Skemmtilegt og leiðinlegt, fyrsti kafli

Um höfundinn
Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Sjá nánar

Um daginn sá ég nýjustu myndina um njósnarann Bond, raunar þremur árum seinna en til var ætlast. Hún mun víst vera sú dýrasta af þeim öllum og það er ekki erfitt að sjá hvers vegna. Þar eru eltingarleikir og sprengingar sem aldrei fyrr. Í stuttu máli var myndin augljóslega hin besta skemmtun og afþreying. Samt sat ég og geispaði og leit reglulega á úrið mitt og fór að hugsa um eitthvað annað. Í raun var ég ekki hissa. Ég gerði mér grein fyrir því fyrir allnokkru að mér leiðast sprengingar og eltingarleikir. Einfaldlega missi áhugann.

Sú var tíð að mér fannst Bond skemmtilegur og ég gat horft á hann af áhuga. Því hvarflaði að mér að bíómyndunum hefði kannski farið aftur. Það er þó harla ólíklegt í ljósi þess að allar gömlu Bond-myndirnar hafa í raun og veru nákvæmlega sömu fléttu sem er endurtekin frá mynd til myndar nokkurn veginn óbreytt. Hversu mörg hreiður ofurglæpumanns á afviknum stað hefur Bond ekki sprengt í loft upp í tímans rás? Ég tímamældi aldrei þessi atriði en yfirleitt tóku þau drjúgan hluta myndarinnar, sennilega fjórðung eða fimmtung. Og ég leyfi mér hér með að setja fram þá tilgátu að frásagnarfræðileg nálgun myndi staðfesta að þau voru öll í grófum dráttum eins. Þá skemmti ég mér (kannski einmitt endurtekningarinnar vegna) en núna skemmti ég mér ekki lengur.

Vandamálið hlýtur að liggja mín megin en ekki Bonds sem er sjálfum sér líkur. Ég verð að viðurkenna eins og er að ég á æ erfiðara með að halda athyglinni fyrir framan sjónvarpið, kannski síðan það kom tölva í stofuna sem hægt er að skoða á meðan. Æ oftar hverfur heilinn eitthvert annað og það er helst að athyglin komist á aftur þegar fólk talar saman. Sumir myndu skilgreina það sem leiðinlegt en eltingarleiki og sprengingar sem skemmtilegt. En ég er greinilega öfugsnúinn. Æ oftar stend ég með að því að horfa á landslagið í sjónvarpsþáttum. Á ár og dali og lítil þorp aftan við sögupersónurnar. Ég veit ekkert hvað kemur fyrir Kingdom lögmann og vini hans því að ég er alltaf að horfa á þorpið hans og landslagið í Norfolk. Það getur varla verið hugmyndin? Og þó hefur einhver haft fyrir því að stilla sögupersónum í þetta landslag; hlýtur viðkomandi ekki að hafa vitað að til væri fólk sem horfði á landslagið í stað þess að fylgjast með sögunni? Sumt þetta sjónvarpsefni er frá 7. og 8. áratugnum (og þá horfir maður á fötin líka) þannig að ég er greinilega ekki fyrsti maðurinn sem missir athyglina.

Í sjálfu sér skipti þessi þróun athygli minnar litlu máli ef ekki væri fyrir það hversu margnotuð hugtökin skemmtilegt og leiðinlegt eru. Þau hafa jafnvel haldið innreið sína í háskólastarf, á minn vinnustað, ásamt þriðja hugtakinu mér hálfu óskiljanlegra sem er aðgengilegt. Það er mikið talað um að fræðimenn eigi að vera skemmtilegir og aðgengilegir, minna um kosti þess að vera leiðinlegur, sennilega vegna þess að þeir eru ótvíræðir (engin ágengni nemenda og fjölmiðla til dæmis).

En bæði hugtökin eru varasöm og flókin. Hver ákveður að það sé skemmtilegra að horfa á sprengingar en landslag? Hvers vegna þykir sömu manneskju stundum sprengingar skemmtilegri en stundum landslag skemmtilegra? Og hvernig getur fræðimaður verið aðgengilegur? Fer það ekki allt eftir því hvern hann er að reyna að tala við?

Hér hefur verið varpað fram spurningum og brátt fer athygli lesenda að bresta. Greinilega þarf ég að svara spurningunum í annarri grein.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *