Um höfundinn
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við máltækni en hefur einnig stundað rannsóknir í samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og orðhlutafræði og hljóðkerfisfræði. Sjá nánar

Noam Chomsky flytur fyrirlestur um málvísindi í kennslustund við Háskóla Íslands.
Noam Chomsky flytur fyrirlestur um málvísindi í kennslustund við Háskóla Íslands.

Það var sérstaklega ánægjulegt að Noam Chomsky skyldi fallast á að flytja fyrirlestur í þverfaglegu málstofunni sem haldin er um verk hans nú á haustmisseri og nefnist Mál, sál og samfélag. Málstofan hefur verið sérlega vel sótt fram til þessa – skráðir nemendur eru milli 20 og 30 en vel yfir 50 manns hafa verið í tímum. Þegar von var á Chomsky í tíma vildu skipuleggjendur þó hafa vaðið fyrir neðan sig og fluttu málstofuna í Sal 2 í Háskólabíói sem tekur rúmlega 200 manns. Ekki veitti af, því að fólk var farið að safnast saman fyrir utan dyrnar hálftíma áður en fyrirlesturinn hófst og þegar Höskuldur Þráinsson leiddi Chomsky í salinn og kynnti hann kl. 12 var hvert sæti skipað og allnokkrir stóðu. Það var greinilega mikill spenningur í loftinu.

Erindi Chomskys nefndist The Generative Enterprise: Its origins, goals, prospects. Hann fór rólega af stað, talaði hægt og maður velti fyrir sér hvort röddin myndi bresta fljótlega. Hann byrjaði á að lýsa aðstæðum í bandarískri – og í raun vestrænni – málfræði þegar hann kom fram með byltingarkenndar hugmyndir sínar fyrir rúmri hálfri öld. Á þeim tíma gekk málfræðin út á lýsingu og flokkun og aðferðir við þá iðju. Hins vegar voru ekki til neinar fræðilegar kenningar um það hvernig tungumál væru eða gætu verið – þvert á móti töldu málfræðingar að engin takmörk væru fyrir því hvernig tungumál væru og hversu ólík þau gætu verið. Höskuldur Þráinsson hefur nýlega gert ágæta grein fyrir málfræðibyltingu Chomskys á Vísindavefnum og er óþarfi að endurtaka það hér.

Höskuldur Þráinsson og Noam Chomsky.
Höskuldur Þráinsson og Noam Chomsky.

Þegar leið á fyrirlesturinn fór Chomsky að tala hraðar og af meiri innlifun og tilfinningu, fannst manni, og fór á flug við að gera grein fyrir kenningum sínum um uppruna málhæfninnar. Hann bendir á að tungumálið er ekki eldra en 200 þúsund ára og ekki yngra en 50 þúsund ára. Hæfileikinn til máls er greinilega alls staðar sá sami – barn lærir vandræðalaust það tungumál sem er talað í samfélaginu þar sem það elst upp, jafnvel þótt foreldrar þess séu af allt öðrum þjóðflokki. Þetta bendir til þess að hæfileikinn til máls hafi ekki þróast frá því að mannkynið yfirgaf Austur-Afríku og fór að dreifast um jörðina.

Ef hæfileikinn til máls hefði þróast smátt og smátt, einhvern tíma á 150 þúsund ára tímabili eða svo, hefði maður búist við því að hann hefði haldið áfram að þróast og breytast á þeim 50 þúsund árum sem síðan eru liðin. En það virðist ekki vera – ef svo væri mætti búast við að málhæfni þjóðflokka sem hafa verið einangraðir í þúsundir ára, t.d. á Amazon-svæðinu eða í Nýju-Gíneu, hefði þróast sjálfstætt og væri frábrugðin málhæfni annarra.

Eina skýringin á þessu er sú, segir Chomsky, að málhæfnin hafi ekki þróast smátt og smátt á þúsundum ára, heldur orðið til allt í einu, með stökkbreytingu í einum einstaklingi („small rewiring of the brain“, sagði hann). Athugið að hér er ekki verið að tala um þróun tungumálsins – það er enginn vafi á því að það var að þróast í þúsundir ára og mál eru vitanlega enn að þróast og breytast. Hér er hins vegar verið að tala um hæfileikann til máls – sem er vitanlega forsenda tungumálsins en ekki tungumálið sjálft.

Eftir þrjú korter leit Chomsky á klukkuna og velti fyrir sér hvort hann ætti að láta þetta duga en ákvað svo að halda aðeins áfram. Sem betur fer. Þá fór hann að setja fram ögrandi staðhæfingar sem komu áheyrendum á óvart, ekki síst þegar hann hélt því fram að það væri misskilningur að tungumálið væri ætlað til samskipta. Í raun er þetta þó óhjákvæmileg afleiðing af þeirri hugmynd að hæfileikinn til máls hafi orðið til við stökkbreytingu. Það er skilgreiningaratriði að stökkbreytingar hafa engan tilgang. Hitt er líka ljóst að sá einstaklingur sem stökkbreytingin kom fram hjá gat ekki nýtt sér þennan nýfengna hæfileika til samskipta, einfaldlega vegna þess að hann var einn um að búa yfir honum.

En ekki nóg með að tungumálið sé ekki ætlað til samskipta – Chomsky hélt því líka fram að málið væri í raun heldur illa til þess fallið að sinna því hlutverki vegna þess ósamræmis sem er í hugsunum okkar annars vegar og þeim búnaði sem við höfum til að tjá þær hins vegar. Málbúnaðurinn – talfærin, og hendur og andlitshreyfingar þegar um táknmál er að ræða, þvingar okkur til að setja málið fram línulega; við getum ekki borið fram mörg hljóð í einu, eða sagt mörg orð í einu. Það er hins vegar engin ástæða til að ætla að hugsun okkar sé línuleg – hún er óröðuð, segir Chomsky, en í henni er hins vegar stigveldi. Sama gildir um tungumálið – það er ekki línulegt í eðli sínu, heldur byggist á stigveldi.

Svo var hann allt í einu hættur eftir klukkutíma fyrirlestur og tók strax fyrstu fyrirspurnina, án þess að gefa áheyrendum færi á að klappa, en þeir klöppuðu þeim mun betur að spurningum loknum. Spurningarnar voru nokkrar og áttu misvel við eins og gengur. Einn fyrirspyrjandi átti erfitt með að sætta sig við þá staðhæfingu að tungumálið væri ekki ætlað til samskipta en Chomsky benti á að málnotkun okkar er að mestu leyti þögul – við notum málið aðallega til að hugsa og tala við sjálf okkur.

Noam Chomsky flytur fyrirlestur í málstofunni Mál, sál og samfélag.
Noam Chomsky flytur fyrirlestur í málstofunni Mál, sál og samfélag.

Það var upplifun að vera á þessum fyrirlestri. Það er í sjálfu sér afrek hjá manni á níræðisaldri að tala blaðalaust í klukkutíma án þess að reka í vörðurnar, hika, eða endurtaka sig – og halda röklegu samhengi og stígandi allan tímann. Þótt eitt og annað væri kunnuglegt fyrir þá sem hafa fylgst með verkum Chomskys fór því fjarri að hann væri að spila gamla plötu – hann vitnaði í nýjar rannsóknir á ýmsum fræðasviðum og greinilegt að hann fylgist vel með. Hugmyndir hans og kenningar eru vitanlega ekki allar sannaðar og eru sumar hverjar kannski kolrangar eins og hann veit manna best sjálfur („I may be totally wrong, of course“, segir hann öðru hverju hvort sem það er nú uppgerðarlítillæti eða ekki). En hann hefur líka alltaf verið óhræddur við að skipta um skoðun og gerbreyta útfærslu kenninga sinna þótt sumir hafi lagt honum það til lasts.

Málvísindarit Chomskys þykja sum nokkuð tyrfin en þetta erindi var einkar skýrt og auðskilið, a.m.k. fyrir þá sem höfðu einhverja nasasjón af hugmyndum hans fyrir – og reyndar aðra líka, ef dæma má af samtölum mínum við ýmsa viðstadda. Og það var einstök upplifun að heyra og sjá þekktasta og áhrifamesta málfræðing samtímans setja kenningar sínar fram skýrt og ljóst fyrir á þriðja hundrað áhugasamra áheyrenda – á Íslandi.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *