Börnin í Dimmuvík

[container]

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Ég hef fylgst af áhuga með ferli Jóns Atla Jónassonar um langt skeið. Ég man hvernig Í frostinu (2005) hélt mér föngnum í sól og sumri austur í Atlavík um árið. Ég upplifði söguna geirneglda inn í íslenskan þjóðfélagsveruleika þar sem allt var „á fullu blasti“. Síðan má t.d. nefna Brim og Djúpið í ýmsum uppsetningum auk Nóttin nærist á deginum nú síðast. — Aftur kaldhömruð greining á örvæntingunni í samtímanum. Takk fyrir allt þetta. Við bíðum mörg spennt eftir næsta verki.

Nú í vor kom svo Börnin í Dimmuvík sem líta má á sem nóvellu (83 bls.). Þar er á ferðinni upprifjun eða endurlit gamallar konu frá æskudögum í ónefndri vík á hátíðarárinu 1930. Aðstæðurnar sem hún lifir að nýju eru þó í hróplegri mótsögn við þann hátíðarljóma sem það ár er sveipað. Þessi rauði þráður er síðan rammaður inn af annarri sögu: ferð sögukonunnar ásamt sonarsyni sínum frá Reykjavík til jarðarfarar bróður síns í gömlu átthögunum. Sagan sveiflast því að því er virðist milli áranna fyrir Hrun og fyrrgreinds hátíðarárs á að giska 75 árum fyrr (bls. 12).

Í rammasögunni mætum við þroskaðri konu sem hefur öðlast æðruleysi og umburðarlyndi á langri og strangri æfi. Hún veltir fyrir sér „hvort ein manneskja geti borið aðra og þá hversu lengi“; krefst einskis nema að halda reisn sinni og frelsi. Samspil sagnanna tveggja, tímaflöktið, endurlit konunnar og krufning hennar á reynslu sinni eru trúverðug. Það er einmitt þetta sem gerist við jarðarfarir og tilgangur þeirra er ekki síst að við sem enn vermum kirkjubekkina lítum um öxl, reynum að „strúktúrera“ líf okkar, meta það og ef mögulegt er sættast við hið liðna eins og kemur svo sterkt og óvægið fram í lokaorðum sögunnar. Þar rís hún kröftuglega þegar lesandinn, a.m.k. ég, er eiginlega tekinn að velta því fyrir sér hvernig höfundur hyggist ljúka verki sínu á þeim fáu síðum sem eftir eru. — Við þetta flæði hugans frammi fyrir dauðanum verður lítið ráðið (bls. 14, 56).

Í huga mínum vakti meginsagan — sá hluti hennar sem gerist 1930 — hins vegar ýmsar áleitnar spurningar sem lúta að sannfræði og trúverðugleika skáldskapar. Í raun virðast leiðir höfundar og sögukonunnar skilja í Borgarnesi og því miður verður höfundurinn en ekki sögukonan einn eftir. Hún var 12 ára 1930. Það er e.t.v. táknrænt að hún hefur fæðst frostaveturinn mikla. Það sló mig skyndilega að hún talaði ekki og hugsaði eins og pabbi eða neinn af þeirra kynslóð sem ég hef hitt. Hann er samt ekki fæddur fyrr en 1924. Eiginlega fannst mér að hún hlyti að hafa farið utan og lesið sálarfræði á „vandamálatímanum“ þegar hún var komin yfir fimmtugt (bls. 16, 20, 21, 26, 27, 32, 58, 62). Vera má að þarna sé um áhrif frá rammasögunni að ræða. Hún gefur undir fótinn með „psykólógíseringu“, „analýsu“ og greiningu.

„Sagan sjálf“ er klassísk píslarsaga fjölskyldu í Sumarhúsastíl þar sem enn einn Bjarturinn er á ferð, erfiður bæði sér og sínum. Sögusviðið er eins og áður sagði ónefnd vík en börnin sem þar alast upp, þrjú systkini, kalla hana ýmist Dimmuvík eða Grimmuvík. Fjölskyldan hefur tekið sé bólfestu í yfirgefinni verstöð og yfir heiði að fara til næsta bæjar og „plássins“. Það er augljóst að þau sem á annað borð lifa af eru komin að leiðarlokum á þessum stað. Í þessum hluta sögunnar er lýst harðri lífsbaráttu þar sem fjölskylda hefur beðið ósigur. Hér skiptast á raunsæislegar lýsingar á aðstæðum við hungurmörk, kröftugar sálfræðilegar senur sem t.d. sýna frelsisþrá (bls. 27) og örvæntingu (bls 69–70) móður sem gefist hefur upp og horfið börnum sínum þremur í harmi yfir því fjórða sem fæddist andvana (bls. 25) og loks mytískar myndir þegar „stærra herbergið“ í kofanum breytist í sakralt rými með róðukrossi og blóðeikarborði (altari) þar sem holdtekning (bls. 28, sjá og 47 en þar má líta á mjólk sem ígildi helgaðs kvöldmáltíðarvíns sem ekki má fara til spillis), sjálfsfórn og neysla blóðs (bls. 49–51) á sér stað auk máltíðarsamfélags við ýtrasta skort. Þarna er því ekki undan einhæfum efnistökum að kvarta.

Efasemdir vakna hins vegar yfir ýmsum lykilorðum sem jafnvel verða að stefjum og ganga gegnum söguna, mikilvægum sviðssetningum og, eins og áður var gefið í skyn, „analýtískri“ hugsun sögukonunnar sem oft kemur fram í nafnorðastíl sem einkennir ekki málfar lífsreyndar konu um nírætt.

Mikilvægt stef í síðari hluta sögunnar eru lýsingar á ferðum barnanna eins og eins í senn yfir heiðina til að kaupa heimilinu mjólk uns sú síðasta kostar yngstu systurina lífið. Í þessum ferðum nota þau að því er virðist allmikla fötu með loki. Samt kaupa þau bara einn pott í einu (bls. 39, 41, 43, 44). Pottur er aðeins einn lítri (nánar til tekið 0,965 l)! Mín kynsóð var send með brúsa eftir fimm lítrum. Þá var velmegun auðvitað orðin meiri! Þrátt fyrir skortinn í Dimmuvík truflar þessi smáa mælieining þar sem skammturinn dugar til einhverra daga en vissulega er farið sparlega með. Einnig virðist örla á ókunnugleika höfundarins er hann ræðir um bát sem „liggur í vari“ uppi á landi (bls. 37–38), „vinnuhjú“ er koma á nágrannabæinn á sumrin (bls. 39), „hlandfor“ sem hætta gat stafað af heima í Dimmuvík (bls. 42). Bátur sem liggur í vari er á floti, kaupafólk réð sig yfir sumartímann og hlandfor myndast ekki þar sem engar eru kýrnar.

Af sviðssetningum skal hér bent á guðrækni föðurins sem ber ekki keim af íslenskri heimilisguðrækni heldur virðist blendingur af píetískum vakningarkristindómi og kaþólsku sem vissulega hefur verið til en tæpast hér á landi (bls. 17, 46, 48, 59, 62, 74, 75).

Þau atriði sem hér hafa verið nefnd grafa undan trúverðugleika sögunnar og trufla þann sem telur sig hafa innsýn í eða tilfinningu fyrir þeim sögutíma sem lýst er. Sú áleitna spurning leitar á hvort ekki sé lengur hægt að skrifa af öryggi og trúverðugleika um gamla, íslenska bændasamfélagið nema undir formi sagnfræði, sögulegrar skáldsögu eða heimildasögu. Svarið við þeirri spurningu er sem betur fer: Jú! Upp í hugann koma t.d. tvær bækur Sjóns, Skugga-Baldur (2003) og Rökkurbýsnir (2008) sem báðar virðast búa yfir trúverðugleika hvor á sinn hátt. Auðvitað ber ekki að reyra skáldsögur um liðna tíð í fjötra sögulegs raunsæis, heimildarýni, sannfræði eða ákveðins málfars og stíls. Slíkar sögur mega lúta sínum eigin lögmálum og fagurfræði. Mikilvægt virðist samt að lykilhugtök, berandi sviðssetningar og persónusköpun rími nokkurn veginn við sögutímann. Álitamál er hvort þetta hefur tekist sem skyldi í annars spennandi tilraun Jóns Atla Jónassonar til að hverfa aftur í tímann.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *