Eftir lokin eftir Dennis Kelly

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Höfundur: Dennis Kelly
Þýðing: Stefán Hallur Stefánsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir
Leikstjórn: Stefán Hallur Stefánsson
Leikarar: Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Lýsing: Stefán Benedikt Vilhelmsson

Þann 29. október síðast liðinn frumsýndi leikhópurinn Suðsuðvestur í Tjarnarbíói leikritið Eftir lokin eftir Dennis Kelly. Höfundurinn er íslenskum leikhúsáhorfendum ekki ókunnur en tvö verk eftir hann hafa ratað á fjalir leikhúsanna, Munaðarlaus  og Elsku barn. Sýningarnar fengu góða dóma en þær fjölluðu á heldur óvæginn hátt um málefni sem eru óþægileg og ofbeldisfull eins og flest leikrit höfundarins. Eftir lokin var fyrst frumsýnt árið 2005 og er því ekki alveg nýtt af nálinni.

Í þessu verki eru aðeins tvær persónur, Louise og Mark. Verkið fjallar um Louise sem vaknar upp í neðanjarðarbyrgi. Forsjónin hafði hagað því þannig að Mark, vinnufélagi hennar, hafði bjargað henni  úr rústum eftir kjarnorkuáras og farið með hana í gamalt neðanjarðarbyrgi sem hann hefur viðhaldið. Hann er þar með mat, drykk og spil til afþreyingar á meðan það versta er um garð gengið. Þessir tveir ólíku einstaklingar  þurfa að endurmeta samband sitt á skömmum tíma. Mark er talinn frekar einfaldur „nörd“ á meðal vinnufélagana á meðan Louise er vinsæl. Í verkinu eru þau innilokuð í litlu rými og fyrra valdahlutfall breytist.  Verkið fjallar aðallega um vald einnar manneskju yfir annarri, hvernig slíkt vald getur breyst við sérstakar aðstæður.

Sýningin er hröð, eins konar „collage“ af myndum. Þetta er áhrifaríkt en getur verið einhæft til lengdar. Senuskipti eru með þeim hætti að leikarar frjósa á sviðinu og sviðið myrkvast sem gerir það að verkum að sýningin flæðir ekki nægilega. Þetta er þó frekar annmarki á verkinu en mistök leikstjóra.

Í hlutverkum Louise og Mark eru Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Þau gera þetta vel en stundum er erfitt að heyra hvað þau segja, sér í lagi í þegar ákafinn er sem mestur þá bregður fyrir tafsi og óskýrmæli.

Leikmynd Brynju Björnsdóttur er eins konar kassi á miðju gólfi í litlu leikrými. Kassinn er myndaður með ljóskösturum og snæri. Snærið gerir það að verkum að áhorfendur skynja dýpt neðanjarðarbyrgisins og sitja þeir þétt í kringum leikrýmið sem þrengir þannig að leikurum. Vel úthugsað. Lýsing Stefáns Benedikts Vilhelmssonar er þó fremur óþægileg og vafalaust af ásettu ráði. Hljóðmynd Gísla Galdurs er með ágætum.

Stefán Hallur Stefánsson hefur ekki leikstýrt oft áður. Þó að segja megi að hann sé að stíga sín fyrstu skref sem leikstjóri hefur honum tekist að setja þetta á svið með áhrifaríkum hætti. Það er kraftur í honum og má vænta mikils af honum í framtíðinni.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *