Örlagasaga ómagadrengs

Iðunn Steinsdóttir
Hrólfs saga
Salka, 2015
Iðunn Steinsdóttir hefur á undanförnum áratugum getið sér orð sem einn ástsælasti barna- og unglingabókahöfundur þjóðarinnar og einbeitt sér fyrst og fremst að skrifum fyrir yngri lesendur. Nýjasta bók hennar, Hrólfs saga, er söguleg skáldsaga en er þó sögð að miklu leyti út frá sjónarhóli barns og sver sig því í ætt við fyrri verk höfundar. Hér er um að ræða örlagasögu ungs fátæks Íslendings á síðari hluta 19. aldar, sem byggð er á ævi langafa Iðunnar en hún ritar einnig eftirmála þar sem tildrög verksins eru rakin.

Saga aðalpersónunnar Hrólfs er rakin frá sjö ára aldri og fram á fullorðinsár. Hann er sveitarómagi sem er aðskilinn frá móður sinni, stjúpföður og systkinum og sendur á nýjan bæ á hverju ári þar sem misjafnlega vel er að honum búið. Þegar hann vex úr grasi gerist hann vinnumaður en er engu að síður háður ákvörðunum hreppsnefnda og eftir að hann giftist og eignast börn þarf hann að berjast fyrir því að halda fjölskyldu sinni saman. Saga ómagadrengsins er kunnugleg og ekki er laust við að Hjalti litli úr bókum Stefáns Jónssonar komi upp í hugann. Hið sérstaka og um leið áhugaverðasta við þessa bók eru hins vegar örlagaatburðirnir sem gerast þegar Hrólfur er orðinn fjölskyldufaðir og óréttlætið sem mætir honum þá – sem verður áþreifanlega óþægilegt þegar hugsað er til þess að byggt er á sannsögulegum atburðum. Sú atburðarás hefði að ósekju mátt fá meira rými og velta má fyrir sér hvort ekki hefði mátt bæta við söguna og lengja hana en bókin er aðeins 150 síður.

Hrólfs saga er að mörgu leyti hörmungarsaga sem greinir frá misrétti og bágum kjörum þeirra sem einna lægst voru settir í samfélagi 19. aldar en lesturinn er þó hvorki sérlega erfiður né þrúgandi, fyrst og fremst líklega af því að sjónarhorn frásagnarinnar er Hrólfs en hann er jákvæður, duglegur og lífsglaður drengur sem tekst á við erfiðleika af æðruleysi. Önnur ástæða er frásagnarstíllinn sem einkennist af samtölum persóna, stuttum einföldum setningum og bernskum hugsunum og innskotum sögumanns. Þessi barnabókastíll, ef svo má að orði komast, er auðveldur aflestrar og hentar vel sjónarhorni ungrar aðalpersónu en ég saknaði meiri dýptar þegar líður á söguna og Hrólfur eldist.

[pullquote type=”left”]Fyrst og fremst líður persónusköpunin fyrir það hve hratt er farið yfir sögu en í þessari stuttu bók er sögð rúmlega tuttugu ára saga – nær samfelld.[/pullquote]Hrólfur nær því miður ekki að verða sannfærandi fullorðin persóna. Fyrst og fremst líður persónusköpunin fyrir það hve hratt er farið yfir sögu en í þessari stuttu bók er sögð rúmlega tuttugu ára saga – nær samfelld. Hrólfi er fylgt bæ frá bæ á fardögum á hverju ári, heimilisfólkið á hverjum stað er kynnt til leiks – misítarlega þó – og sagt er frá árlegum viðburðum sem eru ofarlega í huga drengsins: hversu mikið hann fær að borða, hvað er í jólamatinn, hvort hann eignast vin, hvaða bækur hann les og svo framvegis. Gjarnan hefði mátt hægja á öðru hverju og stökkva til dæmis yfir nokkur ár en einblína þess í stað á valda kafla í lífi drengsins og dýpka þá umfjöllun. Ég saknaði þess að fá ekki að kynnast persónunum nánar og fleiri hliðum á þeim, sérstaklega Hrólfi sjálfum sem er, eins og áður segir, fremur einsleitur karakter.

Hrólfs saga er einlæg og falleg frásögn af átakanlegum sannsögulegum atburðum og áhugaverð tilraun til að skyggnast inn í horfinn heim og fylgjast með fólki sem fékk aldrei tækifæri til að segja sína sögu. Efnið er sannarlega þess virði að vinna með það en hér hefði þó mátt ganga lengra, dýpka frásögnina og persónusköpunina og þannig gera Hrólf og sögu hans eftirminnilegri.

Um höfundinn
Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og University College Dublin. Hún sinnir einnig stundakennslu og landvörslu þegar svo ber undir. Doktorsverkefni hennar fjallar um samkynja ástir í verkum eftir Elías Mar. Sjá nánar

[fblike]

Deila