Þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Nýverið gekkst Stjórnarskrárfélagið fyrir fundi um spurningu nr. 3. á kjörseðlinum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október næstkomandi. Sú spurning sem beint var til frummælenda var: Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á stöðu þjóðkirkjunnar?

Áhrif í bráð og lengd
Sú breyting sem Stjórnlagaráð leggur til er ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á stöðu þjóðkirkjunnar til skamms tíma. Allar líkur eru aftur á móti á að til lengri tíma litið muni breytingin móta trúmálarétt í landinu en hann er það „landslag“ sem þjóðkirkjan og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög hræra sig í.

Ástæðan fyrir því að frumvarp Stjórnlagaráðs er ekki líklegt til að hafa skjót áhrif er að staða þjóðkirkjunnar er nú fremur ákveðin með sérlögum en núgildandi 62. gr. stjórnarskrár. Þar má einkum  benda á lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en einnig lög um skráð trúfélög, lög um sóknargjöld, lög um helgidagafrið og raunar fjölda ákvæða í öðrum lögum.

Vissulega byggist tilvist þessara laga á VI. kap. núgildandi stjórnarskrár. Það er þó sjálfstætt viðfangsefni óháð endurskoðun stjórnarskrárinnar hvort og þá hvernig þessum lögum skuli breytt og hvort sum þeirra verði jafnvel felld úr gildi í framtíðinni. Sú vinna krefst samræðu og stefnumótunar og hún mun óhjákvæmilega taka tíma.

Til að meta líkleg langtímaáhrif þarf að túlka hvað „Já“-kvætt  og hvað „Nei“-kvætt svar við spurningu nr. 3 merki á kjörseðlinum þann 20. október.

Hvað merkir „Já“ og „Nei“?
Þau sem svara spurningu nr. 3 með „Já“-i hljóta að eiga við að í nýrri stjórnarkrá skuli vera ákvæði einhvers staðar á litrófinu frá núgildandi 62. gr. stjórnarskrár og langleiðina í áttina að 19. gr. Stjórnlagaráðs en þó ekki alla leið. Greinin hljóðar svo:

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

„Já“-fólkið hlýtur að vilja að þjóðkirkjuhugtakið komi fyrir í stjórnarskrártextanum. Annars er vart um þjóðkirkjuákvæði að ræða.

Þau sem svara „Nei“ virðast aftur á móti vilja 19. gr. Stjórnlagaráðs í gildi eða eitthvað þaðan af minna. Sum líklega að það verði engin hliðstæða 19. gr. í stjórnarskrá framtíðarinnar

Hvorki „Já“ né „Nei“ eru því nákvæmt eða endanlegt svar. Í svörunum felst miklu frekar mikilvæg vísbending um hverjir skuli vera burðarásarnir í trúmálrétti framtíðarinnar.

Burðarásar trúmálaréttarins
„Já“–vængurinn mun gefa þau skilaboð að byggt skuli á hefðinni frá 1874 en samkvæmt henni eru burðarásarnir í íslenskum trúmálarétti tveir: Trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan sem vissulega eru nefndir í öfugri röð í núg. stjskr.

„Nei“-vængurinn mun hins vegar gefa þá vísbendingu að byggt skuli á fyrirmyndum víða erlendis frá — til dæmis Bandaríkjunum og Frakklandi. Þar er burðarás trúmálaréttarins aðeins einn: Trúfrelsið.

Báðar leiðirnar eru gamlar og báðar eru færar í nútímanum og hvor um sig hefur sína kosti og sína galla.

Jöfnuður upp á við eða niður á við?
„Já“-leiðin rúmar aukinn jöfnuð í trúarefnum miðað við það sem nú er  og hann má kalla jöfnuð „upp á við“. Hann felst í að öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum verði tryggð sambærileg staða og þjóðkirkjan nýtur nú. Þessi leið rúmar líka aukna aðgreiningu þjóðkirkjunnar frá ríkinu en þó er orðin.

„Nei“-leiðin felur hins vegar í sér aukinn jöfnuð niður á við sem felst í að þjóðkirkjan fái í framtíðinni sömu stöðu og önnur trúfélög hafa nú eða þau fái hugsanlega öll veikari stöðu.

Það er nákvæmlega hér sem ástæða er til að staldra við og spyrja: Hvers vegna í ósköpunum ætti að vera þjóðkirkjuákvæði  í nýrri stjórnarskrá í upphafi 21. aldar?

Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði?
Hugmyndin um sekúlaríserað eða veraldarvætt samfélag virðist ekki hafa verið fullkomlega raunhæf. Nú er rætt um endurkomu trúarbragða í vestrænum löndum. Allt bendir líka til að trúarbrögð og trúfélög muni hafa meiri áhrif á 21. öldinn en þau þó höfðu á þeirri 20.

Af þessum sökum er brýnt að reiknað sé með trúfélögum sem gerendum í þjóðfélagi framtíðarinnar. Því er mikilvægt að hlúð sé að jákvæðum hliðum þeirra og þeim gert mögulegt að leggja sitt af mörkum til að efla velferð í samfélaginu. Þau geta miðlað jákvæðum samfélagsgildum og lagt grunn að góðu mannlífi. Það þarf að efla þau til þess.

Trú og trúfélög geta þó líka alið á spennu og fordómum, valdið styrjöldum og brotið niður sjálfsmynd einstaklinga og traust þeirra til annarra. Vegna þessara skuggahliða trúarbragðanna er líka mikilvægt að samfélagið hafi innsýn í starf trúfélaga og ríkisvaldið geti jafnvel átt aðkomu að því að minnsta kosti sem öryggisloki ef illa fer.

Trú er einkamál — en hvað um trúfélög?
Bæði í „Já“- og „Nei“-línunni felst sá skilningur að trú í merkingunni trú mín og trú þín eða trúleysi okkar beggja sé fullkomið einkamál. „Nei“-línan getur svo líka falið í sér þann skilning að allt sem lýtur að trúariðkun, trúartjáningu, trúboði og starfi trúfélaga skuli einnig vera einkamál og um það skuli ekki gilda nein sérstök lög. Þá hefur samfélagið og ríkisvaldið enga innsýn eða aðkomu að þessu viðkvæma sviði samfélagsins. Innan trúfélaga gætu þá þrifist ýmis konar mannréttindabrot án þess að auðvelt yrði að bregðast við.

„Nei“-línan getur þannig falið í sér upphaf á aðskilnaðarferli ekki aðeins milli þjóðkirkju og ríkis heldur ríkis og trúarlífs almennt. „Nei“-línan þarf vissulega alls ekki að fela þetta skref í sér en opnar í öllu falli fyrir þróunina.

„Já“-línan felur aftur á móti í sér vísbendingu um að starf trúfélaga skuli að falla undir opinberan rétt og um það skuli gilda einhver lög. Útvíkkað þjóðkirkjuákvæði er því besta tryggingin fyrir að einhver opinber öryggisloki sé til staðar þegar trú- og lífsskoðunarfélög eiga í hlut.

Þjóðkirkjuákvæði býður upp á vandamál
Við sem gjarna viljum hafa nútímavætt þjóðkirkjuákvæði sem raunar yrði trú- og lífsskoðunarákvæði í stjórnarskrá verðum þó að horfast í augu við að það er ekki vandamálalaust.

Ákvæðið býður upp á vandamál fyrir trú- og lífsskoðunarfélögin en þó einkum þjóðkirkjuna þar sem slíkt ákvæði takmarkar óhjákvæmilega sjálfstæði eða autonomíu hennar. Trúfélög þurfa að vera eins autonóm eða sjálfstæð og nokkur kostur er í samfélagi nútímans!

Of þröngt þjóðkirkjuákvæði skapar líka vandamál gagnvart öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum og ríkisvaldinu þar sem það leiðir auðveldlega til ómálefnalegrar mismununar trúfélaga sem við verðum að forðast.

Markmið fyrir trúmálarétt á 21. öld
Í trúmálarétti 21. aldarinnar verður að tryggja 1) jöfnuð fólks óháð trú og lífsskoðun, 2) rétt fólks til að tjá og iðka trú sína og lífsskoðun, 3) rétt fólks til að fá að vera í friði fyrir áreitum af hálfu trú- og lífsskoðunarfélaga ef það kýs svo, 4) jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga og loks 5) jafna stöðu þjóðkirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga eftir því sem eðlilegt er miðað við stærð og félagsleg hlutverk.

Þessum markmiðum er mögulegt að ná bæði innan „Já“- og „Nei“-línunnar í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar er einfaldlega um tvær leiðir að sama marki að ræða. Vafamál er hvort Stjórnlagaráð hafi hitt á bestu lausnina í því efni.  Þess vegna vil ég að endurskoðað þjóðkirkjuákvæði — sem raunar yrði ákvæði um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga almennt — verði í nýrri stjórnarskrá.  Það gæti hljóðað á þessa leið:

Allir eiga rétt á að aðhyllast og iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga.  Enginn má skorast undan almennum borgaralegum skyldum vegna trúar eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið verndar öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *