Þýskur veruleiki á íslensku

[container]
Á dögunum kom Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og ljóðskáld, til okkar með loftbrú frá Berlín, þar sem hún hefur verið búsett undanfarin ár, og talaði um tilurða bóka sinna, Jójó og Fyrir Lísu, í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? Mikið fjölmenni mætti til að hlusta á Steinunni, vel á annað hundrað manns, og má sjá hana og heyra á hjálögðu myndbandi.

Steinunn fór yfir sköpunarsögu skáldsaganna tveggja og kom um leið inn á tengslin við íslenskan veruleika og nýlegar afhjúpanir um kynferðisbrot, gegn drengjum sérstaklega. Steinunn upplýsti að þetta efni hefði lengi leitað á sig en að hún hefði fyrst í stað litið svo á að ekki væri hægt að skrifa um það í skáldskap. En efnið togaði í hana og þar kom að hún ákvað að láta á það reyna hvort hún gæti gert því skil. Hún bjó til aðalpersónur bókanna sem hún sagðist hafa þurft að kynnast og finna síðan stíl sem hentaði bókunum.

Bækurnar gerast báðar í Berlín og allar persónur eru þýskar. Steinunn spurði hvaða erindi aðalpersónurnar, þýskur geislalæknir og franskur róni sem báðir glíma við afleiðingar þess að hafa verið gert mein í æsku, ættu í íslenska skáldsögu og spunnust áhugaverðar umræður um það í lokin, m.a. var spurt hvernig henni hefði gengið að koma þessum þýska veruleika til skila á því ástkæra ylhýra. Minnti Steinunn þá á að hún hefði meira að segja látið þá sletta dönsku, eins og Íslendingar gera stundum.

Niðurstaða Steinunnar var að í skáldskapnum gæti hún, þrátt fyrir allt, fjallað allt öðruvísi um þessi erfiðu mál en í öðrum miðlum og kom þar að erindi skáldskaparins við okkur öll.


[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *