Starfsumhverfi myndlistarmanna ógnað af úreltri tollskrá

[x_text]
Til að tryggja áframhaldandi óheft tjáningar- og athafnafrelsi myndlistarmanna er mikilvægt að lagaumgjörðin sem fagið býr við sé endurskoðuð.

Þegar íslenskir myndlistarmenn starfa erlendis, við frumsköpun listaverka eða sýningarhald, þurfa þeir gjarnan að flytja verk sín heim til Íslands. Samkvæmt hugmyndum löggjafans eiga listamenn að geta flutt listaverk sín til landsins án þess að greiða af þeim innflutningsgjöld. Skilgreining tollskrár á því hvað telst til listaverka er hinsvegar löngu úrelt. Sem betur fer fylgja yfirvöld henni sjaldan bókstaflega og hleypa því augljósum listaverkum án gjaldtöku inn í landið. Stöku sinnum koma þó upp undantekningar á því; þá geta listamenn átt á hættu að þurfa að reiða fram háar fjárhæðir í innflutningsgjöld til að fá að flytja verkin til landsins. Þetta skapar óvissu sem ógnar tjáningarfrelsi myndlistarmanna. Til að bæta gráu ofan á svart vísa lög um virðisaukaskatt í sömu atriði tollskrár og gilda um innflutning listaverka. Ef skattayfirvöld ákvæðu að fylgja fordæmi tollayfirvalda gæti það ógnað starfsgrundvelli stórs hóps listamanna.

Nýverið lenti listakonan Rúrí í vandræðum með flutning verka sinna, sem hún hafði sýnt í útlöndum, heim á ný. Tollayfirvöld vildu ekki í þessu tilviki samþykkja verkin, sem voru útprentaðar ljósmyndir, sem listaverk í skilningi tollalaga. Því kröfðust þau þess að listakonan greiddi virðisaukaskatt af andvirði verkanna. Eftir tveggja mánaða stapp gáfu yfirvöld sig loks og leyfðu að verkin væru flutt heim án þess að lögð væru á þau aðflutningsgjöld.

Það hefur lengi verið viðtekið að listamenn þurfi ekki að greiða aðflutningsgjöld við flutning listaverka sinna til landsins. Hugmyndin að baki þessu er að tryggja listamönnum ferðafrelsi; þeir geta lagt út í kostnað við að búa til listaverk í útlöndum án þess að eiga á hættu að þau festist þar vegna óvæginna krafna um greiðslu gjalda við innflutning þeirra. Lengi vel, eða fram til 1963, var ekki skilgreint hvað fælist í hugtakinu »listaverk« í þessum skilningi. Í tollskránni stóð einfaldlega »Listaverk« við viðkomandi tollskrárnúmer og sagt að þau væru tollfrjáls. Árið 1963 var tekin upp samræmd evrópsk tollskrá og þá var skilgreint nánar hvað listaverk væri í þessu tilviki. Það er sá texti sem enn stendur óbreyttur eftir meir en hálfa öld. Samkvæmt þeim texta er listaverkum sem flytja má án gjalda skipt í þrjá flokka: „1) Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndunum að öllu leyti; 2) Myndstungur, prentmyndir og steinprentaðar myndir, enda sé um frumverk að ræða; 3) Höggmyndir og myndastyttur, úr hvers konar efni, enda sé um frumsmíði að ræða.“

Öllum sem þekkja til samtímamyndlistar má vera ljóst að þessi skilgreining nær yfir afar lítinn hluta þeirra verka sem listamenn búa til nú til dags. Hér telst ekkert til listaverka nema málverk unnin á afar hefðbundinn hátt, grafíkmyndir listamanna og klassískar höggmyndir.
Öllum sem þekkja til samtímamyndlistar má vera ljóst að þessi skilgreining nær yfir afar lítinn hluta þeirra verka sem listamenn búa til nú til dags. Hér telst ekkert til listaverka nema málverk unnin á afar hefðbundinn hátt, grafíkmyndir listamanna og klassískar höggmyndir. Verk unnin að hluta til eða að öllu leyti með ljósmyndatækni, vídeólistaverk og hverskonar innsetningar og rýmisverk eru hér með undanskilin; ef bókstaf laganna er fylgt á að fara með slík verk eins og iðnaðarvarning. Ekki er nóg með að þessi skilgreining sé úrelt í samtímanum, heldur var hún það þegar textinn var upphaflega saminn árið 1963. Það má ímynda sér að þar hafi legið til grundvallar erlendur texti sem sjálfur hafi ekki verið endurskoðaður frá því um lok 19. aldar. Stór hluti verka kúbismans, fútúrismans og súrrealismans hefðu, svo dæmi séu tekin, ekki verið listaverk út frá þessari skilgreiningu tollalaga.

Þegar lög um virðisaukaskatt voru sett árið 1988 var ákveðið að listaverk í eigu listamanna og sala þeirra á eigin verkum yrðu undanþegin virðisaukaskatti. Við lagasetninguna var hins vegar ekki tekið fram sérstaklega hvaða listaverk féllu undir þetta, heldur látið nægja að vísa í skilgreiningu tollskrár á listaverkum. Trúlega hafa þingmenn treyst því að í tollskrá væru listaverk skilgreind á fullnægjandi hátt, án þess að skoða það nánar. Þessi tenging virðisaukaskattslaganna við gallaðan texta tollskrár gætu ógnað starfskilyrðum ef skattyfirvöld tækju upp á því að túlka lögin eins og tollayfirvöld gerðu í tilviki Rúríar. Það gæti leitt til þess að listamenn þyrftu að greiða virðisaukaskatt af sölu allra annarra listaverka en þeirra sem falla undir þrönga skilgreiningu tollskrár. Sem betur fer hefur skattayfirvöldum ekki enn dottið í hug að túlka lögin á þennan hátt. Hættan á slíku er þó til staðar á meðan lagatextinn er eins úreltur og raun ber vitni.

Í ljósi þessa er afar mikilvægt, til að tryggja áframhaldandi óheft tjáningar- og athafnafrelsi myndlistarmanna á Íslandi, að lagaumgjörðin sem fagið býr við sé endurskoðuð þannig að hún sé í samræmi við raunveruleikann. Vegna þessa verður að leggja þá skyldu á þingmenn að gera strax bragarbót í þessu máli og aðlaga skatta- og tollareglur um myndlist þannig að þær séu í samræmi við raunverulega starfsemi myndlistarmanna í samtímanum.

[Ljósmynd við grein: Listaverkið Waterfall — Dynkur eftir Rúrí á sýningunni The Order of Nature í O.K. Center for Contemporary Art í Linz, Austurríki, árið 2005. Verkið er svipað því verki sem tollayfirvöld vildu ekki í upphafi samþykkja að væri skattfrjálst samkvæmt gildandi tollskrá. Birt með leyfi höfundar.][/x_text]

Um höfundinn
Hlynur Helgason

Hlynur Helgason

Hlynur Helgason er myndlistarmaður og listfræðingur. Hann er lektor í listfræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og stundar m.a. rannsóknir á samhengi íslenskrar samtímalistar, áhrifum hennar og stöðu í fjölþjóðlegu samhengi. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila