Dóttir mín varð fjögurra mánaða gömul síðustu helgi. Ég er búin að vera í fæðingarorlofi síðan hún fæddist og tíminn hefur flogið. Klukkustundirnar hverfa hraðar en harðfiskurinn sem gleymdist einu sinni uppi á eldhúsborði (ég á þrjá ketti), nema náttúrulega þegar barnið grætur, þá er hver mínúta óbærilega lengi að líða. Enda er ekki til óþægilegra hljóð en barnsgrátur. Nema kannski kattarvæl. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að heimiliskettir væla á sömu tíðni og ungbörn gráta. Villtir kettir gera þetta ekki. Heimiliskettir eru náttúrulega útsmognari en andskotinn, það vita allir sem átt hafa kött. Þeir ná einhvern veginn að hitta á nákvæmlega sömu nótur, þessar sem heimta aðgerðir strax. Þið getið þá rétt ímyndað ykkur hvernig tíminn líður þegar barnið grætur og frekasti kötturinn – sem vill svo til að heitir Freki, þar lærðum við þá lexíu að storka ekki örlögunum að óþörfu – er svangur.

Einstöku sinnum, þá sjaldan að ég nenni að drösla vagninum upp kjallaratröppurnar, rekst ég á fólk sem spyr: „Hvað ertu svo búin að vera að gera í fæðingarorlofinu?“ Þegar þetta gerist horfi ég yfirleitt skilningsvana á spyrjandann góða stund áður en ég styn upp einhverju á borð við: „Ég er bara búin að vera í fæðingarorlofi.“

Ég þekki mann sem skrifaði heila bók í fæðingarorlofinu sínu og ég veit um konu sem stofnaði sprotafyrirtæki þegar hún var heima með tvíbura. En ég er sem sagt bara búin að vera í fæðingarorlofi í fæðingarorlofinu mínu. Það eina sem ég hef klárað eru tvær þáttaraðir af Vampire Diaries. Áður en barnið fæddist var ég reyndar búin að setja mér markmið: Að lesa allar bækurnar um Ísfólkið. Það féll þó um sjálft sig strax á fyrsta degi þegar ég komst að því að það er ekki hægt að gefa brjóst og fletta bók um leið. En það er hægt að gefa brjóst og horfa á Vampire Diaries. Og ef kettirnir fara að væla er einfalt að hækka í sjónvarpinu.

Hildur Knútsdóttir,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *