[container]
Mikil umræða um hefur farið fram um styttingu náms í íslensku skólakerfi undanfarið og er dálítið merkilegt að hún hefur nánast eingöngu snúist um hagræna þætti og minna um þá menntahugsjón sem hvert skólakerfi á að sinna, í samræmi við þá skoðun að skólakerfið eigi ekki að skila einungis af sér fræðingum í fögum heldur einnig betri manneskjum. Wilhelm von Humboldt er oftast nefndur sem frumkvöðull þessarar menntahugsjónar og varð hún mjög ráðandi á Vesturlöndum í einhverri mynd undanfarnar tvær aldir og hvað sem um Vesturlönd má segja, þá er nokkuð ljóst að menntakerfi Vesturlanda hefur aldrei átt sinn líka undanfarna rúma öld eða svo.Nú er ekki svo að umræða um styttingu náms til stúdentsprófs umbylti hugmyndafræði þeirrar menntunar sem við sækjumst eftir að börnum okkar sé veitt í þessu landi, en mér finnst sumar röksemdirnar sem fluttar eru fyrir því vera nokkuð á skjön við menntahugsjónina og reyndar einnig reynslu okkar eldri kynslóða af því að njóta menntunar í framhaldsskólum landsins.
Í fyrsta lagi er mikið rætt um að það vanti tæknimenntað fólk og að skólakerfið eigi að laga sig að þörfum atvinnulífsins. Það getur vel verið að tæknimenntað fólk vanti, en er það einungis skólakerfinu að kenna? Markaðskerfið leysir slík vandamál yfirleitt með því hækka laun þeirra sem eftirsóttir eru og gera þannig þá menntun sem krafist er eftirsóknarverða. Í annan stað sýnist mér oft gleymast að skólakerfið eitt á ekki að sinna menntun í landinu, einkum þegar komið er að tæknilegra námi.
Ég þekki til í Þýskalandi þar sem ég stundaði þar nám og hef átt börn í skóla. Þar er almenn tæknimenntun líkast til á hæsta stigi í heimi, a.m.k. á mörgum sviðum og þar tekur atvinnulífið virkan þátt í menntun þjóðarinnar, sérstaklega á sviði iðnmenntunar og tækni. Lærlingakerfið er vissulega þekkt hér á landi, en það er miklu víðtækara í Þýskalandi og nær til miklu fleiri starfsgreina en hreinna iðngreina. Þannig sækir atvinnulífið þar sér ungt fólk með tiltekna grunnmenntun og þekkingu og menntar það frekar á sínum sviðum. Sama gildir um starfsnemakerfið fyrir háskólanema þar sem flestir fá tækifæri í starfsnámi í fyrirtækjum áður en þeir ljúka námi eða fara út á vinnumarkaðinn. Hér eru þessi kerfi í skötulíki nema helst í hefðbundnum iðgreinum.
En að lengd náms til stúdentspróf hér og annars staðar. Á Íslandi er hún með hefðbundnu bekkjakerfi eins og í Menntaskólanum í Reykjavík 14 ár. Í skólum með áfangakerfi er hægt að ljúka námi á skemmri tíma, en flestir taka sér lengri tíma til þess, einhverra hluta vegna. Ein skýring getur verið sú að nemendur njóti mjög lífsins á menntaskólaárunum og flýti sér þess vegna ekki um of. Önnur, og sennilegri skýring, er sú að mjög margir menntaskólanemar vinna með skólanum til að eiga fyrir eigin neyslu að einhverju leyti, jafnvel bíl og bensíni eins og sjá má af bílastæðum skólanna. Þriðja skýringin er kannski sú, og þá er 10 ára nám í grunnskóla meðtalið, að kennslutími sé styttri á ári hér en annars staðar. Reyndar mætti vel stytta grunnskólanámið að hluta með því að hafa samræmd próf þegar í 9. bekk (svipað og í landsprófi hér áður) og leyfa þeim sem ekki gengur nógu vel að taka tíunda árið með sérstakri áherslu á þær greinar þar sem á bjátar.
Í Berlín, þar sem ég dvaldi með börn mín sl. ár, hefur skólaárið nýlega verið stytt með sömu rökum og hér, þ.e. að flýta fyrir komu unga fólksins á vinnumarkaðinn. Þessi stytting var reyndar úr þrettán árum niður í tólf ár til stúdentsprófs. Þessi breyting virðist vera að sigla í strand og þegar er farið að ræða að breyta þessu til baka. Ástæðan er sú að þessi þröngi tímarammi breytir venjulegu skólanámi í streituvaldandi pressu, þar sem lítil eða fá tækifæri eru til að þroska annað en beina kunnáttu í fögunum án nokkurrar námsgleði. Það er lítið sem ekkert félagslíf því krakkarnir hafa ekki tíma í það.
Annað sem gleymist stundum í umræðunni um langa skólagöngu hér á landi er að vegna þess að skólakerfið er tiltölulega opið, þá má gera ráð fyrir að allmargir sem annars væru atvinnulausir séu hér í skóla. Þetta virðist hafa gerst eftir hrunið 2008 ef marka má aðsóknartölur í háskólana og sé það rétt er það mjög gott, því fátt er verra en að mæla götur á bótum árum saman. Þannig má kannski álykta sem svo að löng skólaganga hér á landi dragi úr atvinnuleysi, enda er það svo að töluvert af því sem kallað er brottfall í framhalds- og háskólum landsins stafar ekki af því að viðkomandi nemandi hafi gefist upp á náminu, heldur því að hann eða hún hefur fengið góða vinnu að eigin mati. Sé þetta rétt má segja að flæðið milli skólakerfisins og atvinnulífsins sé bara býsna gott og hjálpi að viðhalda jafnvægi á vinnumarkaði.
Það er því kannski ástæða til að velta fyrir sér kostum og göllum íslenska skólakerfisins eins og það er áður en reglustikan er tekin upp og náminu þjappað saman um of með hagrænum rökum. Ég held að margir minnist einmitt menntaskólaáranna sem þess tíma þar sem þeir fengu að læra og þroskast félagslega sem manneskjur. Til þess þarf tíma.
Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply