Hópnauðgun á Íslandi

[container]


Í ágúst 2006 stóð ég ólétt í auglýsingarými Fljótsdalsstöðvar og reif kjaft. Fórnarlambið var kynningarfulltrúi frá Landsvirkjun. Hann lofaði að uppblástur yrði ekki vandamál. Hann lofaði að Kringilsárrani væri stærsti fórnarkostnaðurinn. Hann lofaði því að Jökla yrði fallegri svona. Hann lofaði því að Lagarfljótið tæki ekki eftir jökulvatninu. Hann lofaði og lofaði. Svo lofaði hann tæknina og Landsvirkjun.

Sjaldan hefur einn maður farið jafn mikið í taugarnar á mér og þessi. Ég er ekki stolt af því sem ég gerði næst, en ég var ólétt og fannst ég vera að tala við enn einn vegginn. Stífluvegg. Ég hrækti á helvítis módelið af Kárahnjúkavirkjun. Svo vonaði ég að kynningarfulltrúinn þyrfti sjálfur að þrífa slummuna upp, en líklega er hreinsunarstarf kynningarfulltrúa bundið við ímynd fyrirtækisins þar sem þeir starfa. Ég vonaði líka að jarðskjálfti skemmdi þessa stíflu og að Landsvirkjun færi á hausinn, og helst í niðurfallið líka. Auðvitað var þetta ekki manninum að kenna, á þessari stundu var hann bara málpípa Landsvirkjunar, rétt eins og helmingur þjóðarinnar.

Síðla sama dags keyrðum við upp að steypuklumpinum. Við ætluðum að mótmæla. En á leiðinni mættum við fimm lögreglubílum. Ekki einum, fimm. Hin stórhættulegu mótmæli höfðu verið leyst upp og allir óæskilega þenkjandi verið handteknir. Við mættum sem sagt of seint. Hvað get ég sagt, ég var ólétt og þurfti að pissa á fimm mínútna fresti. Það tók sinn tíma að keyra austur. Við ákváðum að litast um, keyrðum framhjá einum lögreglubílnum í viðbót og stöðvuðum bílinn við útsýnispall.

Mér verður ennþá óglatt þegar ég hugsa um sjónina sem blasti við okkur. Ofbeldi, hugsaði ég. Þetta er ofbeldi. Hér hefur einhverjum verið nauðgað, hugsaði ég. Ég er að horfa upp á nauðgun. Mér varð óglatt. Svo ældi ég. Á miðjan útsýnispallinn. Lögreglubíllinn staðnæmdist en eftir smá stund ók hann aftur af stað. Við vorum ekki handtekin fyrir óæskilegar hugsanir. Hreint ótrúlegt hvað maður kemst upp með þegar maður er óléttur.

Ég bíð ekki eftir afsökunarbeiðni. Ég hef engan áhuga á að gera lítið úr ofbeldinu með því að segja „sko ég sagði það“ við hálft þjóðfélagið. Mér er nefnilega ennþá óglatt. Hvað er hægt að segja eftir að einhverjum hefur verið nauðgað og hent út úr strætó á fullri ferð. Ég bíð hins vegar eftir tímavél.

Helga Ágústsdóttir,
meistaranemi í ritlist

[/container]


Comments

One response to “Hópnauðgun á Íslandi”

  1. Eyja M. Brynjarsdóttir Avatar
    Eyja M. Brynjarsdóttir

    Það má margt slæmt segja um Kárahnjúkamálið en hvað í ósköpunum hefur það með nauðgun að gera?

    http://knuz.is/2013/02/22/freip-hreip-og-mreip-og-adrar-naudganir-i-dagsins-onn/

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *