Um höfundinn
Sólveig Anna Bóasdóttir

Sólveig Anna Bóasdóttir

Sólveig Anna Bóasdóttir er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur m.a. rannsakað umhverfis- og vistsiðfræði, femíníska siðfræði, siðfræði stríðs og friðar og siðfræði kynverundar. Sjá nánar

Þótt liðin séu liðlega 80 ár frá andláti Haralds Níelssonar (1868-1928), guðfræðiprófessors  og rektors Háskóla Íslands, munu þeir þó efalaust fjölmargir hér á landi sem enn kannast  við nafn hans. Ástæðan er trúlega fyrst og fremst áhrifamikil og umdeild tengsl hans við sögu og þróun sálarrannsókna og  spíritisma  og síðast en ekki síst, frjálslynda guðfræðistefnu kringum aldamótin 1900.

Í nýrri bók Péturs Péturssonar guðfræðiprófessors, Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haralds Níelssonar, er gerð ítarleg grein fyrir lífshlaupi þessa merka manns og hann sagður einn sérstæðasti leiðtogi kynslóðarinnar sem kennd er við aldamótin 1900. Í bókinni er leitað skilnings á því hvað hafi mótað Harald sem leiðtoga, hvers vegna hann hafi gerst spíritisti og hvaða hlutverki spíritisminn gegndi  í lífi hans og starfi.

Í inngangskafla byrjar höfundur á að draga upp áhrifaþrungna stemningsmynd. Lýst er drungalegum mánudagsmorgni í Reykjavík þann 12. mars árið 1928. Fánar eru dregnir í hálfa stöng og brátt fréttist að rektor háskóla Íslands og guðfræðiprófessorinn Haraldur Níelsson hafi látist kvöldið áður. Í kaflanum er síðan rakin ættarsaga Haralds en hann  átti ættir að rekja til ýmiss þjóðþekkts fólks á 19. öld. Þekktust ættmenna Haralds er líklega amma hans, Guðný Jónsdóttir skáldkona frá Grenjaðarstað í Aðaldal, kennd við Klömbur.

Pétur Pétursson dregur upp mynd af þeim fjölskrúðugu þáttum sem eiga hlut í að móta Harald. Trúrækni, alvara,  vinnusemi og allt að því vinnuharka : Allt mótar þetta og meitlar.  Haraldur er sendur til Hallgríms Sveinssonar, móðurbróður síns og fóstra til náms. Hann stenst inntökupróf í Lærða skólann 1884 og eftir það má segja að hann sé kominn á menntabrautina sem var á þessum tíma einungis fyrir fáa útvalda. Tuttugu og eins árs heldur Haraldur til náms við Kaupmannahafnarháskóla (1890) þar sem hann verður hann fyrir miklum áhrifum fjölbreyttra hugmynda- , trúar- og kirkjustefna. Kaupmannahöfn var líkt og sjóðandi bræðslupottur á þessum tíma og hart tekist á meðal menntamanna.

Drjúgur hluti bókarinnar fjallar um sálarrannsóknir og spíritismann. Þessum fyrirbærum og hreyfingunum þeim tengd eru gerð greinargóð skil og þau sett í sitt sögulega og hugmyndafræðilega samhengi. Spenna milli vísinda og trúar er þar meginmál en frá 18. öld  var farið að líta á þessar stærðir sem ósættanlegar andstæður. Um 1880 hóf breska sálarrannsóknarfélagið að kanna vísindalegt sannleiksgildi frásagna af dulrænum fyrirbærum og leitaðist við að finna skýringar á þeim.  Þessi hreyfing barst hingað til lands um aldamótin 1900 og var Einar Hjörleifsson Kvaran einn helsti forsprakki hennar. Segja má að sé hreint ótrúlegt hversu mikilli útbreiðslu þessar hreyfingarnar náðu á skömmum tíma. Miðilsfundir þar sem reynt var að komast í samband við framliðið fólk urðu brátt fjölsóttir í Reykjavík, þrátt fyrir harða gagnrýni ákveðinna kristinna trúmanna.

Haraldur Níelsson, Bergljót kona hans og fjöldi mikilsmetinna manna og kvenna gengust spíritismanum á hönd og Haraldur gerðist opinber talsmaður hans.  Tilraunafélagið var stofnað 1905 og hafði þann tilgang að sanna tilveru lífs eftir dauðann og tilveru fyrirbæra sem ekki urðu útskýrð með venjulegum hætti. Eftir nokkurt skeið mögnuðust þó miklar deilur um ágæti spíritismans í Reykjavík. Andstaðan kom meðal annars frá talmönnum KFUM og ýmsum málsmetandi prestum. Á sama tíma var það svo að hreyfingin fékk æ fleiri áhangendur út um landið og þar varð til kjarni áhugafólks um dulræn efni. Haraldur stóð í miðju þessara átaka og  kvikaði hvergi. Þessi átök tóku þó vissulega sinn toll og  vinslit urðu milli hans og margra fyrrum vina hans og samstarfsmanna, einkum í prestastétt.

Síðasti hluti bókarinnar fjallar um tímabilið eftir dauða fyrri eiginkonu hans, Bergljótar, (1915) og þau verkefni sem Haraldur einbeitti sér að fram til 1928 er hann lést. Fimmtugur að aldri, árið 1918, giftist Haraldur aftur Aðalbjörgu Sigurðardóttur en hún hafði miðilshæfileika og mikinn áhuga á dulrænum fyrirbærum. Aðalbjörn hvatti mann sinn til fyrirlestrahalds um dulræn fyrirbæri vítt og breitt um landið og eftir 1918 var Haraldur á sannkallaðri sigurför innanlands þar sem hann predikaði og breiddi út boðskap spíritismans. Einnig ferðaðist hann erlendis og  fór á ráðstefnur sem tengdust sálarrannsóknum. Sálarrannsóknafélagið var stofnað 1918 og var Haraldur í forsvari fyrir því ásamt Einari H. Kvaran.  Um 200 manns gengu í félagið á stofnfundinum og ári síðar var fjöldinn kominn upp í um 450 manns: Spíritisminn var orðinn fjöldahreyfing á Íslandi.

Umfjöllun um sálarrannsóknir og spíritisma einkenna síðasta hlutann að vonum, enda voru þessar hreyfingar miðlægar í lífi og starfi Haralds. Spíritisminn hafði ekki eigið gildi í hans augum heldur var fremur tæki, sem nota mátti á jákvæðan hátt. Gildi spíritismans var trúarlegt og gekk út á að miðla hinu heilaga og guðlega og miðlar því útvaldir af æðri máttarvöldum til þess að færa mönnum sannanir fyrir því „að hver og einn ætti fyrir höndum að þroskast sem hrein sál í dýrðarlíkama.“ (bls.272)  Í huga Haralds kom spíritisminn ekki í stað kristinnar trúar heldur efldi hann trúna á Jesú Krist og boðskap hans. En þótt spíritisminn nyti um skeið hylli alþýðu manna og leiðandi mennta- og stjórnmálamanna kringum 1920 urðu smám saman breytingar í kirkjusýn og guðfræðistefnu. Frjálslynda guðfræðin svonefnda átti ekki lengur upp á pallborðið hjá Jóni Helgasyni biskupi sem fylgdist vel með stefnum og straumum í guðfræði á Norðurlöndum. Þar ruddi sér nú til rúms íhaldssamari stefna með áherslu á lútherskan rétttrúnað og játningar kirkjunnar. Árin milli 1920 og 1930 einkennast af togstreitu innan kirkjunnar um þessi mál og eru á vissan hátt í hámarki við skyndilegt fráfall Haralds sem höfundur bókarinnar upplýsir að hafi dáið vegna læknamistaka: Eitraður eter sem notaður var til að svæfa hann varð honum að bana.

Að mínu mati hefur Pétur Pétursson unnið stórvirki með þessari bók. Guðfræðileg og hugmyndasöguleg greining hans á efninu er djúpstæð og hefur breiða skírskotun. Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum helstu efnisþáttum en mörgu áhugaverðu sleppt. Aðall bókarinnar er hversu greinandi hún er. Hlutir eru settir í vítt samhengi, flokkaðir, skýrðir og greindir. Með bókinni er þannig orðið til mikilvægt framlag til skilnings á einni þekktustu guðfræðistefnu á síðari tímum, frjálslyndu guðfræðinni svokölluðu, og sú stefna tengd öðrum hreyfingum og hugmyndastefnum frá sama tíma. Spíritisminn eins og hann þróaðist hér á landi upp úr 1900 er einstaklega áhugvert fyrirbæri og nauðsynlegt að skilja hvers vegna hann naut jafn mikillar hylli og raun ber vitni. Þar er aðkoma Haraldar mikilvæg en hann á heiðurinn af því að tengja hann á frumlegan hátt við kristna trú og íslenska trúrækni þannig að almenningu fannst hið eðlilegasta mál að vera í sambandi við framliðna og fá fréttir af þeim.

Jafnframt er hér birt blæbrigðarík mynd af þjóðþekktri persónu sem hvert mannsbarn þekkti til fyrir um 100 árum. Persónusagan og hugmynda/guðfræðisagan – báðar eru þær ákaflega vel unnar. Svo er ugglaust heimildum þeim sem höfundur hafði aðgang að, það er persónuleg bréf og nótur úr einkaskjalasafni Haralds, fyrir að þakka auk mikillar elju. Með slíkar heimildir í farteskinu er unnt að fá fram blæbrigðaríka og sálrænt aðlaðandi mynd af persónu, sem átti sér þó alls ekki bara bjartar og jákvæðar hliðar.  Það er alveg ljóst að Haraldur Níelsson var ekki gallalaus enda ekki gerð nokkur tilraun til að upphefja hann og gera að dýrlingi. Myndin af honum virðist mér raunsönn og sanngjörn.

Frágangur og framsetning bókarinnar er góð svo eftir er tekið. Málfarið áferðarfagurt og líður fram eðlilega og smekklega. Ómetanlegt er að fá nafnaskrá og vel unna heimilda- og tilvísunarskrá með verkinu. Það styður við framtíða rannsóknir á þessu tímabili í hugmyndasögu lands og þjóðar sem fræðimenn eiga eflaust eftir að njóta góðs af.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *