Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Passíusálmarnir voru að venju lesnir á nýafstaðinni föstu. Þetta var í 69. sinn.

Sigurbjörn Einarsson reið á vaðið. Hann las líka sálmana oftar en nokkur annar eða þrisvar. Um 50 karlar hafa lesið sálmana í heild en aðeins 12 konur og kom röðin ekki að konu fyrr en eftir 30 ára lestur. Upplesturinn er þannig kynjaspegill á samfélagið.

Prestar hafa lesið í 26 skipti en óvígt fólk í 39. 1978 lásu 25 guðfræðinemar og jafnmargir 14–18 ára skólanemar 2011. Flutningurinn hefur því ekki verið einokaður af klerkum. Upplestur sálmanna er þvert á móti vel rótfestur í menningu þjóðarinnar. Þannig hafa Nordal, Laxness, Jón Helgason í Kaupmannahöfn og Vigdís lesið, auk okkar bestu upplesara og útvarpsradda. Óhætt er að segja að Passíusálmaflutningurinn sé orðinn menningarhefð.

Nú á föstunni brá svo við að bréf barst frá Simon Wiesenthal-stofnuninni í Los Angeles þar sem flutningurinn var gagnrýndur vegna and-gyðinglegrar afstöðu í sálmunum. Útvarpsstjóri svaraði kvörtuninni á þann veg að slík túlkun á sálmunum sé of ströng, sálmarnir séu gamlir og lýsi enn eldri atburðum, þeir séu í hávegum hafðir og mikilvægur hluti íslenskrar sögu og menningararfleifðar, RÚV muni því halda áfram að útvarpa þeim.  Þetta virðist málefnalegt svar. Þó má taka undir með útvarspsstjóra er hann segir að ábendingin sé bæði gagnleg og áhugaverð.

Það er ástæða til að staldra við ábendingu sem þessa. Hér skal ekki mælt með að lestrinum verði hætt, felld verði brott erindi eða ortir nýir Passíusálmar. Það er hins vegar hollt að gaumgæfa eigin arfleifð og gera sér grein fyrir að jafnvel tærustu perlur kunna að fela í sér litbrigði sem ekki þættu hæfa í nútímaverki.

Atburðarásin í kringum Krist átti sér stað í samfélagi Gyðinga þar til alveg í blálokin er máli hans var skotið til Pílatusar landsstjóra Rómverja. Átökin sem segir frá í píslarsögunni stóðu hins vegar ekki milli Gyðinga og Krists. Hann og fylgjendur hans voru Gyðingar, öll atburðarás guðspjallanna réðst af gyðinglegu táknmáli og væri óskiljanleg án þess. Átökin stóðu milli alþýðlegrar-gyðinglegrar sértrúarhreyfingar og báknsins, stofnunarinnar eða „kirkjunnar“ á okkar tugumáli. Gyðingdómur og kristni eru heldur ekki andstæð trúarbrögð þótt mikið beri á milli. Þvert á móti eru djúpstæð tengsl milli þeirra og raunar þriðju „bókartrúarbragðanna“, islam. Oft er rætt um fylgjendur allra þriggja sem börn Abrahams, Ísaks og Jakobs. Í kristinni trú sem slíkri felst því ekki and-gyðingleg afstaða þótt hennar hafi vissulega oft gætt í kirkjusögunni.

Það er líka raunar svo að í þeim hugleiðingum Hallgríms út frá píslarsögunni sem finna má í Passíusálmunum gætir vissrar hliðrunar. Í guðspjöllunum koma farísear, fræðimenn og æðstuprestar fram sem andstæðingar Krists. Í píslarsögunni heyrist einnig í trylltum múg eins og alltaf gerist þegar atburðir fara úr böndum og slær fyrir lykt af blóði. Hallgrímur gerir aftur á móti Gyðinga, eða Júða eins og hann segir oft, af og til að sjálfstæðum gerendum í sálmunum. Þá stillir hann þjóðinni vissulega upp sem andstæðingi Krists en ekki leiðtogunum eða götuskrílnum eins og gert er í guðspjöllunum.

Það er þó vert að gefa því gaum að það eru þó ekki Gyðingaþjóðin sem slík sem ber höfuðábyrgð á pínu og dauða Krists að mati Hallgríms. Þver á móti telur hann að þar sé einkum við tvo karla að sakast: Þ.e. Adam og Hallgrím sjálfan. Með þessu er hann þó benda á hluta fyrir heild. Í raun á hann við „okkur“ og „mig“, þ.e. hið breyska mannkyn og lesandann sem ávarpaður er í sálmunum og hvattur til iðrunar.

Eftirfarandi hendingar kunna að skýra hvað við er átt:

Júðar þig, Jesú, strengdu,

ég gaf þar efni til.

Syndir mínar þér þrengdu.

Þess nú ég iðrast vil… (6:11a)

 


Comments

One response to “Hallgrímur og Gyðingarnir”

 1. Þröstur Eiríksson Avatar
  Þröstur Eiríksson

  Þakkir fyrir góða grein, Hjalti. “Pars pro toto” gegnsýrir hugsun Hallgríms frekar en gyðingahatur. Slíkt hatur, eða amk andúð er hins vegar víða að finna í passíusálmum Thomas Kingo. Einhverrir þeirra hafa verið þýddir á íslensku, m.a. versið sem tengist yfirskriftinni á krossinum: “Meðan Jesú minn ég lifi” (“Skriv deg JEsus paa mit hierte”). Versið á undan er að mörgu leyti dæmigert fyrir afstöðu samtíma Kingo til Gyðinga:

  Paa hans Kors Pilatus skriver
  Jøde-Konges Titel op,
  Avind digt i Hiertet river
  Paa hver hærded Jøde-Krop!
  De maa see og sprekke ved,
  At min JEsus Led fra Led
  Blodig er, og kand dog bære
  Konge-Titel med stor Ære.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *