Rýni: Skissubók skáldsins – Lungnafiskar Gyrðis Elíassonar

[container] Gyrðir Elíasson sendir frá sér þrjár bækur í haust: smásagnasafnið Koparakur, smáprósasafnið Lungnafiskarnir og þýðingar á ljóðum japanska skáldsins Shuntaro Tanikawa. Lungnafiskarnir, sem hér verður fjallað um, er fyrsta smáprósasafn höfundar, en eftir hann hafa áður komið út fjölmörg smásagnasöfn, síðast Milli trjánna sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011. Gyrðir hefur sjálfur sagt um smásögur sínar að þær falli tæplega undir sama hatt og sögur höfunda á borð við Alice Munro, en textum hennar mætti líkja við niðursoðnar skáldsögur. Honum hugnist heldur að hugsa um sögur sínar sem „skissur“. Myndrænn stíll Gyrðis samræmist þessari hugmynd um skissur vel, því honum tekst listavel að draga upp myndir í texta sem lifa áfram með lesanda.

Í Lungnafiskunum stígur hann skrefinu lengra í átt að skissubók. Verkið samanstendur af eitt hundrað textum, sem langflestir eru undir einni síðu. Nokkrir teygja sig yfir á tvær síður og tveir ná inn á þá þriðju. Smáprósar Gyrðis eiga ýmislegt sammerkt með fiskunum sem titiltexti safnsins segir frá. Þar eru á ferðinni fiskar sem stækka gríðarlega, eiganda sínum til undrunar, þar til þeir sprengja utan af sér fiskabúrið. Þeir mæta þó ekki endalokum sínum á stofuteppinu, heldur vaxa þeim lungu. Textar Gyrðis stækka líka á síðunni og sumir hverjir anda, kannski með fiskalungum, ofan í hálsmál lesanda eftir að lestri er lokið. Oftar en ekki eru það þeir knöppustu sem stækka hvað mest, og lifa lengst.

Fyrstu textar verksins eru sóttir í land bernskunnar, þar sem eitthvað órætt og dularfullt bærir yfirborðið. Í upphafstextanum „Sjónaukinn“ horfir barnungur sögumaðurinn á glóbjarta sólina í gegnum sjónauka á bæjarhlaðinu hjá ömmu og afa, en er áminntur um að hann gæti blindast. Óvænt símtal rýfur hversdagslega kyrrðina í „Símtalinu“ og í þriðju sögunni, „Tvöfalt myrkur“, er myrkfælni viðfangsefnið.

Í öðrum textum er sögumaður á bílferðalagi, oft ásamt samferðakonu, um grátt og stundum regnvott landið. Þokan sækir að og eyðibýli og yfirgefin sumarhús setja svip sinn á umhverfið. Gráminn er víða í Lungnafiskunum; himinninn er grár, landið sveipað mistri og rigningin hangir yfir. Þessi þokukennda veröld á sér líka samsvörun í draumheimastefinu í verkinu, þar sem svefnleysi og draumar koma oft fyrir og mörk svefns og vöku eru fljótandi, rétt eins og mörk fantasíu og raunsæis. Í mörgum textanna er líka óræð ógn yfirvofandi. Í „Bændagistingu“ vaknar sögumaður með hryllilega veru á öxlinni; blóðið drýpur af exi draummannsins í „Blátt blóð“; í „Lárétt“ taka lamandi áhyggjur sögumanns á sig form svarts hunds.

Húmorinn og glettni Gyrðis er þó ekki langt undan. Í prósunum sjö sem bera undirtitilinn „Nefnifall“ stundar skáldið orðaleiki svo unun er að. Jón Kippur, sem hafði dálæti á Yom Kippur-stríðinu er eftirminnilegur, ekki síður en Svíinn Transdrömmer. Gyrðir dýfir líka tánni í populísk glæpasöguskrif með tveimur skemmtilegum„mínímalískum glæpasögum“.

Í ljóðasafninu Hér vex enginn sítrónuviður frá árinu 2012 beindi Gyrðir sjónum sínum að illri meðferð mannskepnunnar á dýrum. Málefnið er skáldinu augljóslega enn hugleikið eins og textarnir „Málagjöld“ og „Ökumaður dauðans“ í Lungnafiskunum bera vitni um. Sá síðarnefndi er með stystu textum bókarinnar, en sérlega áhrifaríkur. Ef Lungnafiskarnir er skissubók er þessi mynd rist á blað með hnífskörpum tússpenna.

Lungnafiskarnir er falleg bók – ytra byrði ekki síður en innihald. Mynd eftir höfundinn prýðir kápuna og undirstrikar enn frekar tengingu við skissubók myndlistarmannsins. Einmanaleiki og angurværð lita verkið og fantasía og veruleiki, glettni og óyndi vega salt í knöppu textaforminu sem hæfir höfundi svo vel.  Textarnir fara vel saman og mynda heildstætt smáprósasafn, sem vonandi verður ekki hans síðasta.  Brot úr „Ljós dauðans“ lýsir stemningunni í fiskabúri Gyrðis ágætlega: „Mér fannst skugginn af honum draga fram birtu frá löngu sumri, ekki bara af síðasta sumri, heldur síðasta sumrinu okkar allra“.

Sunna Dís Másdóttir, meistaranemi í ritlist.

[/container]

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *