Stjórnskipan Ríkisútvarpsins

[container]

Um höfundinn
Hlynur Helgason

Hlynur Helgason

Hlynur Helgason er myndlistarmaður og listfræðingur. Hann er lektor í listfræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og stundar m.a. rannsóknir á samhengi íslenskrar samtímalistar, áhrifum hennar og stöðu í fjölþjóðlegu samhengi. Sjá nánar

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi tillögur að breytingum á því hvernig skipað skal í stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er lagt til að sérstök fjölskipuð nefnd sem skipar stjórn verði lögð af og að Alþingi skipi stjórnina framvegis beint. Í ljósi umræðu um æskilega og góða stjórnarhætti, sem hefur verið jákvæð á Íslandi á undanförnum árum, er því ástæða til að ræða þessar tillögur og mögulegar afleiðingar þeirra.

Umræða á Vesturlöndum um stjórnarfar hefur lengi snúist um „lýðræði“ og forsendur þess. Hins vegar ber þess að minnast að í sögulegu tilliti hafa menn löngum verið sammála um það að það sem mestu máli skipti sé að byggja upp stjórnarfar þar sem hagur og hamingja sem flestra sé í fyrirrúmi. Þá hefur ekki alltaf ytri umgjörð stjórnskipunar skipt meginmáli, hvort almenningur hefur ráðið að meira eða minna leyti, eða hvort færri hafi haldið um taumana. Það sem hefur, hinsvegar, skipt mestu máli var hvort um væri að ræða réttlát lög þar sem jafnræðis var gætt.

Það sem er gott í stjórnskipun, út frá þessari umræðu, eru faglegar og góðar reglur sem tryggja þá starfsemi sem skiptir máli, tryggi hana á almennan hátt. Það sem er vont er stjórnsýsla sem byggir á tilskipanavaldi, einstaklingsbundnum aðgerðum stjórnvalda sem eru handan laganna. Aukin stjórn með tilskipunum er jafnan talin fela í sér þróun í átt til harðræðis og spillingar, á meðan aukin og efld umgjörð laga er talin til þess fallin að efla jafnræði og faglega stjórnsýslu. Stýring með tilskipunum hefur í umræðu undanfarinna ára verið nefnd „pólitísk inngrip“. Það er í reynd rangnefni vegna þess að „pólitík“ er hugtak sem á við um faglega umræðu á vettvangi stjórnmála. Réttara væri að nota „pólitísk inngrip“ yfir það þegar löggjafinn kemur í veg fyrir að hægt sé að beita tilskipanavaldi.

Handhægt er að nefna tvö dæmi úr umræðu undanfarins árs til að skýra þessar áherslur nánar. Hið fyrra á við um þegar atvinnumálaráðherra ákvað að stækka, að því er virðist án undangengins ferlis, helgunarsvæði hvalaskoðunar fyrir suðvesturlandi; hvað sem mönnum finnst um réttmæti ákvörðunarinnar, þá hníga rök að því að hér hafi ráðherra beitt tilskipunarvaldi; hann hafi tekið sértæka ákvörðun fyrir utan faglegt ferli ákvörðunartöku. Hið síðara snýr að ákvörðun Alþingis um að flytja nokkra virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk; hér var verið að setja ákvörðunartöku í rannsóknarferli til að tryggja, að því er virðist, betur fagleg vinnubrögð áður en ákvörðun væri tekin; hér var almenna reglan ofaná í stað þess að beita sértækum aðferðum tilskipana, í máli sem nokkur vafi lék á að kæmi almenningi til góða til langframa.

Sú tillaga mennta- og menningarmálaráðherra um að breyta lögum um skipan í stjórn einnar mikilvægustu stofnana ríkisins, Ríkisútvarpsins, sem er stofnun sem sér um að halda úti menningarlegri dagskrá og, umfram allt, tryggir jafna og réttláta umræðu um málefni líðandi stundar. Tillaga ráðherra felur í sér að hætta að skipa í stjórn stofnunarinnar út frá faglegum forsendum, skipan sem byggir á núgildandi lögum frá Alþingi. Í í stað þess að Alþingi setji almennar reglur um skipun í stjórn RÚV vill ráðherra að Alþingi sjálft skipi beint í stjórnina. Hér er lagt til að lögunum verði breytt frá almennri reglu sem sett var til að tryggja sem best hlutleysi við skipan stjórnar; í staðinn kemur regla um sértæka skipan mála þar sem ríkisstjórn og ráðherra koma beint og óbeint til með að ráða hvernig stjórn er skipuð hverju sinni. Hér er því verið að breyta úr lögskipuðu umhverfi í áttina til stjórnunar með sértækum tilskipunum ráðherra og Alþingis. Ef þetta yrði að veruleika væri því um talsverða afturför að ræða, í átt til aukins harðræðis en ekki lýðræðis eins og ráðherra vill láta í veðri vaka.

Deila

.

[/container]


Comments

One response to “Stjórnskipan Ríkisútvarpsins”

  1. Sigurður Jónsson Avatar
    Sigurður Jónsson

    Þarna er ég hjartanlega sammála greinarhöfundi

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *