[container]
Nú í vor sýndi tilraunaleikhúsið Lab Loki leikverkið Hvörf í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Verkið byggir á gögnum úr Guðmundar- og Geirfinnsmálunum en textinn er saminn af Rúnari Guðbrandssyni, sem jafnframt stýrði verkinu og er helsti forsprakki Lab Loka, Sjón, Stefáni Halli Stefánssyni og leikhópnum.Sýningin hófst í Kúlunni en eftir upphafssenuna fluttist hún yfir í næsta hús, hinn gamla dómssal hæstaréttar, þar sem meginhluti verksins fór fram. Það var einkar vel til fundið að sýna einmitt þetta verk á þeim stað, í salnum þar sem endanlegir (?) dómar voru kveðnir upp. Jafnfram hefur Loki komið rýminu á kortið sem leikhússsal. Eftir leiksýningar í vetur hef ég einmitt oft horft upp í gluggana og undrast að leikhúsið skuli ekki vera búið að sölsa salinn undir sig. Vonandi bætist hann eftir þetta í leikhúss- og menningarflóru borgarinnar.
Senan í Kúlunni var nokkuð losaraleg og „absúrd“ en byggði þó upp ákveðið andrúmslof auk þess sem áhorfendur sköpuðu sér mynd af lögreglumönnunum Geirmundi (Árni Pétur Guðjónsson) og Guðfinni (Friðrik Friðriksson) hvort sem sú mynd var nú gagnleg eða ekki.
Flutningurinn milli staða skapaði vissulega sérstaka stemningu ekki síst þar sem leikararnir ráku nokkuð hranalega eftir sýningargestum með því að benda á að þeir væru ekki í femingarveislu. Þau orð enduróma alræmd ummæli sem nýlega voru viðhöfð um sakborninga í málunum og vissulega var sterkt að koma í einum hópi inn í dómssalinn eftir að fyrsti tónninn hafði verið sleginn.
Síðari hluti sýningarinnar, sá sem fram fór í dómssalnum, var þéttur, hraður, hörkulegur og harður þar sem tilraun var gerð til að miðla þeim tilfinningum sem virðast hafa ríkt meðal þeirra sem unnu að rannsókn málsins ekki síður en hinna sem urðu fyrir barðinu á þeim. Tvisvar var verkið svo brotið upp af persónulegum frásögnum eða „vitnisburðum“ fólks með bein tengsl við þolendur í málinu. Úr salnum sté fram karl er verið hafði samtímis Sævari Marínó Ciesielski í Breiðavík og sagði sláandi sögu af veru þeirra þar. Varpaði hún ljósi á bakgrunn Sævars og þar með málsins. Hins vegar fór ein úr hópi leikendanna út úr rullunni (Svandís Dóra Einarsdóttir), talaði þá sem dóttir eins þeirra sem sætti gæsluvarðhaldsvist og greindi frá hans hlið á málinu. Jók þetta mjög á dramatískan þunga verksins, gaf því tilfinningalega nánd, vóg upp á móti „absúrd“ stíl þess að öðru leyti og veitti annað og óvænt sjónarhorn á viðfangsefnið.
Í þessum síðari þætti gegndi blaðamaðurinn Fjölnir (Stefán Hallur Stefánsson) mikilvægu hlutverki og var málpípa gagnrýninnar og þar með í raun réttvísinnar í vitfirrtri framrás verksins, kallaði gerendur til ábyrgðar og vakti áhorfendur til vitundar um ýmsar gagnrýni verðar hliðar málsins.
Loks var lokasenan sterk en hún vísaði til hinnar upphaflegu „leikmyndar“ rýmsins þegar fimm kápuklæddir dómarar birtust með risavaxinn ríkisfána í bakgrunni. — Hæstiréttur var mættur á staðinn.
Í heild voru Hvörf holl hugvekja um alvarleika Guðmundar- og Geirfinnsmálanna og hversu margir þættir þeirra eru enn óljósir. Þarna var á ferðinni félagslega meðvitað ádeiluleikhús með biti og broddi.
Lab Loki lét ekki staðar numið með uppfærslunni einni og sér. Eftir eina sýninguna var boðið til pallborðsumræðu þar sem tveir lögfræðingar auk nokkurra fjölmiðlamanna brutu málið til mergjar og svöruðu fyrirspurnum úr sal. Sérstaka athygli vakti að annar lögfræðinganna, hinn nýkjörni þingmaður Brynjar Níelsson, túlkaði gagnrýni fyrirspyrjenda svo að menn ásökuðu þá sem unnu að rannsókn og dómum í málunum um að hafa vísvitandi unnið gegn betri vitund og leitast við að koma höggi á saklaust fólk.
Mér sem sat út í sal þótti þar gæta mikillar einföldunar. Enginn sem til máls tók svo mikið sem ýjaði að ásökun á borð við þessa. Ádeilan sem lá í loftinu snérist um að þeir sem að rannsókn og dómum komu hafi ekki verið nægilega á verði fyrir fyrirfram mótuðum hugmyndum, ekki nægilega gagnrýnir á misgrundaðar upplýsingar og sögusagnir sem haldið var að þeim og þann félagslega þrýsting sem þeir bjuggu við. Allt eru þetta þættir sem líklegir eru til að hafa áhrif á rannsóknir mála, ekki aðeins sakamála heldur mála af hvaða tagi sem er, jafnvel geta akademískar rannsóknir liðið fyrir þætti á borð við þessa. Það er ljóst að aðstæður í samfélaginu mótuðu mjög sýn og hugarfar þeirra sem helst komu við sögu í þessum átakanlegu málum af hálfu hins opinbera.
Við blasir að íslenska samfélagið var um margt að glata sakleysi sínu eimitt þegar Guðmundur og Geirfinnur hurfu. Ungmennamenningin þróaðist hraðar en nokkru sinni fyrr, félagslegt taumhald var að rakna og afbrot að verða tíðari og harðari. Hvarvetna í samfélaginu var kallað eftir hraðri og endanlegri lausn í málunum. Sú krafa náði lengst inn í stjórnkerfið og inn á Alþingi. Á vissan hátt var tekist á um völd í samfélaginu.
Einmitt þetta kallar eftir endurmati á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum ef öllu réttlæti á að vera fullnægt. Fyrsta skrefið í þá átt var vissulega tekið með skipun nefndar sem Ögmundur Jónasson fyrrum innanríkisráðherra beitti sér fyrir haustið 2011 og skilaði skýslu í mars s.l. Lokaorð hennar eru þessi:
,,Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafa lifað með íslensku þjóðinni í hartnær 40 ár. Allt frá fyrstu stigum rannsóknar málanna hafa þau verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og hafa málin verið umdeild allar götur síðan.
Mikilvægt er að almennt traust ríki til lögreglunnar, ákæruvaldsins og réttarvörslukerfisins í heild. Því vill starfshópurinn árétta mikilvægi þróunar og innleiðingar aðgerða til að tryggja hlutleysi við meðferð sakamála á öllum stigum réttarvörslukerfisins. Því verkefni mun aldrei ljúka og halda þarf vöku sinni yfir því að íslenskt réttarkerfi, málsmeðferðarreglur og verklag sé þannig að fyllsta réttaröryggis sé gætt.
Að lokum vill starfshópurinn lýsa þeirri von og trú að Guðmundar- og Geirfinnsmálin fái að njóta hlutlausrar umfjöllunar í kjölfar útgáfu skýrslu þessarar. Málin verði rædd af yfirvegun og fordómaleysi og að þau njóti eðlilegrar framgöngu innan réttarvörslukerfisins.“ (Sjá skýrslu – pdf)
Nú er mikilvægt að næsta skref verði stigið.
Endanleg lausn fæst vart í þessum skelfilegu málum öðru vísi en með endurupptöku fyrir rétti. Fullgild heimild virðist vera fyrir henni í núgildandi lögum en þar er t.d. að finna heimild til endurupptöku séu verulega líkur leiddar að því „að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin“ eða að „verulegir gallar hafi verið á meðferð máls“ svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Enn sem komið er þó aðeins ráð fyrir því gert að sá „sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira bort en það sem hann hefur framið“ geti óskað endurupptöku. Hér þyrfti að búa svo um hnúta að nánustu aðstandendur látins manns geti krafist endurupptöku líkt og víða er mögulegt. Í málum sem Guðmundar- og Geirfinnsmálunum þyrfti ríkisvaldið einnig að geta átt frumkvæði að endurupptöku einmitt til að þróa réttarríkið og standa vörð um virðingu fyrir og traust til dóms- og réttargæslukerfisins. Raunar virðist ríkissaksóknari hafa möguleika til þess að taka slíkt frumkvæði samkvæmt núgildandi lögum. — Það ætti vissulega að nýta í þessu tilviki. (Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008. 211. gr.)
Í málum þar sem mörg hafa sætt ákæru og dómi er vissulega líklegt að afstaða þeirra til endurupptöku sé mismunandi. Sum gætu þráð hana umfram allt annað. Önnur geta hafa lagt viðkomandi kafla æfi sinnar að baki og óskað að kyrrt liggi. Þá er mögulegt að taka upp hluta máls í von um að sár engra verði ýfð umfram það sem óhjákvæmilegt er til að réttlæti nái fram að ganga.
Hér skal Lab Loka og Þjóðleikhúsinu þakkaður þeirra hluti í uppgjöri þessara mála sem eru eins og dökkur skuggi 8. áratugar síðustu aldar sem mun ná langt inn á þess öld verði ekkert að gert.
[/container]
Leave a Reply