Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Málarann eftir Ólaf Gunnarsson rak á fjörur mínar í öndverðu jólabókaflóðinu og ég greip bókina fegins hendi. Mig hafði þyrst í nýja viðamikla skáldsögu af hendi Ólafs með dramatískum efnistökum á borð við þau sem við munum úr Tröllakirkjunni (1992) eða Vetrarferðinni (1999). Ég drakk söguna í mig af áfergju og varð ekki fyrir vonbrigðum. Síðan hefur þó Davíð Þorvaldsson, málarinn, höfupersóna sögunnar, fylgt mér fast eftir og ég spyr: Hver er hann?

Job í Reykjavík?

Sagt hefur verið að Ólafur Gunnarsson sé oft vondur við sögupersónur sínar, leiki þær grátt og skapi þeim grimm örlög. En er málið svo einfalt?

Sumum persóna hans bæði konum og körlum hefur verið líkt við Job sem sagt er frá í Gamla testameninu en hann var rúinn öllu sem batt hann við þennan heim og sleginn skelfilegustu sóttum sem afmynduðu líkama hans. Samkvæmt þeim skilningi sem fram kemur í Jobsbók var hann reyndur af Guði. Hann stóðst prófið og afneitaði ekki skapara sínum. Því sneri Drottinn við högum Jobs og gaf honum tvöfalt aftur allt sem hann hafði misst. Þeir Job frá Ús-landi og Reykvíkingurinn Davíð Þorvaldsson eiga raunar lítið sameiginlegt nema hvað þeir glötuðu öllu. En jafnvel í þessu eru þeir ólíkir. Missir Jobs var tímabundinn en missir Davíðs óafturkræfur.

Frjáls eða fjötraður?

Það er nærtækara að skoða Davíð sem einn af okkur, hversdagsfólkinu, sem ekki teljum okkur eiga í höggi við Drottinn allsherjar. Hvað skýrir þá það ótrúlega ólán sem eltir Davíð, hvenær og hvers vegna hófst það og tók það engan endi? — Eða boða lokaorð bókarinnar einhvers konar hvörf í píslarsögu hans?

Og svo sat Davíð í stólnum og horfði á málverkið nokkra stund áður en hann stóð á fætur og fannst kominn tími til að snúa aftur til mannheima og þess sem beið hans þar. (Ólafur Gunnarsson, 2012: Málarinn. Reykjavík, JPV. Bls. 325)

Er Davíð að einhverju leyti sjálfrátt? Getur hann tekið meðvitaða ákvörðun um að snúa við á þeirri vegferð sem hann hafði einhvern tímann lagt upp í? Axlar hann að lokum ábyrgð sem hann hafði sniðgengið lengst af ævinnar? — Er Davíð Þorvaldsson á valdi óblíðra örlaga sem ekki er við ráðið, leiksoppur orska og afleiðinga, á valdi blindrar tilviljunar eða frjáls að því að taka sjálfstæðar ákvarðanir til ills eða góðs? Víða örlar á karakterleysi hjá þessari ágætlega sköpuðu sögupersónu Ólafs Gunnarssonar. Þegar hann stendur upp, snýr við og horfist í augu við það sem bíður hans er hins vegar frjáls maður á ferð sem lifir „existensíellt“ andartak.

Svikari?

Eða er Davíð Þorvaldsson fyrst og fremst falsari, svikari? Þessi túlkun er hugsanlega nærtækust með tilliti til eins af meginstefjum bókarinnar og hápunktinum á listaferli málarans. Sé þetta skýringin vaknar spurningin: Hvenær hófust svik hans og hverja sveik hann? Sveik hann alla sem honum stóðu næstir, börn sín og eiginkonu sem stóð með honum og var stolt hans? Sveik hann þjóð sína með því að falsa Kjarval? Sveik hann hákarlana sem komu fölsuninni fyrir í musterinu á Klambratúni? Sveik hann sjálfan sig og hugsjónir sínar? Eða sveik hann fyrst og fremst listna, hið háleita, fagra og fullkomna í þessum heimi? — Er hann þá þrátt fyrir allt nútíma-Job sem afneitar Guði?

Tilveruspurningar

Málarinn er stór og mikil skáldsaga sem heldur lesandanum föngnum, fylgir honum eftir að lestrinum loknum og vekur með honum ágengar spurningar um mannlega tilveru og hvað það er sem skapar okkur hamingju eða veldur okkur ógæfu. — Erum við fjötruð eða frjáls? Veljum við okkur lífsstefnu eða erum við leiksoppar? Hvenær svíkjum við og hvenær erum við svikin? Og hver verða viðbrögð okkar þegar við horfumst í augu við veruleikann? — Stöndum við upp eða sitjum kyrr?


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *