Gleymdur húmanisti?

[container]

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Hversu margir skyldu lesa ljóð Jakobs Jóhannessonar Smára um þessar mundir? Skyldi hann verða lesinn af komandi kynslóðum? Hver ætli staða hans verði í bókmenntasögu þjóðarinnar á komandi tímum? Í nýjustu samantektinni yfir hana  — Íslenskri bókmenntasögu Máls og menningar (VI. b., Rvík 2006) — er honum helguð rúm blaðsíða. Þar af tekur sonnetta um Þingvelli sem birt er í heilu lagi hátt í helming rýmsins. Yfirskriftin sem honum er eignuð er: „Klassísk ró“.  Jakobs er þarna einkum getið til dæmis um skáld sem orti hefðbundið en samt sé ástæða til að nefna í bókmenntasöguyfirliti á nýhafinni 21. öldinni þótt ekki „skipti [hann] miklu máli fyrir þróunarsögu ljóðsins“ um sína daga (bls. 409).

Þessari vangveltu er ekki ætlað að sýna fram á að skáldið Jakob Smári „liggi óbættur hjá garði“ eins og oft sagt um þá sem lítið rými fá í yfirlitsritum. Því síður að gagnrýna það sem um hann er sagt á fyrrgreindum stað. Ástæðan er allt önnur og raunar alveg óskyld ofangreindum spurningum. Það vill einfaldlega svo til að fyrir skömmu uppgötvaði ég aðra hlið á Jakobi Smára en hina lýrísku ró hans. Greina- eða ritgerðahöfundinn rak sem sé á fjörur mínar. Einföld leit í Gegni eða á Leitum sýnir að hann var mikilvirkur greinahöfundur enda er Jakobi svo lýst í Bókmenntasögunni að hann hafi verið „ötull bókmenntamaður, gagnrýnandi … og ritstjóri“ auk kennslustarfa sinna. Nokkrar ritgerðir hans voru prentaðar í kverinu Ofar dagsins önn (Rvík 1958) en höfðu áður birst á víð og dreif á árunum 1917–1935. Verður blaðað í þeim hér og brugðið upp nokkrum dæmum.

Við lestur ritgerðanna vekur margt athygli og sá grunur gerist áleitinn að ritgerðasmiðurinn Jakob Jóhannesson Smári kunni að eiga fullt erindi til nútímalesenda. Það sama má vissulega segja um margar sonnettur hans þótt vissulega standi þær „handan storms og strauma“ svo vísað sé til heitis einnar af ljóðabókum hans. Í Ofar dagsins önn kynnist lesandinn húmanista sem er fátt óviðkomandi og býr hugtakið í því sambandi yfir ýmsum víddum. Höfundurinn er menntaður í fræðum sem lúta að manninum, mennskunni og menningunni. Maðurinn í vanda sínum og vegsemd er honum sýnilega hugleikinn og augljós mannúð og réttlætiskennd skín út úr mörgum textunum.

Lærdómur höfundarins kemur raunar hvarvetna fram í efnistökum hans og orðfæri. Viðhorf og viðmið í hugvísindum hafa þó breyst frá ritunartíma greinanna. Því eiga ýmsar túlkanir hans síður við nú á tímum en um hans daga. Þó má benda á ákveðin grunnviðhorf sem eru til eftirbreytni. Greinar Jakobs Jóhannessonar Smára sýna að þar fór kennari og fræðimaður sem ekki stóð á sama. Hann vildi miðla fræðum sínum, taka afstöðu til samtímamála í ljósi þeirra og bæta á þann hátt heiminn. Hugvísindafólk nútímans mætti taka sér þetta til fyrirmyndar. Þá gagnrýnir Jakob þekkingarleit mannsins og forgangsröðun í því efni um sína daga. Bendir hann á að ákaflega virðingarvert og mikilvægt sé talið að vita „hvernig fornmenn báru fram æ, eða að þekkja hrygningarsvæði álsins, og einkar skemmtilegt er líka að kunna deili á tannfjölda rottunnar“ (Ofar dagsins önn, bls. 29). Menn láti sér hins vegar fátt um þekkingarleit er lýtur að grunnrökum mannlegrar tilveru.

Þá gætir athyglisverðra pælinga í greininni „Skýjaborgum“ (1932). Þar veltir höf. fyrir sér gildismati samtíma síns og kemst að þeirri niðurstöðu að helstu hugsjónir hans lúti að frelsi, framförum og framleiðslu (Ofar dagsins önn, bls. 103). Dregur hann í efa að þessi annars nauðsynlegu lífsskilyrði tryggi mönnum varanlega hamingju. Í því efni telur hann meiru varða að mönnum

…lærist æ betur að skilja lífið og tilveruna, kunni æ betur að njóta hins fagra í náttúrunni og mannlífinu og meta það, og að lokum, að þeir móti vilja sinn og breytni samkvæmt lögmálum þeim, er þeir sjá æðst í tilverunni, og í samræmi við þá fegurð, er þeir skynja háleitasta (Ofar dagsins önn, bls. 105)

Í stuttri grein um Maríu guðs móður (1935) setti Jakob fram áhugaverðar hugleiðingar sem nú mundu flokkast sem feminísk guðfræði. Í ávarpi hans 19. júní 1919 gætir hins vegar mæðrahyggju sem veldur því að honum finnst konur of góðar til að lenda í því foraði sem stjórnmálin voru að hans mati og nýfenginn kosningaréttur þeirra atti þeim út í. Þarna kann hann að hafa verið barn síns tíma en hugsunin er þó ekki alveg óþekkt enn þann dag í dag.

Víða eru hugleiðingar Jakobs Smára á trúarlegum nótum. Einnig þar gætir sterkrar húmanískrar hneigðar. Þegar hann greinir frá „brotum úr trúarsögu sinni“ segir hann frá atviki frá einum Kaupmannahafnar-jólum hans. Þá varð á vegi hans tötraleg kona með barn vafið ræflum í fangi. Hún beiddist einskis „en allt útlit hennar var bæn“. Við þessa sýn missti hann „trúna á smáskammtalækningar góðgjörðarseminnar og fann, að það, sem þurfti, var mannfélagsréttlæti og mannfélagskærleikur, — að gera orðin „berið hver annars byrgðar“ að meginreglu alls skipulag manfélagsins (Ofar dagsins önn, bls. 143). Hér kallar Jakob Smári eftir félagslegum kristnindómi, trú í verki í stóru málunum en ekki aðeins einkalífinu. Frá svipuðu sjónarhorni er fróðlegt að bera skrif hans um Hjálpræðisherinn saman við lýsingar t.d. Þórbergs og Laxness. Jakob var greinilega á samkomu milla jóla og nýárs 1917. Vissulega er hann á hliðarlínunni, hugleiðir það sem fyrir augu ber út frá sjónarmiði hins betur setta í lífinu og lýsir því af hlutleysi en er samt snortinn. Á samkomunni eru m.a. þrjú „tötraleg og grá-skinin börn“. Smári sem sjálfur á barn heima „hugsar til þess með sorg og samvizkubiti, hve mjög hann sjálfur og aðrir hafa vanrækt og vanrækja stöðugt köllun sína, — þá, að vera gjaldkerar guðs. — (Ofar dagsins önn, bls. 156).

Í Bókmenntasögu M. og m. segir að yrkisefni Jakobs Jóhannessonar Smára hafi fyrst og fremst verið „hin milda og góða náttúra“ og ljóðin hafi einkum einkennst af logni, sólskinsheimum, daggarúða, himinbláma, ládeyðu og ljúfum árnið (bls. 409) eins og gengur og gerist í hefðbundinni náttúrulýrík. Vissulega á þetta við rök að styðjast. Í Ofar dagsins önn fjallar Jakob þó meðal annars um kveðskap sinn. Þar kveður við örlítið annan tón. Hér skal því þó alls ekki haldið fram að skáldið sjálft sé best til þess fallið að draga saman megintóninn í höfundarverki sínu! Þrátt fyrir það er athyglisvert að kynnast hvert Smári taldi grunnstefið í skáldskap sínum vera (1924). Í því efni tók hann dæmi af kvæðinu „Hillingum“, fyrsta ljóðinu í Kaldavermslum sem kom út 1920. Þar segir hann efnið vera „þrá eftir æðra heimi, víðari tilveru, meiri fyllingu og friði“. Taldi hann slíka þrá vera einn meginþátt í eðli sínu (Ofar dagsins önn, bls. 40). Þetta er dynamískur undirtónn sem vert er að leggja sig eftir að baki logninu og ládeyðunni sem að ofan er nefnd.

Loks skal bent á almennari hugleiðingar Jakobs Smára um skáldskap frá 1925. Þar lítur hann svo á að skáldskapur sé „fyrst og fremst skilningur og túlkun“ og skáld séu þeir sem „skilja og túlka mannlífið (ytra eða innra) eða náttúruna, ellegar þá samband hvors tveggja og gagnkvæm áhrif þeirra á milli“ (Ofar dagsins önn, bls. 48). Þetta kann að þykja áleit og rómantísk hugsun nú á dögum bæði þegar skáldskapur og aðrar listir eiga í hlut. Hugsanlega er samt frjótt að velta því fyrir sér hvort bæði „hinar förgru“ listir og „lærdómslistirnar“ (hugvísindin) geti ekki lagt mikið af mörkum til þess að skilja og túlka mannlega tilveru í allri sinni breidd og ættu að vera ófeimnari við það en raun ber vitni einmitt nú um stundir.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *