Af vörðum, og óvörðum fornleifum

Fyrsta föstudag októbermánaðar fóru starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands saman í skemmtiferð í Rangárþing Ytra til að skoða fornleifar, en nokkrir af fornleifafræðingum stofnunarinnar hafa síðastliðin fimm ár verið að vinna fornleifaskráningu á svæðinu fyrir sveitarfélagið.  Eftir um það bil tveggja tíma göngu kom hópurinn að Tröllaskógi sem er  bæjarstæði á móbergsöldu í Skógshrauni, um 8km norðaustan við Keldur á Rangárvöllum.  Tröllaskógar er getið í Njálssögu, og í Jarðabók Árna og Páls frá 1709 segir: “Stóre skógur (Tröllaskógur) er sem rúmlega hálf bæjarleið frá Litla skógi í Arbæjar landi, sem nú er haldið. Hefur án efa byggður verið til forna, og kirkja þar staðið, sem bevisa girðingar og mannabein, er uppblása í stórviðrum. Nú er bæjarstæðið og landið um kring sumpart kafið sandi, sumpart komið í blásið hraun og vatnsból ekkert og þar fyrir aldeilis óbyggilegt.”[1] Í dag eru þessar minjar á skrá yfir friðlýstar fornminjar.

Þegar komið var í Tröllaskóg þá tvístraðist hópurinn og fólk ráfaði um að skoða bæjarstæðið.  Fljótlega heyrðist þó hrópað, „Bíddu, hvað varð um báshellurnar?“. Flykktust allir þá að leifum fjóssins þar sem höfðu staðið uppi nokkrar hellur sem afmörkuðu básana, þegar bæjarstæðið var skráð árið 2008. Síðan þá hafði einhver heimsótt staðinn og tekið hellurnar auk annarra steina úr tóftinni og hlaðið úr þeim lága vörðu ofan á minjarnar. Þetta er því miður ekki einsdæmi. Staðan er nefnilega þessi. Eins og allir vita þá er uppblástur vandamál á ýmsum stöðum á landinu. Eitt af því sem þetta hefur áhrif á eru fornminjar, en þar sem áður stóðu grasi vaxnar tóftir eru í dag steinahrúgur á sendnum hólum, þar sem oft er erfitt að greina klárlega þau hús sem eitt sinn stóðu þar. Allt of algengt er, að þegar fólk rambar fram á þessa staði að þá haldi það að steinarnir séu vörður sem hafa hrunið, og þá ákveði að taka til hendinni og hlaða þær aftur.

Það eru hinsvegar mistök að halda að þessir staðir hafi tapað öllu minjagildi sínu þrátt fyrir uppblásturinn. Oft er ennþá hægt að átta sig á uppbyggingu bæjarstæða, staðsetningu einstæðra húsa og þess háttar, og eru þau hluti af menningarlandslagi sem hægt er að lesa ýmislegt í. Það er líka ómögulegt að vita hvað leynist undir sandinum, þar gætu legið minjar sem ekki eru sýnilegar. Auk þess eru allar fornleifar á Íslandi verndaðar, hvort sem þær eru á friðlýsingarskrá eða ekki, og það er bannað með lögum að hrófla við þeim. Því vil ég hvetja þig, kæri lesandi, næst þegar þú gengur fram á steinaþyrpingu efst á örfoka hól, að fara ekki að taka til í ,,vörðunni”, heldur setja hendur á mjaðmir, horfa aðeins í kring um þig og hugsa „Jahá, hér stóð bær!“

Hægt er að lesa meira um fornleifaskráningu í Rangárþingi Ytra í eftirfarandi skýrslum:

Ágústa Edwald. 2008. Fornleifaskráning í Rangárþingi Ytra. Áfangaskýrsla I. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands: FS379-06191.
Kristborg Þórsdóttir. 2010. Aðalskráning fornleifa í Rangárþingi Ytra. Áfangaskýrsla II. I-II bindi. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands: FS446-06192.

Hildur Gestsdóttir,
doktorsnemi í fornleifafræði
hildur@instarch.is


[1]Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín I.Vestmannaeyja- og Rangárvallasýsla. Kaupmannahöfn 1913-1917;  bls, 234.


Comments

One response to “Af vörðum, og óvörðum fornleifum”

  1. Guðmundur Avatar
    Guðmundur

    er hægt að nálgast fornleifaskráningu Rangárþings ytra á netinu? langar að vita meira um þá bæji sem stóðu í hraununum og fyrir hraun

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *