Disneyvæðing menningartengdar ferðaþjónustu

Disneyvæðing sögueyjarinnar í norðri virðist vera krafa ferðaþjónustunnar um þessar mundir. Gott dæmi um þetta eru fyrirhugaðar byggingar á landi Skálholts. Þar er verið að reisa tilgátuhús af Þorláksbúð svo til upp við vegg Skálholtskirkju ásamt því að á teikniborðinu liggja áform um að byggja 700 fermetra kirkju í anda miðalda skammt undan á þessum sögufræga stað. Ætla mætti, út frá slíkum áformum, að ferðaþjónustan treysti ekki lifandi menningu lands og þjóðar. Ef sérstaða Íslands er skoðuð í flóru ferðamannaiðnaðarins, kemur í ljós að vara Íslendinga er sönn upplifun á landi og þjóð: Ósnortin náttúra, hreinar matarafurðir, blómlegt menningarlíf og ekki of mikil ferðamennska. Dæmigerður ferðamaður sem heimsækir Ísland gerir það vegna þess að það er frumlegt og heiðarlegt. Hann vill vera þátttakandi í atburðarás sem er ekki að öllu leyti hönnuð með það fyrir augum að skemmta. Þeir sem standa að ferðaþjónustu hér á landi verða að passa sig á því að gestir okkar fari ekki heim með aulahroll. Ísland er ekki Costa del Sol og þess vegna koma hingað gestir í þeim tilgangi að upplifa aðra hluti.

Á landi Skálholts stendur nú ein fallegasta kirkjubygging tuttugustu aldar á Íslandi, teiknuð af húsameistara ríkisins, Herði Bjarnasyni, árið 1956. Steindu gluggarnir í Skálholtskirkju eru hugarsmíð Gerðar Helgadóttur en hún fékk fyrstu verðlaun í samkeppni sem efnt var til um verkið. Hörður Bjarnason fékk Nínu Tryggvadóttur til þess að vinna mósaíkverk af Kristi konungi á kórgafl Skálholtskirkju árið 1961, en verkið var sett upp árið 1966. Báðar þessar listakonur eru meðal virtustu listamanna Íslendinga á tuttugustu öld, um það er enginn ágreiningur. Þannig tekst Skálholti vel upp með að hlúa að lifandi menningu, bæði með þeirri starfsemi sem þar fer fram og með ásýnd sinni.  Því er heimsókn í Skálholt akkúrat eins og það er núna ánægjuleg, fróðleg og trúverðug reynsla.

Ferðamannaiðnaðurinn verður að bera virðingu fyrir því ferðafólki sem ákveður að heimsækja Ísland. Rannsóknir sýna að meirihluti þeirra ferðamanna sem hingað koma eru langskólagengnir; þetta fólk vill upplifa lifandi menningu Íslendinga. Disneysirkusinn, sem Skálholtshugmyndirnar eru  dæmi um, er móðgun við gáfur þessa fólks. Rándýrar víkingabúllur eru ekki til þess fallnar að laða að ferðamenn.

Við vitum að það er náttúra Íslands sem trekkir ferðamenn að, en þrátt fyrir það er sáralítið  hugað að aðgengi og aðstöðu upp á hálendi landsins. Ásókn ferðamanna í viðkvæmar náttúruperlur gerir  að verkum að álagi á  vinsælustu ferðamannastaði er fyrir alllöngu síðan komið að þolmörkum.

Ef við lítum á aðra viðburði sem raunverulega draga ferðamenn hingað til lands, þá eru það til dæmis atburður eins og Iceland Airwaves,  er trúverðug hátíð vegna spennandi framlags íslensks tónlistafólks til hinnar alþjóðlegu tónlistarsenu. Gay Pride er annar atburður sem dregur að fjölda vel stæðra ferðamanna á ári hverju. En það er ekki vegna þess að gangan sjálf sé svona miklu merkilegri hér á landi en annarstaðar, heldur vegna þess að hér er löggjöfin í málefnum samkynhneigðra ein sú réttlátasta í heimi. Þannig  endurspeglar hún sjálfsmynd og lifandi menningu Íslendinga.

Virðum gestina okkar og bjóðum þá velkomna inn í raunverulegan menningarheim okkar frekar en ódýra eftirlíkingu af ímyndaðri fortíð.

Helga Þórsdóttir,
meistaranemi í menningarfræði.

Pistillinn er skrifaður í námskeiði í menningarfræði.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *