Um höfundinn

Gunnlaugur A. Jónsson

Gunnlaugur A. Jónsson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Sjá nánar

„Hvílík snilldarbók eða öllu heldur bækur,“ skrifar Sigurður Pálsson í Bernskubók sinni  (s. 265) er hann rifjar upp fermingarundirbúning sinn. „Lestur hinna ótrúlega  fjölbreytilegu texta í Biblíunni“ heillaði prestssoninn frá Skinnastað.

Sigurður teflir fram lifandi fortíðarmyndum sem hafa mótað hann frá frumbernsku og það þarf ekki lengi að lesa til að komast að því hve drjúgur hinn biblíulegi boðskapur er í þeirri mótun. Aftur og aftur grípur hann til biblíulegra orðatiltækja eða biblíulegra frásagna til að krydda frásögn sína með.

Hann talar um nauðsyn þess að vita hvar maður sé „staddur í sköpunarverkinu (s. 94). Veðrið skipti máli í sveitinni og „veðrið var heilagt“ og veðurspáin var „guðspjall dagsins, guðspjall veðurguðanna og þeirra æðstu presta, veðurspámannanna.“

Sunnudagshelgin var í hávegum höfð  á Skinnastað.  Þá „hvíldi húsið sig“ (s. 99). Mamma Sigurðar sá um að hvíldardagurinn væri haldinn hátíðlegur. Sjálfur lærði Sigurður hvíldardagsboðið „áhugaverðasta boðið utan að til hafa það á hraðbergi mér til varnar ef einhver ætlaði að biðja mig um viðvik“.  Og hann bætir skemmtilega við: „Þannig kom Móses mér til hjálpar norður á Skinnastað, maður frá botni Miðjarðarhafs.“

Í fjárhúsinu á Skinnastað ríkti „heilög rósemd, trúarleg stemning. Kyrrðarstund í hinni þúsund ára sauðfjárkirkjudeild Íslands“ (s. 77) og Kópasker var „okkar borg á bjargi traust“ (s. 244).

Biblíuleg orð og trúarleg hugtök koma stöðugt við sögu: nýr sáttmáli, gósenland, kraftaverk, „Verði ljós“, sköpunarverk, Golíatar, guðlast sem og  helgi og heilagleiki, sbr. „heilögu kindur bernsku minnar“ (s. 134).

Sköpunargáfa hans gerði fljótt vart við sig og ekki síst þörfin fyrir að skrifa. Hann skapaði sína eigin sveit, Fögursveit,  og samdi manntal yfir íbúana þar og „blés lífsanda á nasir þeirra“ (sbr. 1Mós 2.7). Þá tók „barnið“ að skrifa minningargreinar og reyndi að finna texta í Biblíunni „sem lágu vel við höggi“ (s. 267).  Sigurður fékkst einnig mikið við teikningar sem barn og teiknaði einkum tré „heilan aldingarð“. Og að því loknu leið honum „eins og skapara himins og jarðar í lok hins sjötta dags“ (s. 119).

Þegar hann veltir fyrir sér hvaðan árnar koma minnist hann frásagna Mósebóka „þar sem það er stöðugt vesen með vatn“ (s. 174). Þegar fólkið var orðið pirrað út í Móses „ lamdi (hann) klettinn og vatnið spratt fram“ (s. 171). Og Sigurði  var hlátur í huga er honum „flaug í hug sagan af Abraham og Ísak“ (s. 179). En hræddur var hann,  dýravinurinn, um að minkurinn kálaði hænunum og minntist þá sögunnar úr Exodus: „Rjóða blóði sauða og kiða á dyratré og stafi húsanna þannig að Eyðandinn, Tortímandinn fari framhjá“ (s. 223).

Kirkjugarðurinn var löngum „dásamlegur leikvöllur“ og kirkjan sjálf sömuleiðis. Þar sviðsetti hann eigin fermingu, tók sjálfan sig meira að segja til altaris en fylltist að því loknu tilfinningu fyrir að hafa guðlastað og svo mikilli skelfingu (s. 258) að minnir á frásögn Jesaja af reynslunni af návist Guðs í musterinu: „Vei, mér það er úti um mig“ (Jes 6).

Á fræðslufundi undirritaðs með prestum fyrir skömmu bar hugtakið „biblíufælni“  á góma. Sannarlega er ekki um neina biblíufælni að ræða hjá rithöfundinum Sigurði Pálssyni. Þvert á móti notfærir hann sér hann hinar fjölbreytilegu bækur Biblíunnar í ríkum mæli, sækir þangað efnivið í minningarbók bernsku sinnar enda Ritningin augljóslega snar þáttur í uppvexti hans og samofin bernskuminningunum.

Bernskubók Sigurðar Pálssonar er heillandi lesning og  að auki afar áhugavert dæmi um áhrif Biblíunnar í íslenskri menningarsögu.

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *