Miðaldakirkja í Skálholti?

Í Fornleifafræði, Fræði, Pistlar, Sagnfræði, Umfjöllun höf. Gunnar HarðarsonLeave a Comment

Um höfundinn

Gunnar Harðarson

Gunnar Harðarson er Prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild. Á sviði heimspekisögu hefur hann rannsakað sögu íslenskrar heimspeki, en á sviði listheimspeki hefur hann miðlað ýmsum þáttum úr fagurfræði og listheimspeki 20. aldar, auk rannsókna í sögu íslenskrar fagurfræði. Sjá nánar

Um nokkurt skeið hefur mátt lesa fréttir þess efnis að í undirbúningi sé að reisa í Skálholti eftirlíkingu af miðaldadómkirkju, sem á reyndar ekki að vera kirkja, heldur menningar- og sýningarhús í tengslum við arðbæra ferðaþjónustustarfsemi. Enda þótt fagna beri þeim áhuga á íslenskri byggingararfleifð sem fram kemur í greinargerðum og kynningarefni fyrir verkefnið, vakna áleitnar spurningar um eðli og hlutverk hinnar áætluðu byggingar og áhrif hennar á ásýnd Skálholtsstaðar, en einnig um fræðilegan grundvöll verkefnisins. Hér verður vikið að nokkrum hinna síðarnefndu, þótt síst sé ástæða til að gera lítið úr öðrum.

Í greinargerð VSÓ (2011) kemur fram ágæt lýsing á verkefninu, forsendum þess og tilgangi, og ætluðum ávinningi. Þó eru þar nokkur atriði sem setja verður spurningarmerki við. Í greinargerðinni (2011:1) segir t.d. að teikningar að miðaldadómkirkjunum í Skálholti hafi „legið fyrir lengi og í Þjóðminjasafni er stórt líkan að miðaldadómkirkjunni sem um ræðir. Hún var tæplega 50 metra löng, 12 metra breið og 14 metra há á efst í mæni.“ Fullyrt er (2011:4) að „rannsóknir okkar hæfustu vísindamanna [hafi] leitt til ákveðinnar niðurstöðu um útlit þeirra og byggingarlag sem enginn getur dregið í efa“. [Leturbr. hér.]

Við þetta er ýmislegt að athuga.

Ekki verður betur séð en að tölvugerðar myndir af fyrirhugaðri kirkju byggist á teikningum eftir Hörð Ágústsson (1922–2005) og á tilgátulíkani í Þjóðminjasafni sem smíðað var þeim til útlistunar. Tölvugerðu myndirnar eru því ekki sjálfstæð túlkun VSÓ á heimildunum eða nýtt verk byggt á rannsókn frumheimilda, heldur eru þær í öllum aðalatriðum byggðar á teikningum Harðar. Teikningarnar, sem hér um ræðir, birtust í bók Harðar, Skálholt – Kirkjur, árið 1990.

Heimildirnar sem Hörður vann teikningar sínar upp úr voru í fyrsta lagi niðurstöður fornleifauppgraftar í Skálholti. Þær birtust í bókinni Skálholt – Fornleifarannsóknir 1954–1958, eftir Kristján Eldjárn, Haakon Christie og Jón Steffensen, sem Hörður bjó sjálfur til prentunar árið 1988. Í öðru lagi úttektir og lýsingar sem finna má í fornbréfasafninu, á Þjóðskjalasafni og víðar, og birtir eru kaflar úr í fyrrnefndri bók Harðar, Skálholt – Kirkjur. Í þriðja lagi efnislegar leifar úr Skálholtskirkjum, varðveittar á Þjóðminjasafni og víðar. Þetta er heimildagrunnurinn. Í viðbót við heimildirnar sjálfar kemur til greining Harðar á þessum heimildum, túlkun hans á þeim, út frá þeirri þekkingu sem hann bjó yfir sem fræðimaður og listamaður, og tilgátur um gerð og útlit kirknanna sem hann birti í formi teikninga í bókinni.

Hér er um að ræða níu kirkjur samtals, en teikningar einungis af fjórum. Teikningar af þremur kirkjum eru byggðar á tiltölulega öruggum forsendum, þ.e. teikningar af Sóknarkirkjunni, Valgerðarkirkju og Brynjólfskirkju. En þegar kemur aftur á siðbreytingartímann og miðaldir „tekur að falla húm yfir heimildir“ eins og Hörður orðar það (1990:231). Í greinargerð VSÓ (2011:8) er á hinn bóginn fullyrt að „lýsing á hinum fornu kirkjum og niðurstöður rannsókna er að finna í þriggja binda ritröð um Skálholt (Kristján Eldjárn, Hörður Ágústsson o.fl., 1988, Skálholt) og þar er að finna höfuðheimildirnar um gerð miðaldakirknanna.“ Það er að vísu rétt að í þessum bókum er að finna nokkrar heimildir um miðaldakirkjurnar. Hitt er nauðsynlegt að hafa í huga að teikningar af miðaldakirkjunni í  Skálholt – Kirkjur eru gerðar á grunni þessara heimilda, en eru ekki sjálfar heimildir um kirkjurnar.

Hörður talar um teikningar sínar af miðaldakirkjunni sem tilgátulíkan eða einfaldlega líkan. Þetta kemur víða fram í bókinni Skálholt – Kirkjur, m.a. í texta við mynd á bls. 239, sem tekin er upp í greinargerð VSÓ (2011:8). Í myndatextanum, sem einnig má lesa í greinargerð VSÓ, segir Hörður: „Endurgervingarteikningar líkans af miðaldakirkju íslenskri með hliðsjón af Gíslakirkjugrunni, málum og lýsingum af Péturskirkju á Hólum, Ögmundarkirkju og Árnakirkju.“ Hér er því augljóslega ekki um tiltekna kirkju að ræða, heldur einmitt líkan sem Hörður býr til á grunni ólíkra heimilda í því skyni að gefa sér og öðrum einhverja hugmynd um það hvernig íslenskar miðaldakirkjur hefðu hugsanlega getað litið út miðað við tilteknar forsendur, eins og lesa má í myndatextanum. Vert er að árétta að teikningar Harðar eru jafnframt að nokkru leyti teikningar listamanns: dregnar af listfengi, hrífa og sannfæra. En þar með er ekki sagt að þær gefi raunsanna mynd af Skálholtskirkjum. Engum var það ljósara en höfundinum sjálfum eins og lesa má í formálanum að Skálholt – Kirkjur (1990:7).

Svo virðist því sem Gestaþjónustan ehf. og Þjóðkirkjan hyggist í grundvallaratriðum smíða fræðilegt tilgátulíkan Harðar Ágústssonar um íslenska miðaldadómkirkju í formi byggingar. Engar aðrar fræðilegar forsendur virðist liggja verkefninu til grundvallar og því verður ekki betur séð en að þriðju aðilar hafi í hyggju að taka einfaldlega yfir teikningar Harðar Ágústssonar og nota þær í viðskiptahugmynd á vegum Gestaþjónustunnar og Þjóðkirkjunnar.

En ýmis önnur álitamál geta haft sitt að segja um þetta verkefni.

Eitt er það, til dæmis, að tilgátulíkanið hefur ekki, enn sem komið er, verið sannprófað af fræðasamfélaginu. Við vitum ekki hvort það stenst. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það er ekki einfalt mál að rýna í heimildirnar og túlka þær. Í greinargerð VSÓ (2011:6) er m.a. staðhæft að Péturskirkja á Hólum hafi verið 50 metra löng og að þessi og önnur mál „taki af öll tvímæli“ um stærð kirknanna. Þetta eru stærðir sem byggðust á lestri og túlkun Guðbrands Jónssonar (1919) á heimildum í fornbréfasafninu. En nú hefur Þorsteinn Gunnarsson fært traust rök fyrir því að heimildirnar eigi að túlka með öðrum hætti og að Péturskirkja á Hólum (1395–1624) hafi ekki verið 50 metrar að lengd, heldur 38 metrar, eða mun styttri en áður var haldið. Telur Þorsteinn (2010:277) að „um kirkjuna og mikilleik hennar [hafi] ýmislegt verið ofmælt á næstliðinni öld.“ Auk þess má ráða af heimildum að krossstúkur hennar hafi ekki verið veigameiri en svo að vandalítið hefur verið að rífa þær frá kirkjunni. Því má ljóst vera að Hólakirkja var á miðöldum af svipaðri stærð og margar norskar stafkirkjur en þær voru samkvæmt greinargerð VSÓ „litlar og reistar á elleftu og tólftu öld“ (2011:19).

Þessi atriði skipta máli vegna þess að áætluð stærð Hólakirkna er ein forsendan fyrir áætlaðri stærð og gerð miðaldakirknanna í Skálholti. Endurskoðun á stærð og gerð Hólakirkna hefur því áhrif á mat á stærð og gerð Skálholtskirkna. Enda þótt ein Skálholtskirkjan hafi líklega verið heldur stærri en kirkjan á Hólum, er margt á huldu um gerð þeirra og mörg óleyst álitamál. Mun einfaldara er að eiga við síðari Skálholtskirkjur, enda heimildir fyllri, auk þess sem samtímamyndir og teikningar eru til af þeim kirkjum

Þetta sýnir að hér er ekki um að ræða niðurstöður sem „enginn getur dregið í efa“ (VSÓ 2011:4): Hér er um að ræða rannsóknir og fræðimennsku þar sem niðurstöðurnar eru settar fram í formi teikninga, sem byggðar eru á heimildum svo langt sem þær ná; en þær eru oftar en ekki rýrar og á köflum torræðar og ekki alltaf jafn ljóst hvernig á að túlka þær, svo að mörg eru þar álitamálin. Auk þess er það grundvallaratriði í vísindum að allar niðurstöður eða tilgátur má draga í efa og meta upp á nýtt með gagnrýnum hætti út frá viðmiðum hverrar fræðigreinar. Og það gildir jafnt í rannsóknum í byggingarlistasögu sem í öðrum greinum.

Heimildir:

Guðbrandur Jónsson (1919). Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal: Lýsing íslenzkra miðaldakirkna. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju, V, 6. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Hörður Ágústsson (1990). Skálholt – Kirkjur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Kristján Eldjárn, Haakon Christie og Jón Steffensen (1988). Skálholt – Fornleifarannsóknir 1954–1958. Hörður Ágústsson bjó til prentunar. Reykjavík: Lögberg.

„Miðaldadómkirkja í Skálholti“ (2013), á vef Gestaþjónustunnar ehf., http://www.midaldadomkirkja.is

VSÓ (2011). Miðaldadómkirkja í Skálholti: Stórvirki í íslenskri menningarsögu endurreist. Greinargerð í október 2011. http://kirkjan.is/kerfi/skraarsofn/kirkjan-frettir/2011/11/greinargerd-okt-2011.pdf.

Þorsteinn Gunnarsson (2010). „Hversu löng var Péturskirkja á Hólum?“ Vísindavefur: Ritgerðasafn til heiðurs Þorsteini Vilhjálmssyni sjötugum. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010, bls. 269–278.

Leave a Comment