ennfremur er nú tekist á um það hvort hægt sé að senda til baka fólk sem þegar hefur fengið flóttamannastöðu. En áður en málefni flóttafólks komust í hámæli innan landamæra Evrópu, voru jaðarlönd álfunnar undir miklum þrýstingi að takmarka þann fjölda sem kæmist inn. Þá var það þekkt meðal hjálparstarfsmanna að grískir laganna verðir færu með hælisleitendur aftur yfir landamærin til Tyrklands í skjóli nætur og án þess að mál þeirra væru tekin fyrir. Ungverjalestin alkunna er því ekki ný af nálinni, bara sýnilegri.

Aðstæður við Moria flóttamannabúðirnar.
Aðstæður við Moria flóttamannabúðirnar.

Á Lesbos býr eldri kynslóð flóttafólks sem kom þangað í kringum 1920 og ættmenni þeirra. Þau þekkja vel erfiða aðstöðu og félagslega andúð í kjölfar nauðugra fólksflutninga. Ýmislegt bendir til þess að reynsla þeirra hafi haft þau áhrif að innan Lesbos hafa ýmis grasrótasamtök sprottið upp til að aðstoða flóttafólk.[4] Heimafólk í Mytilini opnaði til dæmis stað sem það kallaði „Þorp fyrir alla“, þar sem það mætti reglulega með heimatilbúin mat fyrir flóttafólk. Meðal flóttafólksins var konan Dina, sem var búin að bíða marga mánuði eftir að komast að því hvað hafði orðið af manni hennar og eldri syni.

Afganskur faðir sem missti börnin sín í sjóslysi við strendur Farmakonisi.
Afganskur faðir sem missti börnin sín í sjóslysi við strendur Farmakonisi.

Þau höfðu komið saman yfir landamærin en verið aðskilin í fyrstu skimun þar sem fullorðnum körlum innan fjölskyldunnar var komið fyrir í lokuðum búðum en henni ekki tjáð hvar þær væru. Hún óttaðist að þeir væru dánir og eina leiðin til að vita af dauða þeirra væri að gramsa í gegnum giftingahringi sem stundum eru geymdir í skrifstofuskúffum. Dauðsföll hafa verið algeng innan lokaðra búða, eða fangelsum eins og flóttafólk kallar þær, og í Grikklandi hefur gengið illa að halda skrár um dauðsföllin og ástæður þeirra.[5] Þau lík sem ekki er gert tilkall til innan við viku eftir að manneskjan deyr eru grafin í fjöldagröf en skart, skjöl og fingraför eru geymd. Flóttafólk deyr einnig í öðrum löndum innan við landamæri Evrópu og það er ekkert nýtt. Öfgasinnaði flokkurinn Gullin dögun, sem er nú fyrir rétti vegna ákæru um morð og líkamsárásir, opnaði útibú á Lesbos árið 2014 og ræðst nú jafnt á flóttafólk og fólk sem aðstoðar það. En það var bæði heimafólk og fólk innan alþjóðlegra grasrótarsamtaka sem aðstoðaði Dinu við að finna mann sinn og son. Á meðan hafði yngri sonur hennar komist í kynni við fótboltaæfingar og stelpan var farin að æfa körfubolta. Þau vonuðust bæði eftir því að geta einhvern daginn komist í fræg lið í Bretlandi.

Þeir sem hafa komið fyrr hjálpa nýkomnum.
Þeir sem hafa komið fyrr hjálpa nýkomnum.

Hinar kynjuðu væntingar og niðurlægingar

Innflytjendalög í Evrópu hafa lengi beinst meira að karllægu vinnuafli. Í kjölfar hertra innflytjendalaga hefur hælisleitendakerfið þróast þannig að körlum er frekar hafnað,[7] en á meðan sóst var eftir ódýru vinnuafli þeirra varð til hringrás flutninga þar sem ungir karlar sanna verðugleika sinn með því að sækja vinnu hvar sem hana er að fá.[8] Þetta fyrirkomulag á sér meðal annars rætur í kapítalísku fyrirkomulagi sem nýlenduveldin komu á.[9] Hér er þó um að ræða flókið samspil hættu, hörku og vonar um friðsælt líf. Karlarnir eru oft sendir ungir af heimilum sínum með fjölskyldusparnaðinn til að forða þeim frá ISIS eða öðrum ofbeldisfullum samtökum. Oft býðst þeim ekki skólaganga vegna stríðsátaka eða þeir þurfa að hætta henni. Stundum eru strákarnir sendir af stað ef annað foreldrið er látið eða alvarlega veikt. Fjölskyldan vonar að með flóttanum geti þeir átt möguleika á stöðugri vinnu utan harkalegrar valdabaráttu, og geti síðan sent peninga til baka fyrir matvælum og lyfjum frá einkavæddum markaði. Þá kemur fyrir að þeir senda peninga til að systur þeirra geti gifst mönnum sem þær velja og eru vel staddir. Það eitt að fjölskyldur geti sagt að sonur þeirra sé á þessari leið getur gefið henni von og virðingu í nánasta samfélagi.

Ungur afganskur maður að passa barn bróður síns.
Ungur afganskur maður að passa barn bróður síns.

Á leið sinni lendir flóttafólk í allskyns hremmingum, af völdum bæði manna og náttúru. Ein hættan stafar af glæpasamtökum sem halda fólki frá fjölskyldunni og krefjast lausnargjalds. Þar eru ungir karlar margbarðir meðan konur eiga frekar á hættu að vera nauðgað. Þá er ekki gott að vera kvenlegur karl. Einn viðmælandi minn taldi að eina ástæðan fyrir að honum var sleppt hefði verið sú að hann var svo duglegur að harka af sér og þannig náð til glæpamannanna. Annar tjáði mér hvernig talsmenn ISIS hafi nálgast hóp hans með allskyns gylliboðum um betra líf hjá þeim frekar en í Evrópu þar sem þeim er tekið með einangrun, fordómum og niðurlægingu. Hættan á ofbeldi liggur líka innan Evrópu, eins og sést á aðgerðum evrópskra öfgasamtaka.

Á sama tíma bendir ýmislegt til þess að fólki sem sýnir gerendahæfni við að bjarga sér sjálft og neitar að láta skilgreina sig eingöngu með fórnarlambshugtakinu sé frekar hafnað í evrópska hælisleitendakerfinu.
Einum viðmælanda mínum var nauðgað innan þýskra flóttamannabúða af fimm gæslumönnum og einni konu. Kynjagjörningur (e. gender performance) hans liggur í því að hann klæðist gjarnan glansandi fatnaði og hefur kvenlegar hreyfingar en skilgreinir sjálfan sig ekki sem samkynhneigðan. Þá er ekki óalgengt að asískir karlar með minni líkama séu niðurlægðir í tengslum við kvenleika. Kynferðislegar árásir og aðdróttanir eru þekkt tæki í átökum til að niðurlægja karla.[10] Karlar eru einnig niðurlægðir með því að láta þá verða vitni að nauðgunum á konum í lífi þeirra. Þetta ofbeldi á sér stað meðal margvíslegra hópa sem verða á leið flóttafólks. Á sama tíma bendir ýmislegt til þess að fólki sem sýnir gerendahæfni við að bjarga sér sjálft og neitar að láta skilgreina sig eingöngu með fórnarlambshugtakinu sé frekar hafnað í evrópska hælisleitendakerfinu.[11] Limbóið sem flóttafólk fer nær undantekningarlaust í gegnum einkennist því af flóknu samspili auðmagns, virðingastöðu og kynjagjörnings.

Heitir reitir og aðgreining á verðugum líkömum

Í dag er Moria orðin að fyrstu „heitu reitunum“ í Grikklandi sem eru til þess gerðir að afmarka þá verðugu frá hinum sem ekki eru taldir „alvöru“ flóttafólk. Á meðan sæmilega er hugað að þeim sem hafa sýrlenskt vegabréf er „öllum hinum“, körlum, konum og börnum; fötluðum, feminístum og hinsegin fólki; Afgönum, Írökum og Palestínumönnum, svo einhver dæmi séu tekin, safnað saman á annan stað og afgreiðsla þeirra mála fær enga flýtimeðferð.

Opnu búðirnar Pigba
Opnu búðirnar Pigba (“þorp fyrir alla”) sem grasrótarsamtök, heimamenn og
hjálparsamtök reka nú saman. Mynd: Achilles M. Peklaris.

Sýrlendingar byrjuðu að fá flýtimeðferðir í gegnum kerfið þar sem þeim var í raun veitt bráðarbirgðahæli í Grikklandi til þess að fólkið gæti haldið áfram för sinni. Þetta gerðist eftir setumótmæli þeirra í desember 2014, fyrir framan þinghúsið þar sem von var á evrópskum sendimönnum til samræðna við grísku stjórnina um næsta niðurskurð. Mikil mótmæli Grikkja gegn þeim niðurskurði runnu því saman við mótmæli flóttafólks sem varð til þess að grískur almenningur vaknaði til vitundar um hversu alvarlegt ástandið var. Ekki ósvipað og þegar Evrópa byrjaði að átta sig eftir að myndin af líki unga stráksins Alyn flaug um samfélagsmiðla. Í því samhengi er mikilvægt að skoða hvaða líf og líkamar skipta í raun og veru máli. Hvers vegna ungu barnslíkin við strendur Túnis á svipuðum tíma fengu ekki eins mikla athygli og líkið af Alyn. Hvers vegna afganski faðirinn sem missti börn sín í sjóinn í átökum við grísku landhelgisgæsluna vorið 2014 var talinn ámælisverður fyrir að hafa lagt út í slíka hættu með börnin sín á meðan sýrlenski faðir Alyns hlaut mikla alþjóðlega samúð árið 2015. Fjöldamorð á kaffihúsum í París hafa djúp áhrif á okkur en dauðsföll á ströndum Miðjarðarhafsins, sem á þessu ári eru orðin fleiri en 2500, gera það ekki lengur. Það fórust 23 manneskjur í síðasta stórsjóslysi sem átti sér stað við strendur Lesbos í lok október 2015 og létu starfsmenn Frontex, það er landamærastofnun Evrópu, reipin hanga niður út bátunum án nokkurra annara aðgerða meðan fólkið drukknaði í kringum þá. Það fór ekki í fréttamiðla Norður-Evrópu.

Skaðleg karlmennska

Sumarið 2012 var sett í grísk lög að leyfilegt væri að halda hælisleitendum í allt að 18 mánuði í lokuðum búðum. Ef þeir sækja ekki um hæli í Grikklandi að þeim tíma loknum eru þeim veittir hvítir pappírar sem gefa þeim sex daga til að yfirgefa landið. Ef fólkið finnst í landinu eftir þann tíma, er því aftur hent í fangelsi í 18 mánuði.[12] Þegar sýrlenska fjölskyldan á Íslandi segist hafa neyðst til að sækja um hæli í Grikklandi, eru þetta aðstæðurnar sem þeim stóðu til boða. Við þetta bætist að í nýlegri „tiltekt“ í grísku hælisleitendaumsóknum, var sumum hælisleitendum veitt innflytjendastaða því þeir höfðu verið 10-15 ár í kerfinu og ekki talið að þarna væri um „alvöru“ flóttafólk að ræða lengur. Innflytjendastöðu fylgir ekki sami aðgangur að menntun eða læknishjálp og flóttamannastöðu. Þá bíða innflytjenda óstöðugar reglur varðandi endurnýjun á innflytjendastöðu þar sem dvalartími, vinnutími, húsnæði og velvilji vinnuveitanda mynda flókið samspil og er metið á mismunandi hátt hjá opinberum stofnunum. Þessu umstangi fylgir mikill kostnaður. Fáist hins vegar flóttamannastaða í dag eru litlar líkur á að hægt sé að finna stöðuga vinnu og viðeigandi húsnæði.

Ungir karlar sem leita hælis eiga mjög á hættu að enda sem dreggjar samfélagsins í suðurhluta Evrópu, sérstaklega ef þeir hafa ekki fjármagn, líkamsburði eða menntun á bak við sig. Þeir sem koma frá stöðum þar sem langvarandi stríðsátök hafa átt sér stað eru því verr staddir. Margir þeirra eiga þann draum heitastan að geta menntað sig til að opna huga sinn og fá fleiri atvinnutækifæri. Ef þeir fá vinnu er hún gjarnan óstöðug, illa borguð og margir heimamanna líta á þá sem undirlægjur annarra karla.[13] Ef þeir krefjast þess að fá öll laun sín borguð eiga þeir á hættu að skotið sé á þá eða þeir barðir af nýnasistum sem segja þeim að fara aftur heim. Þessu láglaunakerfi án réttinda er viðhaldið til að framleiða gæðavörur fyrir Norður-Evrópubúa. Þar sem ungu karlarnir þykja óöruggar fyrirvinnur og eru jafnan tengdir glæpastarfsemi í fjölmiðlum eru þeir ekki litnir hýru auga af heimafólki sem tilvonandi makar. Á sama tíma þykja sumir þeirra kynferðislega framandi og verða eftisóttir í leynum. Ungir karlar frá Afríku verða til dæmis reglulega fyrir því að þeim eru boðnir peningar eða umbun fyrir kynmök af bæði körlum og konum, en hins vegar vill fátt heimafólk sjást með þeim á kaffihúsum. Þá er eina leiðin fyrir marga unga asíska karla til að draga fram lífið, að selja líkama sína eða eiturlyf í almenningsgörðum. Að mörgu leyti standa sýrlenskir karlar hér betur vegna menntunar sinnar og fjársterkari fjölskyldna, en þeir eru vel meðvitaðir um hversu viðkvæm þessi staða er og leggja því áherslu á að geta haldið áfram menntun sinni eða komið börnum sínum til mennta.

[pullquote type=”left”]Hann telur þetta geta ýtt undir þátttöku ungra karla í öfgakenndum samtökum.[/pullquote] Þarna þarf mikla hörku til að lifa af, karllæga hörku sem Raewyn Connell[14] hefur tiltekið sem skaðlega karlmennsku og getur haft víðtæk langvarandi áhrif. Í þessu samhengi hefur Richard Howson,[15] sérfræðingur í karlafræðum, bent á hættuna sem skapast við aðstæður þar sem unga karla í fólksflutningum vantar uppbyggilegt félagsnet, öruggt húsnæði og möguleika á atvinnu. Án þessa verða þeir sífellt jaðarsettir. Hann telur þetta geta ýtt undir þátttöku ungra karla í öfgakenndum samtökum. Um nokkurt skeið hefur því fræðafólk sem unnið hefur með ungum körlum með flóttamannabakgrunn bent á nauðsyn þess að bæta aðgengi ungu karlanna að menntun og starfstækifærum ásamt því að styðja betur við samlögun þeirra að nýjum samfélögum.[16]

Kynjuð skimun

Í bók sinni Imperial White gerði Radhika Mohanram[17] grein fyrir því hvernig breskir yfirstéttarkarlar ætluðust til að indverskir karlar tækju upp þeirra siði og vestlæg kapítalísk viðmið en gáfu þeim þó aldrei sama aðgengi að fjármunum og samböndum. Með því var ímynd indverskra karla viðhaldið sem óæðri. Mohanram telur að þetta hafi einnig átt við meðal breskra verkamanna sem voru álitnir „svartir“ vegna vinnu sinnar. Með þessu tryggðu hvítir yfirstéttarkarlar sér fjárhagslega og siðferðislega yfirburðastöðu.

Þetta er nú að gerast í mannúðarstarfi og landamæravörslu í Evrópu. Á meðan „hetjurnar okkar“ bjarga konum og börnum úr sjó, er starfsfólk stofnana undir þrýstingi að ákveða hvaða manneskur séu nógu aumkunarverðar til að bjarga áfram en snúa við þeim sem ekki teljast verðugir. Slíkt sérval á „verðugum manneskjum“ út frá pólitík og vestrænum hagkvæmnissjónarmiðum kallast kirsuberjatínsla í flóttamannafræðum. Þátttaka mannréttindasamtaka, hjálparsamtaka og akademískra fræða er liður í þeirri þróun sem ákveður hvaða manneskja er nógu aumkunarverð til að vera bjargað. Engu síður hafa fræðin sýnt að á bak við lög og reglur liggja vestrænar kynjaðar, þjóðernislegar og stéttskipaðar staðalmyndir sem hefur áhrif á þá manneskju sem sér um mat á hælisleitandaumsóknum. Þá eiga slík matsviðtöl sér oftast stað inni í flóttamannabúðum, á landhelgisstöðum eða á lögreglustöðvum. Valdastöðum þar sem margvíslegt félagslegt og líkamlegt ójafnvægi er til staðar. Þeim sem ekki þykja geta sannað þá hættu sem að þeim steðjar nægilega vel (og hér er vert að muna hið almenna viðhorf að karlar eigi að harka af sér), eða þykja af öðrum sökum vanhæfir til hælisvistar, er vísað frá, aftur í syðri lönd Evrópu sem geta lítið boðið upp á varðandi vinnu svo þeirra býður lítið annað en gatan, almenningsgarðarnir og eiturlyfjaheimurinn.

Endursendingar hælisleitanda kristalla í raun endursköpun ímyndarinnar af syðri löndum Evrópu sem ósiðmenntuðum, villimannslegum og framandi stöðum, líkt og Heath Cabot[19] hefur nýlega gagnrýnt. Ég tel jafnframt að þessi endursköpun á landamærum Evrópu séu átök um kynjaðar ímyndir og gjörning. Þar er gerendahæfni erlendra karla og kvenna síður virt en ýtt undir aumkunarvæðingu á forsendum mannúðar; þar er fólki bjargað sem er nógu aumkunarvert til að norðurhluti Evrópu geti haldið mannúðar- og jafnréttisímynd sinni en síður því fólki sem reynir að bjarga sér sjálft. Undantekningin á því er fólk sem hefur ákveðin menningarlegan og efnahagslegan auð á bak við sig en aðeins upp að ákveðinum marki og tímabundið. Þannig eru menntaðir sýrlenskir karlar á flótta aftur að takast á við neikvæðar staðalmyndir eftir að sýrlenskt vegabréf fannst við hlið eins árásarmannanna í París. Þó hefur ekki verið hægt að sanna það að vegabréfið sé ófalsað né að það hafi tilheyrt árásarmanninum. Engu síður hefur verið gert mikið úr vegabréfsmálinu í fjölmiðlum og því haldið pólitískt á lofti til að stöðva eða takmarka móttöku flóttafólks. Vegabréfsmálið er gott dæmi um glæpavæðingu ungra flóttakarla, líkt og Peter Mascini hefur bent á, þar sem ákveðnum fjölmiðladæmum er haldið á lofti og þau yfirfærð í staðalmyndir. Ennfremur dregur Mascini fram í rannsókn sinni að þeir ungu menn sem minna eru glæpavæddir eru taldir of miklir aumingjar sem ætli sér að hanga á almannabótum og fá því ekki hæli. Afganskir ungir karlar í Aþenu þurfa sérstaklega að fást við þennan stimpil án þess að horft sé til langvarandi áhrifa stríðs í heimalandi þeirra. Þetta á einnig við um unga karla af ýmsum öðrum þjóðarbrotum sem sækjast eftir að skapa sér virðingarvert líf í Evrópu.

Sofið á götunni.
Sofið á götunni.

Að velja eitthvað annað

Engu að síður neita margir ungir karlar með flóttamannabakgrunn að láta skilgreina sig samkvæmt staðalmyndum ofbeldis, kvenkúgunar og fordóma gagnvart samkynhneigðum. Í rannsókn minni kom í ljós að með félagslegri samvinnu við heimafólk tóku þeir þátt í að hjálpa og bjóða velkomið nýkomið flóttafólk, elda mat og dreifa honum til þeirra, og lögðu sig ekki síst fram að tína upp rusl og skipuleggja klósettþarfir svo að heimabúum væri ekki ofboðið og aðstæður flóttafólks yrðu viðunnandi. Margir hverjir mæta áhugasamir á fundi eða mótmælagöngur þar sem réttindi kvenna eða samkynhneigðra eru í fyrirrúmi þótt á þeim brenni margar spurningar. Samhliða þessu láta þeir raddir sínar heyrast á opinberu svæði og krefjast þess að alþjóðleg mannréttindi séu virt. Þetta á ekki við um alla ungu karlana sem koma til Evrópu, en þetta félagsnet stækkar sífellt.

Við sem erum í þeirri aðstöðu að vera (a.m.k. sem stendur) „réttu“ megin landamæranna getum líka tekið þá ákvörðun að láta ekki staðalmyndirnar stjórna okkur. Val fólks innan Evrópu varðandi móttöku á flóttafólki eftir árásirnar í París stendur milli þess að styðja meiri hörku í landamæravörslu og halda uppi enn sérvaldari kirsuberjatínslu, eða finna aðrar leiðir eins og að leggja meira í almenn samskipti við erlent fólk án sífelldrar aðgreiningar. Velja að styðja við menntun og uppbyggingu á heilbrigði sjálfsmynd þeirra þar sem jafnréttis- og mannréttindasjónarmið eru höfð í heiðri í daglegri tilveru hvers og eins.

[line]

[1] Nöfn sem hér eru notuð eru dulnefni.

[2] Lagalegur skilningur byggist á því að fólk sé hælisleitendur þar til að hæli hefur fengist, eftir það breytist skilgreiningin í flóttafólk. Fæst flóttafólk í rannsókn minni gerir þennan greinamun og lagaleg staða þeirra er fljótandi í mörgum tilvikum. Ennfremur er orðið hælisleitandi karllægt og út af staðalmyndum álitið neikvætt. Því nota ég í flestum tilvikum hugtakið flóttafólk.

[3] Invisible suffering. Prolonged and systematic detention of migrants and asylum seekers in substandard conditions in Greece (2014). Medecins sans Frontieres/Doctors without Borders. Special Report; Unwelcome guests. Greek police abuses of migrant in Athens. (2013). Human rights watch.

[4] Hér er þó um að ræða margþætt áhrif eins og gestrisni og samfélagslega ábyrgð í sjálfsmynd Grikkja sem og andóf við ásökunum Evrópusambandsins og neikvæðum staðalmyndum af Grikkjum.

[5] Themeli, O. (2006). Suicide in the Greek penal system and the problem of various limitations in relevant studies. Crisis, 27(3), 135-139.

[6] Nýlega varð lesbísk kona fyrir árásum af hendi eldri gríska karla innan Gullinnar dögunar þar sem þeir kölluðu hana „ljóta píku“ fyrir að hjálpa ungum karlkyns flóttamönnum.

[7] Mascini, P. (2009). Gender stereotyping in the Duch asylum procedure: “Indipendent” men versus “Dependent” women. International migration review, 43 (1), 112-133.

[8] Dimitriadi, A. (2013). Migration from Afghanistan to third countries and Greece. Irma, Background report: Migration system 3(Afghanistan). Athens: Hellenic foundation for European and foreign policy.; Vacchiano, F. (2013). Fencing the south: The strait of Gibraltar as a paradgim of the new border regime in the Mediterranean. Journal of Mediterranean Studies, 22(2), 337-364.

[9] Connell, R.W. (2005). Masculinities (2. útgáfa). Cambrigde: Polity Press.; Moore, H.L. (1988). Feminism and anthropology. Cambridge: Polity Press.

[10] Sjá sem dæmi: Papailias, P. (2003). ‘Money of kurbetis money of blood’: the making of a ‘hero’ of migration at the Greek-Albanian border. Journal of Ethnic and Migration Studies, 29(6), 1059-1078.

[11] Cabot, H. (2013). The social easthetics of eligibility: NGO aid and indeterminacy in the Greek asylum process. American Ethnologist, 40(3), 452-466.; Ticktin, M. (2006). Where ethics and politics meet: The violence of humanitarianism in France. American ethnologist, 33(1), 33-49.

[12] Það er í vinnslu nýrrar stjórnar að afnema eða breyta þessum lögum.

[13] Bartolomei, M.R. (2010). Migrant male domestic workers in comparative perspective: Four case studies from Italy, India, Ivory Coast, and Congo. Men and masculinities, 13(1), 87-110.

[14] Connell, R.W. (2005). Masculinities (2. útgáfa). Cambrigde: Polity Press.

[15] Howson, R. (2014). Re-Thinking Aspiration and Hegemonic Masculinity in Transnational Context. Masculinities and Social Change, 3 (1), 18-35.

[16] Rees, S. and Pease B. (2007) ‘Domestic Violence in Refugee Families in Australia: Rethinking Settlement Policy and Practice’, Journal of Immigrant & Refugee Studies, Vol. 5, No. 2, pp. 1-19.; Block, K., Warr, D., Gibbs, L. and Riggs, E. (2012). Addressing ethical and methodological challenges in research with refugee-background young people: Reflections from the field. Journal of refugee studies, 26 (1), 69-87.

[17] Mohanram, R. (2007). Imperial white: Race, diaspora and the British Empire. Minneapolis & London: University of Minnesota.

[18]   Fassin, D. (2011). Policing borders, producing boundaries. The governmentality of immigration in dark times. Annual review of anthropology, 40, 213-226.; Malkki, L. (1995). Refugees and Exile: from “Refugee Studies to the national order of things. Annual review of anthropology, 24, 495-533.

[19] Capot, H. (2015). Crisis and continuity: A critical look at the „European refugee crisis“. Allegra Lab. Sótt af slóðinni: http://allegralaboratory.net/crisis-and-continuity-a-critical-look-at-the-european-refugee-crisis/

Forsíðumynd: Achilles M. Peklaris

 

Um höfundinn
Árdís Kristín Ingvarsdóttir

Árdís Kristín Ingvarsdóttir

Árdís Kristín Ingvarsdóttir er doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands. Þar kláraði hún MA gráðu í mannfræði og aukalega diplómu í hnattrænu ferli, fólksflutningum og fjölmenningu. Jafnframt er hún í samstarfi við Panteion háskólann í Aþenu, Alþjóðlegu hollensku stofnunina í Aþenu og ýmis félagasamtök á Íslandi, í Noregi og Grikklandi.

[fblike]

Deila