Guðbergur Bergsson heiðursdoktor

[container]

_DSC7026_Gudbergur_Bergsson_heidursdoktor_GeirÞann 1. júní síðastliðinn sæmdi Deild erlendra tungumála, málvísinda og bókmennta á Hugvísindasviði Háskóla Íslands Guðberg Bergsson rithöfund heiðursdoktorsnafnbót við deildina. Heiðursdoktorshátíðin var lokaþáttur í ráðstefnu sem haldin var til heiðurs Guðbergi í Hátíðasal Háskóla Íslands. Í henni tóku þátt íslenskir og erlendir rithöfundar, þýðendur og fræðimenn. Víðsjá fjallaði ítarlega um erindi ítalska skáldsins og rithöfundarins Massimo Rizzante á ráðstefnunni. Hægt er að hlusta á Víðsjárþáttinn á heimasíðu þáttarins.

Guðbergur Bergsson á að baki langan, farsælan og stórbrotinn starfsferil í þágu bókmennta og menningar. Frumsamdar bækur hans skipta tugum og vega þungt í íslenskri bókmenntasögu. Eftir hann liggja merkar smásögur, ritgerðir og ljóð, en hann hefur þó markað dýpst spor sem skáldsagnahöfundur – og sem þýðandi. Hann hefur fært yfir á íslensku verk úr ýmsum tungumálum, svo sem portúgölsku, ensku, þýsku og þó sérstaklega spænsku.

Meðal þýðinga Guðbergs eru verk sem teljast til heimsbókmenntanna, svo sem Don Kíkóti eftir Cervantes og Hundrað ára einsemd og fleiri verk eftir Nóbelsverðlaunahafann Gabriel García Márquez. Með frumsömdum verkum sínum og þýðingum hefur Guðbergur opnað gáttir milli menningarheima. Á Íslandi hefur hann ögrað landlægum og hefðbundnum hugmyndum og opnað landamæri tungumála og veitt dýrmætum straumum inn í íslenska menningu.

Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda telur það sér því mikinn heiður að fá að telja hann til doktora deildarinnar.


[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *