Að fletta yfir stríð

[container] Ég skil ekki stríð, þoli ekki fréttir af stríði og vil ekki lesa um þau. Ég held því fram að ég hafi ekki áhuga á fréttum. Síst stríðsfréttum. Finnst oft flókið að setja mig inn í aðstæður til að skilja hvað er í gangi. Forðast að hafa skoðun því mér finnst ég ekkert hafa skoðað og enn síður gagnrýni ég því ég gef mér sjaldan tíma til að rýna gegnum fréttaflauminn. Á morgnana reyni ég að fletta hratt í gegnum blaðið. Ég freistast til að láta fyrirsagnir og feitletranir duga. Velti því stundum fyrir mér hvort sé betra að vita fullt um eitt eða lítið um fullt.

Heima var hækkað í útvarpsfréttunum og sussað við eldhúsborðið þegar tilkynnt var um dauða Títós í maí árið 1980. Áhyggjum af heimsmálum ásamt rjómablandi var hellt út á sveskjugrautinn. Ég var nýorðin 15 ára og át það í mig að nú yrði ég að vera inni í heimsmálunum. Nú væri eitthvað merkilegt að fara að gerast og ég ætlaði að vera með, allavega viðræðuhæf og fullorðin. Mynda mér skoðun og finnast eitthvað. Daginn eftir las ég langa grein í Mogganum, þá lengstu sem ég hafði lesið, heila opnu um Josip Broz Tító. Af lestrinum skynjaði ég að eitthvað hlyti að vera í uppsiglingu hjá þjóð sem hafði búið við föðurlega handleiðslu leiðtoga sem nú var fallinn. Þetta var svolítið eins og leikstjórinn væri horfinn og aðalleikararnir, fulltrúarnir níu í forsætisráðinu, ættu að skiptast á að ráða en vissu ekki alveg hverju. Dramatíkin fór líka á flug hjá mér þegar ég las að í Júgóslavíu hlyti „djúpstæður ágreiningur og togstreita [að] koma […] upp á yfirborðið í þessu landi þar sem þrjú tungumál eru töluð, tvenns konar ritmál er við lýði og trúarbrögð skipta þjóðinni í þrjár meginfylkingar,“ úff, hvað þetta yrði flókið. Svo spáði ég líka mikið í hvað orðið hefði af Jóvönku. Hvernig gat Tító verið áfram dáður eftir að hann lét Jóvönku hverfa? Hún sem vildi bara hafa eitthvað um það að segja hverjir færu með til Kína? Hún hvarf og enginn spurði neins.

Næstu misserin reyndi ég eftir megni að fylgjast með því sem var að gerast niðri á Balkanskaga. Það krafðist einbeitingar að átta sig á hver var hvað og hvað hver vildi. Þegar talað var um þjóðarbrot fékk ég litla tilfinningu fyrir fólki eða aðstæðum. Landafræðin hjálpaði lítið, allt sem var austar en Austurríki var í austurþoku fyrir mér. Svo braust stríðið út og ég fór að fletta hraðar. Skildi ekki stríðið en skildi þó að það hafði átt sér langan aðdraganda og virtist óumflýjanlegt. Þoldi ekki að ég skildi ekki og enn síður að ekkert var hægt að gera. Ég man að sem barn spurði ég stundum fullorðna fólkið hvers vegna það hefði ekki gert neitt vitandi af því að Hitler væri að murka lífið úr Gyðingunum í útrýmingarbúðunum, oftast var mér svarað með hálfbrosi sem sagði þú skilur þetta seinna. Og núna var stríð, núna, og maður gerði ekki neitt. Sat í rólegheitum  við eldhúsborðið með ristað brauð, kókómalt og fyrirsagnir. Borgarastyrjöld að hefjast. Mikið mannfall í Króatíu. Ásakanir um vopnahlésbrot á báða bóga. Júgóslavía að liðast í sundur. Herinn stjórnar atburðarásinni. Júgóslavía er ekki til og verður ekki framar til. Ég vissi mætavel að undir prentsvertu fyrirsagnanna lá fólk í blóði sínu. Mæður, börn, feður… já fólk. Manneskjur. Manneskjur sem skiptu mig máli þótt ekki væri fyrir annað en að þær voru manneskjur rétt eins og ég. Ég náði bara engan vegin til þeirra. En smám saman  hurfu manneskjurnar mér úr fréttunum og stjórnmálalegt, hernaðarlegt og pólitískt tal ásamt  friðargæsluumleitunum tók yfir, ég hætti að ná tengingu og fletti sífellt hraðar.

Síðan hef ég flett yfir Afganistan, Írak, Rúanda, Íran, Kúweit, Sómalíu, Súdan og Sýrland og er þessa dagana að fletta yfir Malí. Mér þykir fyrir því vegna þess að annað fólk kemur mér við. Ég er forvitin um fólk, hvernig því líður og hvers vegna það eignast það líf sem það á og mig langar ekki að fletta yfir fólk.

19. febrúar 2013

Halla Margrét Jóhannesdóttir,
meistarnemi í ritlist

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *