Rýni: Aðdráttarafl óhugnaðarins

[container] Drápa eftir Gerði Kristnýju.

„Veturinn tekur
aldrei fanga

Hann leiðir fólk
fyrir næsta horn
þar sem skothríðin bíður.“

Skandínavíska glæpasagan hefur síðasta áratug orðið að sérbókmenntagrein og hafa spekingar velt því fyrir sér hvað aðgreini hana frá þeirri bresku og bandarísku. Oft er þá talað um að myrkrið og kuldinn í þessum löndum bjóði upp á öðruvísi bókmenntir – umhverfið feli í sér ákveðinn óhugnað sem  höfundur nái ekki fullum tökum á nema lifa og hrærast í hinu eilífa skammdegi.

DrapaÍ nýjum ljóðabálki Gerðar Kristnýjar, Drápu, má sjá hvernig kunnugleg þemu skáldsins, kuldi og myrkur, kallast á við þessi sömu þemu skandínavísku glæpasögunnar. Hér segir Gerður sögu af glæpum í Reykjavík, sögu sem við höfum öll heyrt en birtist okkur hér í öðrum búningi.

Bálkurinn segir frá því þegar Myrkusinn kemur til borgarinnar, en hann er gjörólíkur bróður sínum Sirkusnum þó að margt eigi þeir sameiginlegt. Myrkustjaldinu er tjaldað yfir borgina, og inni í því gerast hræðilegir atburðir, verri en óhugnanlegustu reyfarar undanfarinna ára hafa tjáð. Trúðar, boxarar, Myrkusstjóri og loftfimleikastúlkan; öll hafa þau sínu hlutverki að gegna í hinum hræðilega Myrkus. Trúðarnir eru þar líklegast voðalegastir en þar spilar skáldið inn á hið tvíræða hlutverk sem trúðar hafa í menningu okkar. Trúðar eiga að skemmta og vera fyndnir en það gengur hins vegar ekki alltaf upp og margir hræðast þá. Í sögunni birtast þeir sem hópur ofbeldismanna en ekki sem einstaklingar og vekja þannig upp óhug hjá lesandanum. Myndmál sirkussins kemur einnig fram í gróteskri valdbeitingu á líkama þolandans og er þannig sett fram sem drungalegur leikur.

„Þegar svipan
skipaði þér
að stinga höfði
í ljónsgin
og finna úfinn
kitla á þér hvirfilinn
gerðirðu það“

Gerður Kristný tjáir djúpa og flókna sögu af ofbeldi í örfáum orðum og í stíl sem er svo knappur að einn lestur dugir ekki til. Það eru ekki einunigs orð sem geta sagt sögu, heldur einnig þagnirnar þar á milli og þetta nýtir Gerður sér til hins ýtrasta.

Staðir hafa verið áberandi í ljóðum Gerðar, samanber síðustu ljóðabók hennar Strandir, og sést þetta einnig í Drápu. Reykjavík er lýst og staðir innan borgarinnar nefndir sérstaklega til þess að ramma inn atburðina. Þetta gerir lýsingarnar enn hræðilegri og gerir það að verkum að óhugnaðurinn færist nær okkur, því við höfum jú öll heyrt þessa ofbeldissögu margoft, og vitum að hún er sönn – þó að trúðarnir séu kannski ekki alltaf í trúðsgervinu.

Aðalpersóna ljóðabálksins, er „þú“, ung ljóshærð kona sem verður þolandi glæpanna. Hún festist í vef ofbeldismanna sem birtast henni í hinum ýmsu myndum.

Ljóðmælandinn sjálfur er síðan dularfyllsta persóna bálksins en hann virðist vera bæði upphaf hins illa sem og sá sem syrgir slóð þess. Hann breytir sér í ýmis líki og fylgist með öllu. Hann er alvaldur og um leið hjálparkokkur hins guðlega. Í lokalínunum syrgir hann þolandann þrátt fyrir að hafa átt þátt í atburðunum. Ljóðmælandinn er líklega sú persóna bókarinnar sem er erfiðast að staðsetja innan þess heims sem lesandinn þekkir. Á sama tíma neyðir ljóðmælandinn lesandann til þess að horfast í augu við sinn eigin þátt í því samfélagi sem við lifum í, samfélagi sem býður Myrkusnum í heimsókn á annað borð.

Gerður Kristný slær bæði Stefáni Mána og Yrsu Sigurðardóttir við í óhugnaði í ljóðabálkinum og í mun færri orðum. Ólíkt flestum öðrum reyfurum er Drápa saga sem lesandinn neyðist til þess að lesa oftar en einu sinni, bæði til þess að ná fyllilega sögunni en einnig vegna þess að óhugnaðurinn hefur einkennilegt aðdráttarafl. Á þverstæðan hátt verða ljóðin falleg mitt inni í skelfingunni en þar leikur hið sérstaka myndmál Gerðar aðalhlutverk. Drápa er heillandi verk um hræðilegan heim sem stendur okkur því miður alltof nærri.

Guðrún Baldvinsdóttir, meistaranemi í almennri bókmenntafræði.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *