Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Ragnar Bragason kvikmyndaleikstjóri hefur sýnt það í gegnum tíðina að honum lætur vel að segja sögur. Kvikmyndir hans og sjónvarpsþættir bera vott um að hann hefur vald á sterkri persónusköpun og átökum í verkum sínum.  Má þar nefna sem dæmi kvikmyndirnarBörn og Foreldra.

Ragnar spreytir sig á leikhúsforminu í þetta skiptið og tekst það með ágætum. Það er eftirtektarvert að Ragnar hefur farið svipaða leið og við gerð kvikmynda sinna. Einnig sér maður á atriðaskipan og framvindu verksins að þarna eru sterk tengsl á milli.

Leikritið Gullregn segir frá Indíönu, konu á sextugsaldri sem býr í blokk í Breiðholtinu. Hún á soninn Unnar sem er rúmlega þrítugur en er enn undir ægivaldi móður sinnar. Indíana er nefnilega ekki öll þar sem hún er séð. Hún hefur leikið á ,,kerfið” í mörg ár, fengið bætur fyrir hinn og þennan krankleikann, ekki bara í sjálfri sér  heldur er hún búin að gera sjúkling úr syni sínum. Þó er enginn fótur fyrir þessum veikindum. Með þessu líferni, á bótum frá ríkinu, hefur hún haft það ansi gott í gegnum árin. En nú bregður öðru vísi við. Unnar, sem loks er fluttur í eigin leiguíbúð, fær nýtt áhugamál sem á hug hans allan. Hann er orðinn björgunarsveitarmaður, fær áhuga á heilbrigðum lífsstíl og síðast en ekki síst, búinn að kynnast konu. Ekki er bót í máli fyrir Indíönu að kærasta sonarins er pólsk og upp blossa fordómar af ýmsu tagi.

Nágrannakonan Jóhanna er Indíönu til halds og traust. Jóhanna er góðmennskan uppmáluð og jákvæðnin skín úr hverju brosi þrátt fyrir að hún þjáist af miklum bakeymslum, og þar er ekkert plat í gangi. Þessar tvær konur eru svart og hvítt.

Unnar hefur alla tíð haldið að það væri mikið að honum; að hann væri algjör öryrki vegna greiningar á ADHD sem móðir hans þvingaði fram. Smám saman áttar hann sig á því að hann er í góðu lagi og á kærastan Daníela stóran þátt í að koma vitinu fyrir hann, ef svo má segja. Við sögu koma einnig fulltrúar ríkisins, umhverfisráðuneytinu og Tryggingastofnun, barnaskólakennari á Hvolsvelli og öldruð móðir Indíönu.

Ragnar hefur skapað heim sem er fyndinn, sorglegur og harður, allt í senn. Þarna er margt áhugavert til umfjöllunar en fordómar eru sterki þráðurinn í verkinu en einnig þörfin fyrir viðurkenningu og einmanaleiki. Hann hefur unnið verkið náið með leikurum og aðstandendum í hinni listrænu sköpun sem gengur vel upp.

Með hlutverk Indíönu fer Sigrún Edda Björnsdóttir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigrún Edda leikur óhamingjusama vonsvikna konu á miðjum aldri en hún gerir það vel. Henni tekst að sveiflast á milli heiftar og auðmýktar á undraverðan hátt.

Hallgrímur Ólafsson leikur Unnar. Hallgrímur sýnir á sér nýja hlið sem leikari og öllu alvarlegri en áður hefur sést og það fer honum vel. Hann fer mjög vel með hlutverk sitt.

Hina pólsku Daníelu leikur Brynhildur Guðjónsdóttir af mikilli leikni. Hún er lagin við að breyta sér í hin ýmsu gervi á trúverðugan hátt. Brynhildur hefur gott tóneyra eins og alkunna er og er hún lunkin við að tileinka sér erlend tungumál og hreim.

Halldór Gylfason er í nokkrum minni hlutverkum og tekst á við þau af festu og öryggi.

Síðast en ekki síst ber að nefna Halldóru Geirharðsdóttur. Hún er hreint út sagt stórkostleg sem hin bakveika Jóhanna. Litlir kækir og tilsvör persónunnar verða Halldóru greinilega mjög töm og virðist þetta henni ótrúlega áreynslulaust.

Leikmyndin er eftir Hálfdan Lárus Pedersen. Hún er snyrtilega raunsæ og full af smáatriðum. Gullregnið í garðinum blómstrar kannski ögn lengur en vanalegt er á Íslandi en hver er að pæla í því. Það er listrænt gildi verksins sem skiptir máli.

Búningar Helgu Rósar V. Hannam eru skemmtilega púkalegir og alveg í stíl við persónur verksins og tónlistin í verkinu eftir Mugison hefur ögn hryllingskenndan blæ í anda sögunnar.

Það er alltaf ánægjulegt þegar ný íslensk leikrit eru frumsýnd og sérstaklega þegar svo vel tekst til sem í þessu tilviki.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *