Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Egils sögu Skallagrímssonar


Wikisaga, lýsandi heimildaskrá
 Egils sögu Skallagrímssonar, er nú formlega opin almenningi. Um er að ræða gagnagrunn á veraldarvefnum á íslensku og ensku sem gerir fólki ekki aðeins kleift að nálgast lista yfir helstu rit og ritgerðir fræðimanna um Eglu heldur eru athuganir þeirra settar í beint samhengi við texta sögunnar.

Gagnagrunnurinn telur nú tæplega 470 heimildir, þ.e. tilvísanir til bóka, fræðigreina og blaðagreina þar sem Egils saga er meginviðfangsefnið eða kemur með markverðum hætti við sögu. Tæpur helmingur heimildanna hefur verið lyklaður, þ.e. þar er að finna gagnorða lýsingu á efni viðkomandi heimildar, auk þess teknar hafa verið valdar tilvitnanir úr heimildinni sem snerta sérstaklega einhverja kafla sögunnar. Textar Egils sögu á Wikisögu eru annars vegar ensk þýðing Williams Charles Green á sögunni frá 1893 og hins vegar íslensk útgáfa þeirra Bergljótar Kristjánsdóttur og Svanhildar Óskarsdóttur á Eglu sem kom upphaflega út hjá Máli og menningu árið 1994.

Reynt er að flokka og tengja efnið þannig að rannsakendum sögunnar séu létt fyrstu sporin. Lykluðu greinarnar eru flokkaðar út frá tilteknum lykilorðum og svo eru beinar tilvitnanir í fræðigreinar settar fram sem neðanmálsgreinar við hvern kafla þannig að sá sem hyggst fjalla um viðkomandi kafla getur í fljótu bragði glöggvað sig á fyrri rannsóknum á efninu. Vonandi á þessi vefur eftir að stytta rannsakendum og nemendum verulega sporin og hvetja til dáða þá sem hafa áhuga á að láta til sín taka á þessum vettvangi.

Þrír framhaldsnemendur á Hugvísindasviði, þær Álfdísi Þorleifsdóttir, Jane Appleton og Katelin Parson, hafa starfað að verkefninu undanfarin ár en ritstjórn er í höndum Svanhildar Óskarsdóttur, rannsóknardósents á Árnastofnun, og Jóns Karls Helgasonar, dósents við Íslensku- og menningardeild. Vefurinn var upphaflega unninn í gagnagrunnkerfi hönnuðu af fyrirtækinu Anok margmiðlun en á lokastigum var ákveðið að færa efnið inn í MediaWiki, sem er sama kerfi og er að baki Wikipediu. Uppsetningu og hönnun vefsins í þessu nýja umhverfi annaðist Olga Holownia. Wikisaga er unnin með styrkjum frá Menntamálaráðuneytinu, Nýsköpunarsjóði námsmanna, Atvinnuleysistryggingasjóði og Bókmennta- og listfræðastofnun en hún og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum standa að rekstri Wikisögu. Vonir standa til að vefurinn eigi eftir að vaxa og dafna á næstu árum.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *