Óútreiknanlegir Þjóðverjar

[container]

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Stimpilmyndin af Þjóðverjum felst í því að þeir séu nákvæmir og fyrirsjáanlegir, duglegir og vinnusamir, sparsamir (les: nískir) og skynsamir í fjármálum. Saga þeirra sem þjóðar er reyndar allt önnur, bæði í menningarlegu og efnahagslegu tilliti; áður en þýska ríkið varð til eignaðist þýska málsvæðið jöfra skáldskapar, heimspeki, tónlistar og vísinda sem flestir voru svo frumlegir í hugsun að enginn sá fyrir hvað verk þeirra innihéldu og þessi þróun lifði fram á tuttugustu öld þegar þýskur almúgi og margir menntaðir mektarmenn féllu fyrir ofsatrú þjóðernishreyfingar upp úr mikilli efnahagskreppu. Helsta geðræna vandamál þjóðernistrúar er jú þörfin fyrir óvini til að halda hópnum saman vegna þess hve auðvelt er að benda á öll þau öngstræti og rökþrot sem stæk þjóðernishyggja lendir í þegar farið er að ræða hana.

Kannski var það þess vegna að Þjóðverjar vestan járntjalds, með dyggum stuðningi Bandaríkjamanna, ákváðu að haga stjórnmálum sínum og ríkiskerfi þannig að ekki yrði eins mikil hætta á að upp risi annar eins ófögnuður í landi skálda og hugsuða eins og Þjóðverjar nefndu sig gjarnan og það með réttu. Þegar múrinn féll var Austur-Þýskaland í raun innlimað í vesturríkið og stjórnskipan þess var einfaldlega yfirfærð á nýju fylkin sem svo eru kölluð, en sambandsríkið Þýskaland samanstendur nú af 16 tiltölulega sjálfstæðum fylkjum eða sambandslöndum eins og þau eru nefnd þar.  Hvert fylki er með sitt þing og ríkisstjórn og þau eiga öll fulltrúa í sambandsráði sem er að miklu leyti eins og önnur deild þýska sambandsþingsins og getur haft mikil áhrif á löggjöfina þótt það síðarnefnda sé þar í forystuhlutverki og kjósi ríkisstjórn sambandsríkisins.

Þessi skipan mála, sem og staða Þýskalands á eftirstríðsárunum, hefur leitt til þess að þýsk stjórnmál byggjast mikið á málamiðlunum sem ekki þykja nein goðgá þar í landi, þýska orðið yfir það er „Konsensdemokratie“ eða samstöðulýðræði; þar er grunnreglan sú að þótt meirihlutinn ráði skuli ævinlega leita leiða til að finna málamiðlun sem flestir geta sætt sig við. Þetta lýsir sér í því að oftlega styðja stjórnarandstöðuflokkar ríkisstjórn í stórum málum, enda hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra í umræðu áður. Þetta er kannski ekki neitt átakanlega spennandi og dramatískt, en, eins og dæmi Þjóðverja sýnir, getur verið afar árangursríkt og hugsanlega leiðin til að halda ófögnuði öfgahyggju niðri eins og hægt er, þótt vissulega hafi sprottið upp öfgahreyfingar til hægri og vinstri í Þýskalandi í þessu kerfi. Þær hafa hins vegar aldrei fengið neinn hljómgrunn sem nokkru nemur á síðari tímum.

Eitt þeirra tækja sem tekið var upp til að hindra öfgaflokka frá því að ná fótfestu eins og nasistum tókst á sínum tíma innan Weimar-lýðveldisins var hinn svokallaði 5% þröskuldur sem við þekkjum einnig hér á landi og veldur því að smáflokkar eiga erfiðara með að komast inn á þing en annars væri. Þetta leiddi til þess framan af að þrír flokkar urðu ríkjandi, kristilegur hægriflokkur CDU (með sér flokki í Bæjaralandi CSU), frjálslyndur miðjuflokkur FDP, og jafnaðarmannaflokkur SPD. Síðar bættist við fjórði flokkurinn, Græningjar sem eftir fall múrsins sameinuðust að sumu leyti þeim öflum sem fremst í flokki voru við mótmælin gegn stjórn Honeckers árið örlagaríka 1989. Upp úr falli Austur-Þýskalands spratt síðan nokkuð róttækur vinstri flokkur „Die Linke“ (áður PDS) sem að einhverju leyti var reistur á rústum valdaflokks kommúnista þar í landi þótt allir forráðamenn hans séu yfirlýstir lýðræðissinnar í dag. Hann hefur nokkuð sterka stöðu í Austur-Þýskalandi og hefur einnig náð fótfestu vestan megin, enda eru nokkrir mælskumenn þar fremstir í flokki, Gregor Gysi, af steingrímsku kalíberi, Oskar Lafontaine, áður einn leiðtoga SPD, og Sarah Wagenknecht, ung, eldklár kona sem er afar vinsæl meðal þýskra þáttastjórnenda enda hefur hún fullkomið vald á því formi.

Leiðtogar SPD eru þrír eins og er; Sigmar Gabriel er formaðurinn og einnig sleipur í sjónvarpsumræðum, en nokkuð umdeildur, Frank-Walter Steinmeier, fyrrum utanríkisráðherra og kanslaraefni SPD í síðustu kosningum, nýtur virðingar vel út fyrir raðir eigin flokks, en tapaði síðustu kosningum illa, Peer Steinbrück, kanslaraefni SPD, var fjármálaráðherra í „stóru“ samsteypustjórninni 2005-2009 og þótti halda fast um budduna þannig að hann var ekki allra á vinstri væng eigin flokks, en hann hefur einnig þótt nokkuð orðhvatur í kosningabaráttunni þar sem hann hefur átt á brattann að sækja gegn ofurvinsældum leiðtoga CDU, Angelu Merkel.

Segja má að hún sé holdgerving nokkurs konar dílemmu þýskra stjórnmála á okkar tímum. Hún er vissulega leiðtogi hægri manna og það var hún sem hóf uppgjörið innan eigin flokks gegn Helmut Kohl á sínum tíma sem tekið hafði þátt í vafasamri og ólöglegri fjársöfnun fyrir flokkinn. Merkel var lengi ein þeirra sem (karl)menn vanmátu svo mikið að þeir féllu sjálfir á eigin samsærishnífa áður en þeir vissu af; hún hóf ferilinn á því að bjóða Edmund Stoiber, leiðtoga CSU í Bæjaralandi að vera kanslaraefni í kosningum gegn Gerhard Schröder, kosningum sem hann tapaði og hefur hann varla sést síðan. Hún hreinsaði síðan vel til í hákarlalauginni þar sem hún var á sundi, svo vel segja sumir að það er enginn sjáanlegur eftirmaður í innsta hring flokksins eins og er. Sem stjórnmálamaður er hún hins vegar að mörgu leyti þversagnarkennd og sumir gagnrýnendur hennar segja að hún hafi í raun aðeins eitt pólitískt markmið núorðið og það sé að halda völdum.

Nokkur dæmi undirstrika þetta að einhverju leyti þótt það geti aldrei verið sanngjarnt að einfalda hlutina þannig: Í Evrópumálunum hefur hún beitt sér mjög fyrir sparnaði og umbótum í skuldugum ríkjum evrusvæðisins með því að segja að þýskir skattgreiðendur eigi ekki að borga brúsann fyrir sukkið í öðrum löndum. Þetta hefur náð vel til kjósenda sem treysta henni margfalt betur en flokknum sjálfum. Þessi stefna hefur hins vegar leitt til mikillar sundrungar í Evrópu og margir hagfræðingar telja hana efnahagslega ranga eins og sjá má t.d. af skrifum Wolfgangs Münchau í Financial Times og Der Spiegel.

Í málefnavinnunni hefur hún hins vegar sýnt sitt ótrúlega pólitíska þefskyn og hæfileika til breyta um kúrs þegar á ríður. Sem dæmi má nefna að ríkisstjórn CDU og FDP ákvað í upphafi kjörtímabilsins að breyta fyrri ákvörðun ríkisstjórnar SPD og Græningja um að leggja niður kjarnorkuverin í Þýskalandi sem allra fyrst og stefna á endurnýjanlega orkugjafa. Forstjórar stóru orkufyrirtækjanna voru kampakátir með þessa ákvörðun, enda eru flest kjarnorkuverin gömul og að fullu afskrifuð og græða bara og græða.

En þá varð slysið í Fukushima og Merkel kúventi í einu vetfangi og ákvað flýta „orkuumskiptunum“ mjög; græningjar og kratar horfðu dolfallnir á hana yfirtaka eitt af sínu helstu pólitísku baráttumálum og gera að sínu. Enda sýndu þeir fulla samstöðu með þeirri ákvörðun þótt gramir væru, vafalaust. Þegar kosningabaráttan hófst svo fyrir alvöru barði SPD í bumbur þegar í ljós kom að lægstu laun í landinu voru komin niður fyrir öll velsæmismörk (reyndar að hluta til vegna breytinga SPD á félagskerfinu) og lofaði almennum lágmarkslaunum til að bæta kjör hinna lægstlaunuðu og auka almennan kaupmátt í landinu. Aftur greip Merkel boltann á lofti og hélt honum hjá sér. Gáttaðir bossar viðskiptalífsins, að ekki sé talað um samstarfsflokkinn frjálslynda FDP, urðu einfaldlega að kyngja þessu sem þeir hefðu aldrei nokkur sinni tekið í mál vinstra megin frá. Steinbrück var síðan broslegur þegar hann sagði í viðtölum „við erum frumritið“, því Merkel var búin að taka frá honum kosningamálið stóra. SPD, Græningjum og Pírötum tókst síðan ekki að gera hleranir NSA að pólitísku stórmáli enda beitti Merkel aðferð sinni að slá úr og í að vanda og komst upp með það í skjóli sinna persónulegu vinsælda.

Í raun á Merkel aðeins við einn vanda að stríða í komandi kosningum og það er samstarfsflokkurinn FDP. Hann hefur skroppið saman í skugga hennar og er á mörkum þess að komast yfir 5% þröskuldinn. Merji hann það ekki verður hún að semja við kratana um stóra samsteypustjórn, nema þeir geri það sem þeir hafa neitað hingað til og gangi til samstarfs með Græningjum og vinstri mönnum „Die Linke“. Hinn möguleikinn væri að mörgu leyti helgispjöll á báða bóga, en hugsanlega gæti Merkel myndað stjórn með Græningjum sem með stefnumálum sínum höfða reyndar mjög mikið til vel menntaðra og meðvitaðra kjósenda af velmegandi borgarastétt. Það má því segja að niðurstaðan sé býsna ófyrirsjáanleg eins og er og verður spennandi að fylgjast með úrslitum sunnudaginn 22. sept.

Deila

[/container]


Comments

One response to “Óútreiknanlegir Þjóðverjar”

 1. Sigrún Pálsdóttir Avatar
  Sigrún Pálsdóttir

  Hér er samantekt á skýrslu sérfræðinganefndar þýsku
  ríkisstjórnarinnar um mikilvægi stórtækra kerfisbreytinga vegna
  loftslagsbreytinga.
  Hér boða Merkel og co. 3. byltingu veraldarsögunnar: http://www.wbgu.de/fileadmin/templates/dateien/veroeffentlichungen/hauptgutachten/jg2011/wbgu_jg2011_ZfE.pdf

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *