Segjum „já – en“ við þjóðkirkjuákvæði í skoðanakönnuninni

Starfsbróðir minn við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild H.Í., dr. Hjalti Hugason prófesssor í kirkjusögu, hefur nýlega í blaðagreinum  greint kostina sem þjóðin stendur frammi fyrir varðandi stöðu þjóðkirkjunnar í væntanlegri skoðanakönnun um tillögur Stjórnarskrárnefndar. Þar er það spurningin um já eða nei við að nefna Þjóðkirkjuna yfirleitt í stjórnarskránni sem eðli málsins samkvæmt inniheldur grundvallarviðmið allrar lagasetningar í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að táknrænt gildi þess að nefna Þjóðkirkjuna í stjórnarskránni sé mikið. Það er í raun yfirlýsing um það sem við vitum að er staðreynd sem sé að kristinn siður hefur frá samþykkt Alþingis árið 1000 verið grundvallarlög íslensk samfélags og mótað viðhorf og grundvallargildi samfélagsins hver svo sem afstaða hvers og eins var til kirkjustjórnarinnar á hverjum tíma. Hér er verið að tala um gott siðferðisviðmið og allsherjarreglu sem þróast hefur innan ramma kirkju sem lengst af hefur verið nátengd ríkisvaldinu. Í núgildandi lögum um grunnskólann er algerlega aðgreint á milli skóla og Þjóðkirkju og það er tímanna tákn um leið og það er söguleg staðreynd að kirkjunni var í upphafi falin yfirsumsjón og framkvæmd fræðsluskyldu í landinu. Í markmiðsgrein laga um grunnskóla frá 2008 er tekið fram að:„Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Í þeirri þjóðfélagsumræðu sem fram fer um trúar- og kirkjumál takast á a.m.k. tvö ólík grundvallarsjónarmið og þau eru jafnrétti annars vegnar og samstaða um sögulegt gildi hins vegar. Ef við skoðum sögu Þjóðkirkjunnar sem slíkrar sem varð til með formlegum hætti með því að hin Evangelísk- lútherska kirkja var nefnd svo í stjórnarskránni 1874 þá er það staðreynd að sú saga er jafngömul trúfrelsisákvæðinu sem byggir á hugsjóninni um jafnrétti og mannhelgi. Þjóðkirkjan hefur jafnt og þétt þróast í lýðræðisátt um leið og trúfrelsisákvæðið hefur smám saman náð fram að ganga í löggjöf um trúfélög og mannréttindi. Þjóðkirkjan er sem sagt jafngömul og trúfrelsisákvæðið og það bendir til þess að þetta tvennt sé ekki og þurfi alls ekki að vera andstæður.

Oft eru þessu þó stillt upp sem andstæðum og niðurstöður skoðanakannana endurspegla þetta. Þegar gefið er í skyn að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja og spurt hvort aðskilja eigi ríki og kirkju þá fæst sú útkoma að meiri hluti þjóðarinnar sé á móti Þjóðkirkjunni og þá um leið væntanlega að ekki beri að nefna hana í stjórnarskrá og því síður að ríkisvaldinu beri að styðja hana og vernda. En málið er ekki svona einfalt því þegar gengið er út frá því að Þjóðkirkjan hafi sérstöðu vegna sögu sinnar og menningarlegrar og félagslegrar þjónustu þá styður meiri hluti svarenda þessa sömu kirkju og vill þá væntanlega standa vörð um stöðu hennar.

Saga Þjóðkirkjunnar sýnir að innan hennar hafa nútímahugmyndir um umburðarlyndi, manngildi og skoðanafrelsi þroskast og þróast, að vísu ekki án átaka og deilna, en því verður ekki hafnað að þessi kirkja er og hefur verið umburðarlynd, þjóðleg og frjálslynd. Segja má að markmiðsgrein núgildandi grunskólalaga sé eins og töluð úr hjarta frjálslyndu guðfræðingana sem komu að fræðslumálum þjóðarinnar í upphafi 20.aldarinnar.  Á þessum forsendum hefur Þjóðkirkjan öðlast trúverðugleika sem birtist í því að leiðandi pólitísk öfl í landinu hafa hingað til stutt við hana og verndað.

Jafnrétti og mannhelgi eru hugsjónir sem alltaf verða að vera lifandi hluti af þjóðfélagsumræðunni og ég tel það mikilvægt að kirkjan og kristnir söfnuðir verði áfram virkir í þeirri umræðu. Það gera þeir m.a. með því að standa vörð um trúfrelsið og efla umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og lífskoðunum. Ástandið í heimsmálunum um þessar mundir sýnir að bókstafstrú (sem andstæða frjálslyndis) og einstefna sem fótumtreður manngildið er að steypa heilu þjóðfélögunum í glötun og ógnar heimsfriði. Friðarboðskapur kristinnar kirkju byggir á samtali og samvinnu milli ólíkra kirkjudeilda og trúarbragða um gott siðferði og allsherjarreglu. Þess vegna þarf að endurskoða núverandi ákvæði um stuðning og vernd ríkisins við Þjóðkirkjuna á þann hátt að þessi vernd og stuðningur nái til allra skráðra og þar með viðurkenndra trúfélaga sem starfa í landinu sem eðli máls samkvæmt eru skuldbundin viðmiðum góðs siðferðis og allsherjarreglu. Þar með eru komnar ákjósanlegar forsendur til að þróa trúmálaréttinn í landinu á 21. öldinni. Já, við viljum að Þjóðkirkjan og kristin arfleifð sé nefnd í nýju stjórnarskránni, en um leið þarf að nefna þar önnur skráð trúfélög í landinu.

Greinin hefur áður verið birt í Morgunblaðinu.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *