Höskuldur Þráinsson
Skrifaðu bæði skýrt og rétt. Fræðileg skrif, ritrýni og ritstjórn
Málvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, 2015
Höskuldur Þráinsson, höfundur nýrrar handbókar um fræðileg skrif, ritrýni og ritstjórn, er málvísindamaður, prófessor í íslensku nútímamáli við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur verið áberandi í fræðaheiminum undanfarna fjóra áratugi, bæði sem fræðimaður og ekki síður sem kennari. Á þeim tíma hefur hann leiðbeint mörgum um ritun, stundað ritstörf og ritrýni og að auki ritstýrði hann Íslensku máli um árabil.

Eins og fram kemur á bókarkápu er bókin hugsuð sem handbók og kennslubók, annars vegar ætluð þeim sem fást við fræðileg skrif af einhverju tagi og hins vegar þeim sem þurfa að meta slík skrif eða leiðbeina um þau. Það á t.d. við um háskólanema, háskólakennara, fræðimenn, rannsóknarmenn, ritstjóra, ritrýna og yfirlesara fræðilegs efnis.

Bókin er byggð á námsefni sem höfundur þróaði og notaði í námskeiði um ritstjórn og fræðileg skrif. Nú er höfundur hættur kennslu og því tilvalið að að nýta langa og mikla reynslu og koma henni á bók svo fleiri megi njóta. Efni bókarinnar ber þess merki að hafa verið þróað og slípað til í kennslu og er því markvisst og gegnhugsað.

Bókin er í 11 köflum fyrir utan efnisyfirlit, formála, ritaskrá og bendiskrá, alls 331 tölusett síða. Í köflunum eru tekin fyrir markmið fræðilegra skrifa, framsetning fræðilegs efnis, rökfærslur og skýringar í ólíkum fræðiskrifum, skipulag fræðilegra greina og bóka og hvernig á að skrifa ráðstefnuútdrætti, tímaritagreinar, námsritgerðir, fræðibækur, ritrýni, ritfregnir og ritdóma. Þá er einnig fjallað um glærur, dreifiblöð og stuðningsefni, hvernig gefa á leiðbeiningar um frágang og fara eftir þeim og síðast en ekki síst ritstuld og hvernig má forðast hann og finna hann. Í síðasta kafla er svo að finna gátlista fyrir ólíkar tegundir fræðilegra skrifa. Í lok hvers kafla eru verkefni, sem ekki bara hvetja til skilnings á því sem á undan er komið heldur einnig heilabrota og hugleiðinga um efnið.

Í formála gerir höfundur grein fyrir því hvaða tilgangi bókin á að þjóna: „[…] að leiðbeina um skipulega framsetningu, skýr markmið og glögga röksemdafærslu“ (bls. 13), en tekur líka skýrt fram að hlutverk bókarinnar sé hvorki að leggja áherslu á tæknileg atriði né málfar. Í lok formála er ágætur listi yfir bækur sem fjalla um svipað efni og sú bók sem hér er til umfjöllunar, þar á meðal flest ef ekki öll rit af þessum toga sem rituð hafa verið á íslensku.

Höfundur lýsir skipulagi greinar líkt og hann væri leiðsögumaður að kynna ferðaáætlun fyrir hópi.
Höfundur leggur áherslu á að tekið sé tillit til sjónarmiðs lesanda. Dæmi um það er ábending hans um að sá sem hyggst miðla fróðleik af einhverju tagi spyrji sjálfan sig um efnið og mikilvægi þess – að hann spyrji sig: „Hvað er svona merkilegt við það?“ Í framhaldi af þessari spurningu er haldið fram mikilvægi þess að lesandi komist að því strax um hvað fræðigrein fjallar og er þar komið að skipulagi og framsetningu fræðilegs efnis. Höfundur lýsir skipulagi greinar líkt og hann væri leiðsögumaður að kynna ferðaáætlun fyrir hópi. Hver staður fær sína kynningu þegar þangað er komið og í lokin er ferðin rifjuð upp. Ritferlinu er einnig líkt við starf matreiðslumanns sem hefur það hlutverk „að matreiða gögnin handa lesandanum, vinna úr þeim, nefna dæmi og skýra þau“ (bls. 105).

Eitt aðalsmerki bókarinnar er nákvæmni. Skýringar eru skilmerkilegar og meðal annars er gerð grein fyrir átta tegundum ritstuldar. Þá eru gátlistar fjölmargir og einkar aðgengilegir.

Bókin er skrifuð á lipru máli og dæmi tekin úr ýmsum áttum og ekki öll af vettvangi málvísinda, sem þó hefur verið aðalviðfangsefni höfundar um langt árabil. Hugtök eru öll skýrð jafnóðum og þau koma fyrir og eru studd dæmum.

Notagildi bókarinnar er ótvírætt. Skipulag og framsetning efnis er aðgengileg, fljótlegt er að finna það sem að er leitað og alla jafna auðvelt að skilja það sem um er fjallað. Efni bókarinnar er fjölbreytt og tekur á flestum ef ekki öllum þáttum sem háskólaborgari eða fræðimaður þarf að sýsla með í starfi sínu og erfitt er að nefna eitthvað sem ætti að falla innan uppgefins ramma bókarinnar og ekki er getið þar að einhverju marki.

Bókin gegnir fullkomlega því hlutverki að vera handbók fyrir býsna breiðan hóp – jafnvel breiðari en þann sem upp er gefinn á bókarkápu
Bókin er skemmtileg aflestrar og auðvelt að gleyma sér við lesturinn og lesa frá upphafi til enda. Um leið gegnir hún fullkomlega því hlutverki að vera handbók fyrir býsna breiðan hóp – jafnvel breiðari en þann sem upp er gefinn á bókarkápu – og munar þar ekki síst um skýra og greinagóða uppbyggingu, nákvæmt efnisyfirlit og vandaða bendiskrá.

Það er mikill fengur að þessari bók og óhætt að mæla með henni fyrir alla sem eitthvað koma nálægt kennslu, ritun, ritrýni og ritstjórn. Víst er að hún mun ávallt verða höfð innan seilingar á mínu vinnusvæði.

Um höfundinn
Þórhildur Oddsdóttir

Þórhildur Oddsdóttir

Þórhildur Oddsdóttir er aðjúnkt í dönsku við Háskóla Íslands. Fræðasvið hennar er máltileinkun og kennslufræði tungumála.

[fblike]

Deila