Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

,,Reyndar má segja að seðlabankamenn beiti orðinu „stöðugur“ betur og af meiri stöðugleika heldur en aðrir í þessari annars súrrealísku umfjöllun um íslensk peningamál á fyrri hluta ársins 2008. Það kemur kannski af því að Seðlabankinn hefur fjármálalegan „stöðugleika“ að meginverkefni sínu og er því kannski meðvitaðri um röklegan árekstur „stöðugleika“ og „óróa“.“

Tungumálið er dýrleg uppfinning. Það er ekki aðeins ótrúlegt samskiptatæki, tæki sem greinir okkur frá öðrum dýrum merkurinnar heldur gerir það okkur kleift að safna saman þekkingu, bæta við hana og miðla henni síðan til komandi kynslóða.

Tungumálið styttir okkur líka oft leið, eykur leti okkar eins og stundum er sagt. En letin á það líka til að yfirgnæfa hugsunina svo að broslegt verður. Samt brosir enginn og menn endurtaka orðastæður (e. collocations) sem eru í eðli sínu refhvörf (e. oxymoron) aftur og aftur þangað til enginn, nema orðanirðir í stétt prófarkalesara, lætur það fara í taugarnar á sér. Reyndar eru þess merki að prófarkalesararnir séu orðnir nokkuð umburðarlyndir, að minnsta kosti þegar kemur að orðastæðu þeirri sem mig langar að gera að umtalsefni hér.

„Stöðugur órói á mörkuðum“ er fyrirsögn sem við fjármálaséní á Íslandi þekkjum orðið öll og oft er „mikill og stöðugur órói“ í eldstöðvum hvernig sem það má vera. Sagnfræðin á líka sinn „stöðuga óróa“ þegar fjallað er um þjóðir og hópa sem ósáttir eru við hlutskipti sitt. Gúglið og sjáið.

Þetta er málvenja segðu sumir vafalaust og það er áreiðanlega rétt. Orðabókin hans Árna Bö skýrir orðið „stöðugur“ einmitt með „sífelldur“, en einnig „samfelldur“ og „óumbreytanlegur“ og kemur með dæmið „stöðug ótíð“. Þetta er samt annarleg venja, verð ég að segja, því þótt orðið „stöðugt“ sé orðið að samheiti orðsins „sífellt“ sem „stöðugt“ færri nota eftir því sem „stöðugt“ nær „stöðugt“ meiri útbreiðslu þá rekst það samt á rökhugsunina með afgerandi hætti. Orðið „stöðugur“ er nefnilega enn „stöðugt“ notað í merkingunni „óumbreytanlegur“, „óbreyttur“ eða „jafn“.

Þetta má sjá í skemmtilegri skýrslu Seðlabanka Íslands frá því í júlí 2008. Reyndar má segja að seðlabankamenn beiti orðinu „stöðugur“ betur og af meiri stöðugleika heldur en aðrir í þessari annars súrrealísku umfjöllun um íslensk peningamál á fyrri hluta ársins 2008. Það kemur kannski af því að Seðlabankinn hefur fjármálalegan „stöðugleika“ að meginverkefni sínu og er því kannski meðvitaðri um röklegan árekstur „stöðugleika“ og „óróa“.

Ein frábær setning: „Framþróun og vöxtur skilvirkra skiptasamninga- og afleiðumarkaða mun áfram gegna mikilvægu hlutverki í því að bæta áhættustjórnun, stuðla að fjármálastöðugleika og að lokum verðstöðugleika og almennum efnahagslegum stöðugleika“ (19). Þótt setningin sé efnislega algjörlega út í hött eins og sagan sýndi, þá er orðið „stöðugleiki“ hér „stöðugt“ notað af mjög miklum „stöðugleika“ enda er það þýðing á enska orðinu „stability“ sem leitt er af lýsingarorðinu „stable“ og við þýðum líka „stöðugt“ með „stöðugur“. Enskan leyfir hins vegar ekki að nota „stable“ með sama hætti og við notum orðið „stöðugur“ „stöðugt“. Breti fengi til að mynda rautt í stílinn sinn fyrir að skrifa „stable unrest“, eða „stable disturbance“ eða „stable turmoil“; meira að segja róttækum rithöfundi þætti þetta sennilega léleg refhvörf og léti vera þótt honum eða henni dytti þau í hug.

Ég varð því nokkuð glaður í bragði við lestur Peningamála 2/2008. Þótt vinir okkar í Seðlabankanum væru alveg úti að aka í peningamálum þá virtust þeir í fljótu bragði vera nokkuð málvísir og ekki detta í gildrur sem meira að segja einn virtasti málfræðingur Íslands á 20. öld datt í færslu sinni um „stöðugan“. En, því miður, rétt eins og í efnahagsmálunum skriplast þeim á skötunni í þessu líka þótt sjaldan sé. Það kemur til dæmis fram í þessari setningu: „Skuldatryggingarálag íslensku bankanna hækkaði stöðugt framan af ári allt fram undir lok mars þegar það náði hámarki“ (65).

Mér féll satt að segja allur ketill í eld. Þetta virki stöðugleikans í íslensku fjármálalífi árið 2008 brást okkur líka í þessu. Ég fór að hugsa um íslenska tungu; er þetta ekki bara henni að kenna? Er það vegna svona refhvarfa í tungumálinu að við erum fær um segja eitt og skilja annað? Er það skýringin á því að velflestir sem skiptast hér á skoðunum tala yfirleitt í austur og vestur og virðast aldrei þurfa að takast á með rökum um málefni heldur halda einungis einræður um það sem þeim sjálfum finnst? Ganga síðan út og halda að um „rökræður“ hafi verið að ræða?

Engu munaði að ég lyki þessu á „spyr sá sem ekki veit“, en ég hætti við því það er klisja var mér einu sinni sagt, en ég viðurkenni samt, ég veit ekki hvernig á því stendur að við notum „stöðugt“ orðið „stöðugur“ um það sem það er ekki? Veist þú það?


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *