Hið mikilvæga hlutverk Háskóla Íslands að hjálpa alþingismönnum að upphefja sjálfa sig

Um höfundinn
Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Sjá nánar

Ýmis falleg orð eru höfð við þegar stjórnmálamenn og stjórnendur setja sig í stellingar, orð eins og fagmennska og gæðaeftirlit. Þá er stundum minnst á akademískt frelsi. En allt þetta á til að gleymast þegar stjórnmálamenn vilja sýna Háskóla Íslands og einkum íslenskum fræðum vinahót. Í seinni tíð hafa streymt frá þeim misrækilegar tillögur um stuðning við Háskólann án þess að nokkru sinni sé ráðgast við Háskóla Íslands eða þær deildir hans sem ætlunin er að styðja. Líður nú vart þing án þess að alþingismenn taki það upp hjá sjálfum sér að sýna Háskóla Íslands stuðning með því að láta stofna þar prófessorsstöður. Og á tyllidögum eru þessar tillögur jafnvel samþykktar – þó að alþingismenn verði stundum furðu lostnir og reiðir yfir vanþakklætinu þegar Háskólinn reynir af veikum mætti að láta nýja „prófessorinn“ gera gagn í stað þess að vera aðeins til skrauts.

Vonandi flokkast það ekki líka undir vanþakklæti þó að nefnt sé annað sem þessar tillögur eiga sammerkt; aldrei er leitað ráða hjá háskólamönnum fyrirfram um hvar skórinn kreppi. Það er auðvitað ekki við því að búast að allir sem segjast hafa áhuga á íslenskri menningu og vera velviljaðir Háskóla Íslands hafi mikinn skilning á háskólastarfi eða vísindastarfi yfirleitt. En á hinn bóginn eru allir háskólamenn með annað hvort síma eða tölvupóst, iðulega hvorttveggja raunar, þannig að þeir sem vilja leggja Háskólanum lið geta auðveldlega haft samband og spurt um þörfina.

Annað sameiginlegt einkenni er að flutningsmenn og raunar flestallir sem tengjast málinu virðast lítið sem ekkert vita um það hvernig Háskóli Íslands starfar. Og vitaskuld ber þeim engin skylda til þess enda Háskóli Íslands ekkert merkilegri en Landspítalinn eða Veðurstofan, en raunar hefur enn ekki frést af því að alþingismenn vilji stofna sérstök embætti við þær stofnanir án samráðs við stjórnendur og starfsmenn þeirra. Þannig virðast stjórnmálamenn enn ekki hafa frétt af því að það er næsta fátítt að menn séu ráðnir í prófessorsstöður við Háskóla Íslands heldur eru háskólakennarar almennt lektorar en geta síðan fengið framgang í dósent og prófessor; það eru auðvitað ekki nema nokkrir áratugir síðan þetta kerfi komst á. Auðvitað eru lektor og dósent aumleg starfsheiti í þingsályktunartillögum, þar dugir ekkert minna en prófessor og þá skiptir engu máli marglofað frelsi Háskólans til að meta sjálfur hvort menn hafi prófessorshæfi eða ekki.

Þar sem stjórnmálamönnum sem vilja stofna ný embætti við Háskóla Íslands er flest ofar í huga en að kanna það hjá þeim sem þekkja til hvar þörfin sé mest mætti jafnvel spyrja sig hvort markmiðið sé fremur að auka hróður þeirra sjálfra frekar en Háskólans. Eins má velta fyrir sér samhenginu í því að þó að Alþingi hafi áður lýst yfir mikilli ánægju með rannsóknarskýrslur þar sem hvatt var til faglegra vinnubragða þykir sama Alþingi sjálfsagt að hlutast ítrekað til um hvað skuli kennt við Háskóla Íslands og hvert starfsheiti kennarans sé. Jafnvel þykir tilhlýðlegt að skipa kennaranum að halda sig á ákveðnu landsvæði ef svo ber undir.

Árið 2012 verða liðin 400 ár frá útkomu Vísnabókar Guðbrands Þorlákssonar. Má búast við þingsályktunartillögu á Alþingi um sérstaka prófessorsstöðu í bragfræði kenndri við Guðbrand með aðsetur á Hólum í Hjaltadal? Árið eftir eru 200 ár frá því að Rasmus Christian Rask kom hingað til lands og varð fljótt fullnuma í málinu. Prófessorsstaða í íslenskri stafsetningu kennd við Rask? Árið 2014 eru fjórar aldir frá fæðingu Hallgríms Péturssonar. Prófessorsstaða í sálmum með aðsetur á Saurbæ við Hvalfjarðarströnd? Svo mætti líka kenna prófessorsstöður við Guðmund góða, Æra-Tobba, Bólu-Hjálmar, Skáld-Rósu og jafnvel Ása í Bæ. Möguleikarnir eru óteljandi en hið eina sem háskólamenn og háskólastúdentar geta gengið að vísu er að þegar kemur að nýjum háskólaembættum mun alþingismanni aldrei hugkvæmast að kynna sér starfsemi þeirrar stofnunar fyrst. Löngunin til að fræðast um lífið og tilveruna grípur þá sjaldnast fyrr en þeir hætta á þingi og þá er það yfirleitt of seint.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *