Nú kann mörgum að virðast sem stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju sé leifar frá fornum tíma. Í því sambandi er þó áhugavert að athuga að í upphafi var þróun þjóðkirkju hluti af nútímavæðingu og þjóðbyggingu hér á landi.
Fram undir miðja 19. öld ríkti trúarnauðung í danska ríkinu. Konungi bar að vera evangelísk-lútherskur og var jafnframt skylt að tryggja að þegnar hans héldu fast við lútherska trú. Í dönsku grundvallarlögunum (1849) var byggt á frjálslyndum hugmyndum og með þeim var trúfrelsi komið á. Til að svo mætti verða varð að skilgreina tengsl ríkis og lútherskrar trúar upp á nýtt. Haldið var í þá skyldu konungs að vera lútherskur eins og enn er gert. Hins vegar var hætt að líta svo á að kirkja og ríki væru samtvinnuð. Þar sem lútherska kirkjan var rammi utanum trúarlíf dönsku þjóðarinnar og ljóst var að svo yrði áfram um langt skeið þótt einhverjir kysu að nýta sér nýfengið trúfrelsi var ákveðið að ríkisvaldið skyldi styðja og vernda kirkjuna í þessu sérstaka hlutverki sínu, þ.e. að þjóna þjóðinni trúarlega. Í þessu fólst stórt skref í átt til „nútímans“. Íslenskir stjórnmálaleiðtogar voru ekki áhugasamir um einstaklingsfrelsi og mannréttindi. Þeir beintengdu nútímavæðinguna í þessu efni við aukið þjóðfrelsi og móuðust við að greiða fyrir sambærilegri þróun hér.
Kirkjumálin voru einn þeirra málaflokka sem stjórnarskráin frá 1874 áskyldi Íslendingum sjálfsforræði yfir. Það var því ekki danska alríkið sem skyldi styðja íslensku þjóðkirkjuna og vernda heldur landshöfðingi, síðar ráðherra um daga konungsríkisins Íslands og loks íslenska ríkið eftir lýðveldisstofnunina. Löggjafarvaldi í kirkjumálum var háttað með sama hætti og í öðrum sérmálum. Landið hafði eigin löggjöf og konungur og Alþingi fóru með löggjafarvaldið í sameiningu. Fjárveitingarvald á sviði kirkjumála var og hið sama og í öðrum innlendum málaflokkum, sem og dómsvald að öðru leyti en í málum er áhrærðu skyldur presta eða embættisverk og heyrðu undir kirkjulega dómstóla og hæstarétt. Lengi þurfti konunglega úrskurði, heimildir og undanþágur í ýmsum kirkjulegum málum líkt og á öðrum sviðum. Heimildir ráðherra til að taka stjórnvaldsákvarðanir rýmkuðust þó í áföngum. Vald til að veita kirkjuleg embætti fluttist í áföngum til íslenskra stjórnvalda. Biskupar voru lengst útnefndir af konungi eða til um 1920.
Um daga sjálfstæðisbaráttunnar var litið á kirkjuna sem þjóðlega stofnun sem skipti máli í þeirri þjóðbyggingu sem þá var hafin. Þetta kemur glöggt í ljós þegar fram komu tillögur um að leggja biskupsembættið niður eða sameina það stöðu forstöðumanns Prestaskólans þá var m.a. sagt að það væri „þétt vafið inn í sögu landsins“. Þá voru embætti vígslubiskupa stofnuð (1909) til að biskup landsins þyrfti ekki að sækja vígslu til Danmerkur. Margir prestar voru virkir í sjálfstæðisbaráttunni og framámenn þjóðkirkjunnar beittu sér fyrir aðskilnaði frá Danmörku og stofnun lýðveldis strax og sambandslögin frá 1918 leyfðu. Studdu kirkjunnar menn þessa afstöðu með guðfræðilegum og trúarlegum rökum.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust stöndum við frammi fyrir því að svara hvort þjóð og kirkja eigi enn samleið og hvort þjóðkirkjan geti gegnt hlutverki í þeirri nútímavæðingu sem vissulega á sér stað nú.
Leave a Reply