Trúboð ofsatrúleysingja

[container] Þjóðkirkjan er stór hluti af sögu og menningu Íslendinga. Einnig margir siðir sem starfi hennar fylgja. Síðustu ár hefur kirkjan átt undir högg að sækja og er svo komið í dag að marga siði er búið að banna, eins og helgileiki í sumum grunnskólum.

Voðalegir atburðir innan kirkjunnar hafa einnig gert henni erfitt fyrir. Það að embættismenn misnoti gróflega aðstöðu sína og áreiti fólk innan safnaða er notað gegn kirkjunni og trúarbrögðunum sjálfum.

Á Facebook er hægt að taka fram hver trúarskoðun manns er. Fæstir taka hana fram, en þónokkrir segjast vera trúleysingjar. Það þykir því eðlilegra að taka það fram að maður sé trúleysingi en að maður trúi. Fréttaveita sama samskiptamiðils er notuð í allan fjárann. Sjaldan, ef  nokkurn tímann, hef ég séð þar hefðbundið trúboð,  áróður um að fólk eigi að trúa á guð, hvað guð sé góður og vakin athygli á söfnuðum og kirkjustarfi. Þó veit ég fyrir víst að í mínum Facebookvinahóp er fullt af fólki sem trúir. Í besta falli er auglýst ef einhver ætlar á tónleika hjá Fíladelfíu, enda er það fólk bara að auglýsa tónleika, ekki trúarafstöðu.

Þetta á líka við í daglegu lífi utan netmiðla. Um daginn var ég í tíma þar sem háskólakennari tók það fram að hann væri trúleysingi. Þessar upplýsingar höfðu ekkert að gera með kennsluna eða vangaveltur í námskeiðinu. Oft heyrast háværar raddir um hvað þetta trúaða pakk sé óþolandi, en umræddur háskólakennari var þó langt frá þannig blammeringum.

Bæði á netheimum og í daglegu lífi heyri ég oft raddir gegn trú. Sprengja springur einhvers staðar og ofsatrúleysingjar byrja að drulla yfir trúarbrögð: „Það eru bara geðsjúklingar sem trúa á guð,“ er eitthvað sem ég hef heyrt oftar en einu sinni. „Sannaðu að guð sé til,“ er eitthvað sem ég er iðulega beðinn um ef ég dirfist að ræða opinskátt um mína trú.

Ég hef aldrei hvatt neinn til að mæta í kirkju eða tileinka sér einhverja trú. Ég hef þó trúað á guð frá því ég öðlaðist barnatrú og hef ræktað samband mitt við æðri mátt jafnt og þétt síðustu ár.

Þeim sem ekki trúa er velkomið að lifa lífi sínu þannig mín vegna. Mér þætti líka gott að fá að hafa mína trú án fordóma og dómhörku annarra, því fáir á Íslandi stunda meira trúboð en trúleysingjarnir sjálfir.

Daníel Geir Moritz,
meistaranemi í ritlist

[/container]


Comments

3 responses to “Trúboð ofsatrúleysingja”

 1. Halldór Lárusson Avatar
  Halldór Lárusson

  Að trúa á Guð og/eða æðri mátt hefur ekkert með íslensku þjóðkirkjuna eða trúarsöfnuði að gera. Oft þvælir fólk þessu saman en þetta eru tveir alls óskyldir hlutir. Kirkjan hefur stolið, misþyrmt og misnotað þjóðina í gegnum aldirnar, allt fram til dagsins í dag eins og við vitum. Í nafni guðs. Er það kristið?

  Trúin er í hjartanu, ekki í kirkjunum.

 2. Jón Axel Ólafsson Avatar
  Jón Axel Ólafsson

  Þess væri óskandi að allir þeir sem kalla sig kristna hér á landi væru jafn trúræknir og þú. Jú, því þá væri bara alls engin þörf fyrir þjóðkirkju. Hinni kristnu kirkju yrði haldið uppi af kristnu fólki en ekki samfélaginu öllu, sem nota bene er alls ekki kristið.
  Við skulum ekki vera að blammera trúlausum fyrir “áróður” gegn kristinni kirkju þegar þeir eru neyddir með ofbeldi til þess að halda henni uppi.
  Einnig tek ég undir það sem Halldór Lárusson skrifar.

 3. Trúarbrögð eru bara víst áberandi á Facebook. Hvernig útskýrirðu annars þetta: http://allfacebook.com/religion-still-leads-facebook-engagement_b42551

  Þó að þú verðir ekki var við þetta í þínum vinahóp þýðir það ekki að það gerist ekki – það þarf ekki að þýða annað en að þú takir meira eftir trúleysingjunum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *