Er lífið leikur?

[container]

Um höfundin
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Frank Schirrmacher heitir maður þýskur og er hann einn af ritstjórum Frankfurter Allgemeine Zeitung. Þetta er eitt kunnasta dagblað Þýskalands og telst vera borgaralegt, menningarlegt og fremur íhaldssamt blað eins og Morgunblaðið var hér einu sinni. Nýlega gaf ofangreindur Schirrmacher út bók, sem ekki telst til tíðinda, en það sem gerir hana sérstaka er sú staðreynd að þetta er einhver harðasta gagnrýni á vestrænan kapítalisma sem birst hefur undanfarið, a.m.k. frá þessum væng stjórnmálanna.

Reyndar snýst þessi gagnrýni að þeirri útgáfu kapítalisma sem riðið hefur húsum undanfarna áratugi og hefur eins og ég hef áður fjallað um, kastað fyrir róða öllum siðferðilegum gildum borgarastéttarinnar og predikað að hin ósýnilega hönd markaðarins sé mælikvarði alls. Enn eru margir þeirra skoðunar þrátt fyrir að það hafi sýnt sig hvaða afleiðingar það hefur. Sumir, eins og Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, höfðu þó manndóm í sér til að játa að hugmyndafræðin hefði verið röng.

Bók Schirrmachers heitir upp á íslensku Egó. Leikur lífsins og hefur hlotið mikla athygli í heimalandinu. Leikurinn sem vísað er til í titlinum er engin líking við lífsins rás eða neitt þess háttar heldur er einfaldlega verið að tala um þau efnahagslegu lögmál sem ráða ríkjum í tilveru okkar hvort sem við gerum okkur það ljóst eða ekki. Hann á við hina svokölluðu leikjafræði, þverfaglegum kenningum sem tengja stærðfræði og hagfræði auk annarra félagsvísinda. Grunnhugsunin er í stuttu máli sú að gerendur á markaði hagi sér ævinlega rökrétt með eiginhagsmuni sína í huga, hversu rökréttar sem slíkar forsendur eru, eða hver þekkir ekki órökréttar athafnir hjá sjálfum sér og hverjum öðrum sem er?

Schirrmacher fer yfir sögu leikjafræðinnar í fyrri hluta bókar sinnar og rekur hana aftur til kalda stríðsins þegar átökin fólust ekki lengur í því að berjast á vígvelli heldur að vakta óvininn og viðhalda nægilegum fælingarmætti með þróun nýrra vopna og því að skáka honum með einhverjum óbeinum hætti, t.d. með því að stuðla að borgarastríði eða byltingu einhvers staðar í öðru „leikhúsi“ eins og það var oft kallað á hernaðarmáli. Mikil vinna var lögð í að reyna sjá fyrir næstu leiki andstæðingsins og svara honum með viðeigandi „rökréttum“ hætti. Þannig má líta á stjörnustríðsáætlun Reagans sem dæmi um leik, sem reyndar var blöff, þar sem andstæðingurinn var þvingaður til aðgerða samhliða því að Sovétríkin gátu ekki lengur haldið lokinu á upplýsingaflæði til þegna sinna.

Eftir fall Berlínarmúrsins var orðið minna að gera fyrir stærðfræðinga með hagfræðigráðu og með hraðvaxandi tölvuvæðingu sneru sér þeir að næsta „leikhúsi“, leikhúsi fjármálamarkaða. Með grunnhugmyndina einföldu um rökrétta breytni sjálfselskunnar tóku séníin að gera líkön fyrir þessa markaði sem áttu að gera þá fullkomlega rökrétta. Eins einkennilega og það hljómar var önnur grunnregla sú að markaðirnir þyrftu ekki að vera bundnir af reglum og þvingunum úreltra stofnana eins og ríkisvalds. Einkennilega af því að nú þekkir hvert leikskólabarn þá reglu að leikur án reglna leysist upp í vitleysu og þannig má rökrétt leiða af því að markaðir án reglna séu einmitt uppskrift að stjórnleysi.

En hugmyndafræðin um rökrétta breytni á grunni sjálfselskunnar átti einmitt að leysa það vandamál, allir leikararnir hlytu að breyta rökrétt þótt engar reglur giltu, þeir færu aldrei að haga sér þannig að það kæmi í bakið á þeim aftur og meira að segja góðmennsku þeirra var ævinlega stýrt af eiginhagsmunum. Schirrmacher telur að með tölvuvæðingu sjálfselskunnar á fjármálamörkuðum hafi í raun verið búinn til tvífari manna af holdi og blóði, huglæg útgáfa af herra Hyde og fleiri slíkum. Þessi homo oeconomicus eða Númer 2, eins og hann kallar hann, hefur smám saman tekið stjórnina og grunnlíkan hans er löngu komið inn í algóriþma tölvukerfa hnattvæðingarinnar og stýrir þar öllu, þar á meðal neyslu þinni og minni. Einfalt dæmi eru vefir eins og Amazon þar sem hver einstaklingur, sem nýtir sér þjónustuna, er kortlagður til að reikna út „þarfir“ hans og selja samkvæmt því. Þessir vefir tengjast síðan samfélagvefjum og netið er riðið utan um hvern einstakling með algjörlega sjálfvirkum hætti. Sama má segja um fjármálamarkaðina sem er stjórnað af forritum byggðum á forsendum sjálfselskunnar og kaupa og selja fyrir milljarða á nanósekúndum á degi hverjum.

Það myndi vafalaust ganga ef ekki væri þessi vandræðavera, manneskjan, sem ekki virðist alltaf sjá rökrétt hvað er henni sjálfri fyrir bestu. Við Íslendingar höfum kynnst þessu af eigin raun á undanförnum árum og leikurinn sem boðið var upp á fram til haustsins 2008 endaði afar illa og reyndar sýnist ástand hinnar opinberu umræðu nú vera einmitt eins og á leikskóla þar sem allt fór út um þúfur, einmitt vegna þess að það var ekki nóg að treysta á rökhyggju sjálfselskunnar. Það er kannski einmitt eðli samfélaga af öllu tagi að sjálfselskan er það afl sem grefur hraðast undan þeim, því sjálfselskan er ekki rökrétt innan þeirra.

Deila

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *