[container]
Fræg eru orð eins af íslensku auðmönnunum um að peningarnir sem voru til á einhverjum tíma á Íslandi og hurfu síðan hafi farið upp í „money heaven“. Ekki skal fullyrt hér hvort það himnaríki sé til eða hvort það sé jafnvel helvíti þar sem þeir brunnu, en í dag, 4/4/2013, birtu nokkrir af stærri fjölmiðlum heims fréttir af gríðarlegum upplýsingaleka, svokallaðan „aflandaleka“ eða „offshoreleaks“, frá því sem gæti verið dæmi um peningahimnaríki.Vitaskuld hefur lengi verið vitað að skattaparadísir svokallaðar eru notaðar til að fela fé, annaðhvort illa fengið eða frá skattyfirvöldum nema hvort tveggja sé. En það sem fréttamenn frá Guardian, Sueddeutsche Zeitung, og fleiri fjölmiðlum undir hatti alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna International Consortium of Investigative Journalism, hafa fengið í hendur er meira en grunur um peningahimnaríki eða skattaparadís. Fyrir nokkru barst þeim í hendur diskur með tveimur og hálfri milljón skjala og tveimur milljónum tölvupósta þar sem hægt er að rekja viðskipti á aflandsreikningum mörg ár aftur í tímann. Alls hafa 86 blaðamenn í 46 löndum tekið höndum saman um að greina þessi gögn og skrifa um þau og munu þeir vera með nöfn 130 þúsund einstaklinga frá 170 löndum sem nýtt sér hafa „þjónustu“ skattaparadísanna svokölluðu. Fróðlegt verður að vita hvort einhver kunnugleg nöfn, íslensk, stingi þar upp kolli.
Þetta gríðarmagn upplýsinga sýnir kreppuhrjáðri veröld að auðmenn heimsins og fjölmargir spilltir stjórnmálamenn, auk ótíndra glæpamanna hafa, með dyggri hjálp banka, lögfræðistofa og annarra fjármálaþjónustuaðila, búið sér til hliðarheim, einhvers konar himnaríki, til að eiga öll sín auðæfi út af fyrir sig. Talið er að um 21-32 billjónir dala séu geymdar í þessum hliðarheimi, en það er svo há tala í íslenskum krónum að hún kemst vart fyrir í heilli línu.
Það er ekki ólöglegt í sjálfu sér að eiga reikninga á aflandseyjum ef grein er gerð fyrir þeim í því landi sem eigandinn er búsettur, en í flestum tilfellum er það ekki gert; eins og við Íslendingar þekkjum eru búin til marglaga eignarhaldsfélög utan um allt og raunverulegur eigandi fjárins þarf ekki að koma fram í skúffufyrirtækinu sem skráð er á Tortóla eða einhverjum öðrum slíkum stað.
Fróðlegt verður að vita hvernig ríki heims bregðast við þessum upplýsingum, mörg þeirra eru reyndar tengd þessum stöðum á einhvern hátt, Bretland er þar kannski sérstaklega statt, en það eru meira að segja ríki innan ESB eins og Lúxemborg sem ekki eru fjarri þessu „viðskiptamódeli“ hliðarheimsins. Reyndar má líta svo á að stjórnmálin hafi einmitt tekið fyrsta skrefið í Kýpurkrísunni til að ná til baka einhverju af þeim völdum sem alþjóðlegir fjármálamarkaðir hafa náð á undanförnum áratugum. Þar var í raun reynt að fara þá leið að láta mangarana sjálfa borga að hluta til fyrir áhættuna sem þeir tóku á baki borgaranna, en vitaskuld tókst það ekki nema að litlu leyti eins og á Íslandi þar sem neyðarlögin í október 2008 voru að mörgu leyti svipaðs eðlis.
En nú virðist svo vera að upplýsingar liggi fyrir um fjölmarga þeirra sem hafa svikið samborgara sína um það fé sem þeim ber með réttu. Í heimalöndum auðmannanna verða aðrir borgarar að standa skil á sköttum og gjöldum og njóta ýmissa réttinda innan ríkisins á grundvelli ríkisborgararéttar síns. Þeir 130 þúsund sem hér um ræðir vilja njóta hans líka, en þeir vilja einnig geta búið í hliðarheimi ofurauðs og vellystinga án þess svo mikið sem að gjalda keisaranum það sem keisarans er. Þegar heimsbyggðin hálf er í kreppu, einmitt vegna gjörða margra þeirra sem hér um ræðir, hlýtur að verða kallað eftir því að þeir skili samborgurum sínum það sem þeim ber.
Íslendingaþættir á ítölsku
14. June, 2024Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply