Af hagsmunahjónabandi bókmennta og kvikmynda

[container] „Það er nú bara þannig að 80-90% af öllum kvikmyndum heimsins eru gerðar upp úr skáldsögum“ segir Guðný Halldórsdóttir kvikmyndagerðarmaður en hún tekur þátt í málstofunni Bók verður bíó laugardaginn 4. október næstkomandi. Málstofan er hluti af dagskrá RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, en þar munu rithöfundar og leikstjórar ræða tengsl þessara tveggja miðla og aðlögunarferli þeirra á milli.

„Ef litið er yfir kvikmyndasöguna má sjá að allt frá upphafi og fram til dagsins í dag hafa flestar kvikmyndir verið gerðar upp úr bókum. Þetta er alls staðar í heiminum, þetta er í Hollywood og í Evrópu. Það er í rauninni bara eðlilegt, þetta eru tveir ólíkir miðlar sem eiga mjög náið samband.“

Aðspurð um þátt lesenda og áhorfenda segir Guðný þá einnig áhrifavalda í þessu samhengi, það eru þeir sem biðja um bækurnar í kvikmyndaformi.

„Það er eins og kemur sífellt fram í rannsóknum, fólk er hætt að nenna að lesa og vill heldur fá söguna í myndrænu formi. Við lifum á öld ljósvakanna og bíómyndanna og sem dæmi má nefna að í kennslu og öðru þá nenna krakkarnir ekki endilega að lesa skáldsögurnar en eru afskaplega fegin að fá sögurnar í myndrænu formi. Þannig að þau þurfi ekki að lesa”, segir Guðný en ítrekar þó að miðlarnir geta einnig styrkt hvorn annan. Sambandi þeirra megi í raun stundum líkja við hagsmunahjónaband.

„Það eru til dæmi um að kvikmyndir auki vinsældir og lestur skáldsagna, þannig að það er ekki alltaf sem kvikmyndin leysir bókina af hólmi. Til dæmis Úngfrúin góða og húsið, hún var gefin út sem sjálfstætt verk eftir útkomu myndarinnar. Síðan var farið að nota bókina í kennslu og þess háttar sem var skemmtilegt. Miðlarnir geta nefnilega stundum hjálpað hvor öðrum.“

Guðný segir góð færni í flutningi verka á milli miðla vera eiginleika sem allir upprennandi kvikmyndagerðarmenn verði að tileinka sér.

„Þegar ég var að kenna í Kvikmyndaskólanum var það fyrsta sem ég lét nemendur mína gera að lesa smásögur og skrifa svo upp úr þeim kvikmyndahandrit. Það er rosalega góður mælikvarði á hvort að fólk hefur í sér að geta skrifað handrit hvort það getur flutt sögur á milli miðla. Síðan er náttúrlega hin hliðin að það getur verið mun auðveldara að sannfæra kvikmyndasjóði um að veita styrki í verkefni sem tengjast þekktum skáldsögum. Ef verkið þitt tengist skáldsögu sem hefur vakið athygli eða selst vel er mun líklegra að þú fáir styrki.“

Varðandi væntingar áhorfenda segir Guðný það geta verið erfitt að takast á við sögu sem er fólki kær og enn fremur ómögulegt að gera öllum til hæfis.

„Maður reynir náttúrlega að vera sögunni trúr og reyna að koma þeim anda yfir sem höfundurinn hefur lagt sig fram við að skrifa. Mikilvægast er að að passa sig á því að fara ekki að skálda fyrir höfundinn, frekar að sleppa hlutum heldur en að bæta við söguna. Síðan er það hreinlega þannig varðandi bækur og bíómyndir að sumum sem eru búnir að lesa bækurnar dettur ekki í hug að sjá myndina og aðrir sjá bara myndina og dettur ekki í hug að lesa bókina. Ég skil það mjög vel. Ég á sjálf nokkrar bækur sem ég vil alls ekki láta eyðileggja fyrir mér með lélegri bíómynd.“

Málstofan Bók verður bíó fer fram á Bókasafni Kópavogs, laugardaginn 4. október klukkan 14. Aðgangur er ókeypis.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir,
meistaranemi í menningarfræði.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *