Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.


Þjóðleikhúsið frumsýndi 27. apríl síðastliðinn leikritið Afmælisveislan eftir Harold Pinter í leikstjórn Guðjóns Pedersen. Hér verður ekki fjallað ítarlega um Nóbelsskáldið Pinter, enda eru honum gerð nokkuð greinargóð skil á vef Þjóðleikhússins. Þó ber þess að geta að Afmælisveislan er með fyrstu verkum höfundar en þetta mun vera í fyrsta sinn sem verkið er sett á svið hér  á landi, a.m.k. í atvinnuleikhúsi. Verkið hefur þó verið flutt í íslensku útvarpi. Leikritið var umdeilt þegar það var frumflutt í Cambridge árið 1958 og fékk fremur slæma dóma. Gagnrýnendur voru þó ekki allir á sama máli. Eins og kom í ljós hlaut Pinter skjótan frama í leikhúsi og er Afmælisveislan meðal þeirra verka hans sem oftast eru sett á svið. Hefur verið leikið um allan heim enda er verkið framúrskarandi listaverk og margþætt.

Verkið fjallar um Stanley Webber, sem býr á gistihúsi í strandbæ í Bretlandi. Eigendur gistihússins eru hjón, Meg og Petey Boles, sem hafa tekið Stanley nánast að sér. Fortíð unga mannsins er nokkuð á huldu en þó virðist hann hafa verið píanóleikari áður en hann kom til bæjarins. Stanley er ekki mjög framtakssamur maður og hegðar sér dálítið eins og ofdekraður unglingur. Meg snýst í kringum hann eins og skopparakringla, vekur hann með tei á morgnana og hugsar um hann eins og barnið sitt á meðan Petey lætur sér fátt um finnast. Dag einn birtast tveir menn á gistihúsinu, Goldberg og McCann, í þeim erindagjörðum að sækja Stanley til saka fyrir glæpi sem honum sjálfum, og áhorfendum, eru óljósir. Verkið minnir því lítillega á skáldsögu Franz Kafka Réttarhöldin.  Sama dag og Goldberg og félagi hans birtast á gistihúsinu hefur Meg ákveðið að halda Stanley afmælisveislu þrátt fyrir að hann eigi ekki afmæli. Veislan verður í stuttu máli sagt, ansi óvenjuleg, ógnvænleg og óreiðukennd.

Eins og áður sagði er verkið margþætt og er túlkun þess í raun í höndum áhorfandans. Það sem flestir geta líklega verið sammála um er að verkið fjallar um einhverja kúgun og ógn frá utanaðkomandi öflum. Pinter lét til sín taka á pólitískum vettvangi og er á stundum mjög pólitískur í verkum sínum. Í Afmælisveislunni fjallar hann til að mynda um viðleitni mannsins til að brjótast undan valdi og kúgun. Þarna má líka finna eins konar óð til fortíðarinnar, fortíðarþrá og er vísað til betri tíma og gamalla drauma sem ekki rættust.

Einvala lið leikara tekur þátt í sýningunni og fara þau öll vel með hlutverk sín. Ingvar E. Sigurðsson fer með hlutverk Stanleys; Kristbjörg Kjeld og Erlingur Gíslason fara með hlutverk Boles-hjónanna. Eggert Þorleifsson og Björn Thors eru í hlutverkum aðkomumanna og Þórunn Arna Kristjánsdóttir í hlutverki Lulu. Eins og áður sagði er hægt að lesa í textann eftir eigin höfði ef svo má á að orði komast og jafnvel komast að eigin niðurstöðu varðandi túlkun leikritsins og umfjöllunarefni þess. Sú leið sem leikarar og leikstjóri sýningarinnar hafa valið til túlkunar á verkinu er mjög góð og leyfi ég mér að segja að þau nái andblæ verksins og höfundar þess prýðilega. Til að mynda er ótrúlega gaman að sjá hvað svipbrigði eða svipbrigðaleysi getur sagt meira en mörg orð. Það sem er kannski helsti galli á þessari uppsetningu, og enn er það smekksatriði,  er að undirliggjandi kynferðisleg spenna milli sumra persónanna gæti verið meiri og afbrýðisemi sýnilegri. Einnig er Lulu of sæt og saklaus að mínu mati enda er ýmislegt í verkinu sem gefur til kynna að hún sé töluvert viðsjárverðari en dregið er fram í þessari uppfærslu.

Hins vegar er einstaklega vel farið með hinn margslungna texta verksins. Guðjón Pedersen leikstjóri hefur ekki verið eins afkastamikill í leikhúsi eftir að hann hætti störfum hjá Borgarleikhúsinu eins og vera skyldi enda sannkallaður leikhúslistamaður þar á ferð. Síðasta verkið sem hann leikstýrði var endurgerð á Listaverkinu eftir Yasmina Reza sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári. Í Afmælisveislunni tekst Guðjóni vel að þræða þessa fínu línu milli kómedíu og hryllings og ná þannig heljartökum á áhorfendum.

Leikmynd Gretars Reynissonar lýsir vel einfaldleika og leiðindum heimilisins. Ljóst veggfóður í hólf og gólf. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru í takt við verkið og umgjörð þess og þýðing Braga Ólafssonar er prýðileg í alla staði.

Afmælisveisla Pinters er eitt af öndvegisverkum leikbókmenntanna. Um er að ræða skemmtilega og vel unna sýningu sem unnendur góðrar leiklistar ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

 

 

 

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *