Mörk lífs og dauða

[container] Á göngum spítalanna geysast þreyttir læknar og hjúkrunarfræðingar um og reyna að klára sínar löngu vaktir, sinna sjúklingunum og ræða við aðstandendur. Einhvers staðar fyrir utan spítalann bíða fjölskyldur heilbrigðisstarfsfólksins eftir að aðstandendurnir komi yfir í „hinn heiminn” og sinni maka, börnum og félagslífi. Í skáldsögunni Lífsmörk eftir Ara Jóhannesson lýsir höfundur þessum aðskilnaði milli starfs og einkalífs, þar sem aðalpersónan, Sölvi Oddsson, svæfingarlæknir, lítur á sjúkrahúsið sem sitt annað heimili og starfsfólk deildarinnar sem aðra fjölskyldu. Kjarnafjölskyldan hans fjarlægist  meira og meira, eftir því sem hann tekur fleiri og fleiri aukavaktir til þess að fjármagna lífsstíl þeirra hjóna í fína einbýlishúsinu sínu í Garðabæ.

Ari Jóhannesson tekst á við stórar spurningar í þessari fyrstu skáldsögu sinni. Heiti bókarinnar er afskaplega lýsandi fyrir þema hennar, því í sögunni þarf Sölvi að takast á við alls kyns mörk, á milli starfs og einkalífs, sjálfs og fjölskyldu, mörkin í samskiptum karls og konu, vina,  sjúklinga og lækna, lífs og dauða. Höfundur sýnir lækninn við upphaf sögunnar sem venjulegan, þreyttan mann, með venjulega vísitölufjölskyldu sem sinnir starfi sínu en á æ erfiðara með að skilja það eftir þegar hann fer heim. Smátt og smátt afhjúpar sögumaður  þó sannleikann um Sölva. Fjölskyldan er á fullu spani í lífsgæðakapphlaupinu og má hafa sig alla við til þess að halda í við glórulausa efnishyggju samfélagsins og ofneyslu áranna rétt fyrir hið margumrædda hrun. Helga, kona Sölva, er sérstaklega áfram um að halda í við vinkonur sínar í neyslunni, en á sama tíma krefst hún þess að Sölvi minnki við sig í vinnu og sinni fjölskyldunni meira eða með öðrum orðum, hún vill að hann fái hærri laun fyrir minni vinnu.

Eftir því sem líður á söguna fer höfundur dýpra undir yfirborð persónanna. Lesandinn fær að sjá að Sölvi er kominn yfir mörkin í fleiri en einum skilningi og að þörf Helgu fyrir slétt og fellt yfirborð á sér rætur í áfengissýki og óhamingju. Algjört hrun verður í lífi persónanna samfara hinu íslenska efnahagshruni og það kemur í ljós hversu djúpt þau eru sokkin í óraunsætt og innantómt lífsmynstur sem eyðileggur í þeim sálirnar, hægt og bítandi.

Frásagnaraðferð höfundar ýtir undir ádeilu sögunnar. Höfundur flakkar um í tíma og rúmi. Aðalsagan gerist í línulegum samtíma, en höfundur fer til baka eftir hentugleikum til þess að sýna og afhjúpa innra líf sögupersónanna. Sögumaður fjallar af nákvæmni um ýmis læknisfræðileg fyrirbrigði, notar latnesk heiti sem læknum eru (eflaust) töm. Fyrir hinn almenna lesanda sem þekkir lítið til læknafagmáls eykur þetta á sannfæringarkraft sögumannsins. Að auki notar höfundur dægurlagatexta í bland við texta sögunnar. Úr öllu þessu verður mögnuð blanda af spennu, dýpt og átökum sem mynda afskaplega spennandi sögufléttu.

Lífsmörk fer fremur hægt af stað, en engu er ofaukið í hinni nauðsynlegu forsögu og hin rólega frásagnaraðferð myndar áhugaverða mótsögn við viðburðaríkan söguþráð bókarinnar. Mikilvægustu átök bókarinnar eru þó í mörkunum á milli læknis og sjúklings. Hvað gerist til að mynda þegar læknir á hinu litla Íslandi fær besta vin sinn til meðhöndlunar? Er fjarlægð milli læknis og sjúklings æskileg, jafnvel nauðsynleg? Ef svo er, að hversu miklu leyti? Hve mikinn þátt á læknir að taka í þjáningu sjúklingsins? Hver liggja mörkin milli samlíðunar við sjúklinginn og kulnunar í starfi, fjarlægðar og tilfinningaleysis? Hvoru megin liggur líknardrápið? Bók Ara Jóhannessonar er sambland af spennusögu og þroskasögu. Lífsmörk er spennandi, þarft og gott innlegg í íslenskt bókmenntalíf, ekki síst vegna þess að höfundurinn er læknir og þekkir veruleikann sem hann skrifar um innan frá, veruleika sem flestum lesendum er hulinn. Erlendis fjölgar þeim læknum og hjúkrunarfólki sem kalla eftir meiri mannhyggju og aukinni umræðu um þróun læknavísindanna. Þessi bók er tvímælalaust innlegg í þá umræðu og ég kalla eftir fleiri svona bókum.

Hildur Ýr Ísberg,
doktorsnemi í íslenskum bókmenntum

[/container]


Comments

One response to “Mörk lífs og dauða”

  1. Auður þorbergsdottir Avatar
    Auður þorbergsdottir

    ‘Eg er mjög sammala Hildi Isberg.
    Mer fannst bokin bæði ahugaverð, fræðandi og spennandi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *