Harðstjórinn
Sviðsmynd Barkar Jónssonar er glæsileg. Hluti af áhorfendum situr á bekkjaröðum í leikmyndinni á móti stóra salnum enda má lesa í efni um sýninguna að hún sé hönnuð til ferðalaga og sýninga m.a. í stóru sirkustjaldi.
Við áhorfendum blasir eyja, gróðursæl með afbrigðum, með tjörn á miðju sviði og glerhvelfingu yfir því og í þessu„glerhúsi“ er steinunum aldeilis kastað. Í fyrstu senunni birtast okkur faðirinn Magnús (Jóhann Sigurðsson) og eftirlætissonur hans Axel (Sigurður Þór Óskarsson). Faðirinn hlýðir syninum yfir þau gildi og þann mannskilning sem hann hefur kennt honum og vill að verði honum leiðarljós. Boðskapur hans er skýr, stefnuskrá hans er full af mannhatri, ofbeldi og og mannfyrirlitningu, en hatur hans beinist einkum og sér í lagi að börnum sínum. Miklu ofbeldi hefur hann beitt móður þeirra og börnin, önnur en Axel, vill hann losna við með því að kaupa þau útúr lífi sínu.
Vísanirnar fossa fram í leikritinu því að Magnús hyggst „éta“ börnin sín eins og guðinn Krónos, svo að þau ógni honum ekki, og rétt eins og frumfaðirinn ætlar Magnús að taka girnilegustu konuna frá syni sínum til að undirstrika völd sín og getu. Hann getur það af því að hann setur lögin. Þessi evrópska harmleikjahefð er mögnuð upp með mikilúðlegri hljóðmynd Lars Danielsson og Cæcilie Norby. Lýsing Carinu Persson og Þórðar Orra Péturssonar er sjónarspil en íburðarmikil þannig að (þessi) áhorfandi spurði sig stundum hvort hún beindi athygli að eða frá veigamiklum atburðum á sviðinu.
Höfundur verksins
Höfundur verksins er í leikskrá sagður Richard LaGravense sem er frægur handritahöfundur í Hollywood en í kynningu á verkinu eru þeir Gísli Örn Garðarsson báðir skrifaðir fyrir leikritinu. Í stuttu en athyglisverðu viðtali við LaGravense undirstrikar hann muninnn á því að skrifa fyrir kvikmyndir og leikhús. Eftir að handritshöfundur kvikmyndar afhendir handritið sitt kvikmyndaframleiðanda hefur hann ekkert um meðferð þess að segja og það kann að gjörbreytast svo að hann þekki það ekki aftur. Þessu er ólíkt farið í leikhúsi þó að endanlegt handrit sé líka samvinnuverk þar. LaGravense segir að innblásturinn að verkinu hafi verið Karamazov-bræðurnir eftir Fjodor Dostojevskí og þeir Gísli hafi komið sér niður á að bræðurnir séu „þrjár manngerðir sem áttu að endurspegla þrjár hliðar manneskjunnar: Skynfærin, tilfinningarnar og hugsunina.“ Þetta hlýtur að skoðast sem örútgáfa á því hinu mikla verki Karamazov bræðrunum svo ekki sé meira sagt. Að auki segir LaGravense að Gísli Örn hafi sent sér Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness en áhrif Bjarts í Sumarhúsum eru ekki sérlega ljós í verkinu.
Skýrar persónur
Magnús er drullusokkur og mannhatari og fer illa með alla. Hann brýtur fólkið í kringum sig varanlega niður. Þetta kemur skýrt í ljós fyrir hlé og í túlkun Jóhanns Sigurðssonar var hrottaskapur og andleg grimmd karlsins ógurleg. Öll börn hans eru eyðilagðar manneskjur. Elsti sonurinn Mikael (Stefán Hallur Stefánsson) hallast að einhvers konar ný-nasískri hugmyndafræði til að pumpa upp veika sjálfsmynd sína. Miðsonurinn Jóhann (Hilmir Snær) er svo mikil drusla að allt lekur útúr höndunum á honum – hann er svo getulaus að hann getur ekki einu sinni haldið rándýrum perversjónum sínum gangandi og svo nöldursamur og svo tilþrifamikill í sjálfsmeðaumkvuninni að áhorfendur áttu ekki í neinum vandræðum með að gleðjast yfir óförum hans. Hann er giftur tryggðatrölli og mjög svo meðvirkri konu, Natalíu (Elvu Ósk Ólafsdóttur).
Þá er eftir yngsti bróðirinn Alex sem er eftirlætissonur Magnúsar og á að verða arftaki föðurins. Allir laðast að honum eins og Alyosha í Karamazov bræðrunum. Því er öfugt farið með hina bitru dóttur Mörtu (Þórunni Ernu Clausen) sem líkist fyrirlitinni og píndri móður sinni og liggur fyrir fótum harðstjórans. Sá eini sem er verr settur en hún er hinn undirgefni maður hennar (Víkingur Kristjánsson) og hún níðist á honum. Síðasta og óræðasta „persónan“ í leikritinu er svo hálfnakinn maður (Jóhannes Níels Sigurðsson) sem sveimar um á þaki hússins og vindur sig utan um rær og sperrur og hangir á haus og rennur upp og niður kaðla. Hann á að vera að mála mynd af Magnúsi og gerir það öðru hvoru en dregur að sér ótrúlega athygli þar fyrir utan. Alveg er mér fyrirmunað að skilja hvaða hlutverki hann gegndi í sýningunni fyrir utan að vera kattliðugur og fagurlimaður. Fyrir hlé voru allar aðrar persónur vel mótaðar enda hörkuleikarar að verki og átakalínur allar skýrar og fín stígandi í verkinu.
Eftir hlé
Eftir hlé bættist sáralítið við einkenni eða sögur persónanna nema helst tálkvendisins og tilvonandi eiginkonu harðstjórans, Margréti (Nínu Dögg Filippusdóttur). Og hvernig átti annað að vera? Það er ekkert spaug að vera mótaður af skepnu og þó grimmd föðurins verði æ yfirgengilegri getur ekkert barnanna risið upp gegn honum ef eitthvað er að marka kenningar um alræðissamfélagið. Systkinin eru mannlegar rústir. Uppreisnin verður að koma utan frá, eitthvað eða einhver verður að gefa einhverju þeirra styrk til að virkja hatrið til að rjúfa hringinn því að þó að öll óski föðurnum dauða þorir enginn að vinna verkið. Það þarf hins vegar að enda þetta drama (eða kómedíu) einhvern veginn en niðurstaðan kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Á leiðinni að þessari „lausn“ eru mörg þemu, slapstikk og hopp í tjörnina sem eru hugkvæm og skemmtileg en endurtekin of oft og sá skarpi fókus sem er í fyrri hlutanum verður óskýrari. Það var synd.
Kraftaverkið sem vatt upp á sig
9. October, 2024Sýslumaður dauðans
8. October, 2024Streym mér ei
1. October, 2024Deila
Leave a Reply