Hvar á blessuð vatnskerlingin heima?

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinsson. Ásmundur sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 1967: ,,Eftir nokkra leit fann ég svo fallega klöpp austan Reykjanesbrautar. Þann stað leist mér strax vel á og þar stendur styttan nú. … Hérna er hún á réttum stað. Mér þykir mjög vænt um þetta allt saman. Vatnsberinn er fyrsta myndin mín, sem sett er upp út í óhreyfðri náttúrunni. Ég er viss um að það fer vel um hana hérna.” Ljósmynd: Jóhann Ísberg.

Um miðjan apríl gerði Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar að tillögu sinni að listaverkið Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinsson yrði flutt ofan úr Öskjuhlíð í Austurstræti. Tillagan tengist því að undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að breyta Austurstræti enn og aftur í göngugötu. Í frétt um málið á Vísi.is er nefnt að Vatnsberanum hafi upprunalega verið ætlaður staður á horni Bankastrætis og Lækjargötu þegar verkið komst í eigu borgarinnar um miðja síðustu öld en hávær mótmæli hafi breytt þeirri ákvörðun. Í fréttinni er einnig vitnað í greinargerð Umhverfis- og samgöngusviðs en samkvæmt henni má ætla að flutningur listaverksins nú þjóni að minnsta kosti þrenns konar tilgangi:

  • komið sé til móts við óskir borgarstjóra um að fá styttu af konu í miðbæinn
  • send séu út skýr skilaboð um að Austurstræti sé ætlað gangandi vegfarendum
  • undið sé ofan af gömlum mistökum borgaryfirvalda sem skort hafi kjark til að koma svo framúrstefnulegu listaverki fyrir á einu fjölfarnasta götuhorni Reykjavíkur. „Nú er lag að leiðrétta þetta og bjóða Vatnsberann heim í miðbæinn úr útlegðinni,“ segir í greinargerðinni.

Umrædd tillaga hefur verið lögð fyrir bæði menningar- og ferðamálaráð og skipulagsráð borgarinnar og fengið góðar undirtektir. Samkvæmt bókun um afgreiðslu málsins í síðarnefnda ráðinu gerðu fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar enga athugasemd við þessa nýju staðsetningu, þeir töldu hugmyndina áhugaverða en mæltu með að hugað yrði vel að útfærslunni og leitað yrði umsagna sem víðast. Í framhaldi hefur nokkur umræða farið fram í netheimum, meðal annars á fésbókarsíðu Besta flokksins  og eru ólíkar skoðanir uppi (10-11 eru hrifnir en 4-5 skrifa neikvæð ummæli). Meðal þeirra sem hafa tjáð sig mótfallna hugmyndinni er nafnlaus höfundur á bloggsíðunni Vegið úr launsátri en hann segir að ef listaverk Ásmundar sé staðsett „þar sem fyllibyttur safnast saman um nætur verður migið utan í hann, stöpullinn verður notaður til að leggja frá sér bjórdósir og glös, og eflaust verður hrækt á hann, krotað á hann og hvað það er nú allt sem fólki dettur í hug að gera í ölæði sínu og dópvímu“.

Fyrir hálfu öðru ári sendi ég frá mér bókina Mynd af Ragnari í Smára og fjallaði þar í einum kafla um deilurnar sem spruttu í kringum Vatnsberann um miðja síðustu öld. Það kann að vera gagnlegt, bæði fyrir borgaryfirvöld og borgarbúa, að kynna sér það efni áður en lengra er haldið, sem og afstöðu listamannsins sjálfs til staðsetningar verksins.

Náttúrlegir vanskapningar

Sagan hófst þegar Fegrunarfélag Reykjavíkur tók sér fyrir hendur að endurskipuleggja svæðið neðan við Bernhöftstorfuna og koma þar upp skrúðgarði. Félagið hafði verið stofnað seint á fimmta áratugnum til að stuðla að fegrun höfuðstaðarins og virkja bæjarbúa í því starfi. Ragnar Jónsson í Smára var kosinn í fyrstu stjórnina ásamt Vilhjálmi Þ. Gíslasyni, sem var þá skólastjóri Verzlunarskólans, Jóni Sigurðssyni borgarlækni, Sigurði Ólasyni lögfræðingi og Gunnari Thoroddsen borgarstjóra sem var kjörinn formaður. Kappsmál Ragnars á þessum vettvangi var að fjölga útilistaverkum í Reykjavík, koma á stefnumóti borgarbúa við helstu meistara íslenskrar höggmyndalistar. Framkvæmdaáætlunin bar augljós höfundareinkenni hans. Á fyrsta starfsvetrinum var meðal annars samþykkt að stefna að útgáfu tímarits tvisvar á ári, þeir meðlimir sem greiddu félagsgjöld yrðu sjálfkrafa áskrifendur en auk þess átti að safna auglýsingum. Hagnað skyldi leggja í sérstakan listaverkasjóð en markmiðið var að hann gæti „staðist kostnaðinn við að koma upp minnst einni höggmynd á ári“, eins og sagði í frétt í Þjóðviljanum 1949.

Skrúðgarðurinn milli Bankastrætis og Amtmannsstígs var stærsta verkefnið á fyrsta starfsárinu. Ríki og borg féllust á að skipta með sér kostnaði við lagfæringu og ræktun lóðarinnar en félagið ætlaði fyrir sinn eigin reikning að leggja til umrædda höggmynd eftir Ásmund Sveinsson. Val styttunnar helgaðist af því að á þessum stað við Lækjargötu hafði verið eitt af helstu vatnsbólum bæjarins.  En ekki voru allir jafn ánægðir með þessi áform. Seta borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins í stjórn Fegrunarfélagsins hafði þar sín áhrif, menn úr öðrum flokkum sættu sig ekki við að sjálfstætt félag undir hans forystu væri að hlutast til um mál sem bæjarstjórnin bæri í raun ábyrgð á. Smátt og smátt vatt málið upp á sig. Vissum dálkahöfundum Alþýðublaðsins, svo sem Leifi Leirs og frú Dáríði Dulheims, var sérstaklega í nöp við borgarstjóra og Fegrunarfélagið og höfðu styttu Ásmundar ítrekað í flimtingum. Skrif þeirra bæði endurspegluðu og mótuðu almenningsálitið.  Engu skipti þótt Gunnar Thoroddsen segði sig úr stjórn Fegrunarfélagsins og Vilhjálmur Þ. tæki við formennskunni.  Á vordögum 1950 hallaði frekar undir fæti þegar Einar Magnússon menntaskólakennari óskaði eftir því í blaðagrein í Vísi að blaðið birti ljósmyndir af Vatnsberanum svo skattgreiðendur „gætu gert sér einhverja hugmynd um þessa líkneskju og hvort þeir telja hann til fegurðarauka“.  Í kjölfar myndbirtingarinnar skrifaði Einar aðra blaðagrein í Vísi þar sem hann útskýrði að höggmynd Ásmunds væri gerð í svipuðum stíl og myndir ýmissa nýtísku málara. „Hlutföll í myndum og líkneskjum, sem eiga að sýna mannlegan líkama t.d., eru oftast með öðrum hætti en í veruleikanum, svo að náttúrlegir vanskapningar komast þar ekki í hálfkvisti við.“ Skoraði Einar á bæjarráð „að setja EKKI líkneskið af Vatnsberanum við Bankastræti“ þar sem það væri líklegt til að vekja „hrylling og viðbjóð meiri hluta vegfarenda“.

Nútímalist séð með moldvörpuaugum

Ýmsir risu upp til varnar, þar á meðal æskuvinur Ragnars, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson fréttastjóri Alþýðublaðsins, sem skrifaði reglulega dálka í blaðið undir nafninu Hannes á horninu.  Beittastur í andsvörum var þó líklega Geir Kristjánsson sem skrifaði pistil í Þjóðviljann og taldi grein Einars sýna vel „hvílíkum moldvörpuaugum margir hverjir líta á nútíma list hér á landi“.  En málflutningur af þessu tagi kom fyrir lítið; skjálfti var kominn í pólitíkina. Snemma í júní tilkynnti borgarstjóri að hvorki bæjaryfirvöld né listamaðurinn hefðu sérstakan áhuga á að Vatnsberinn yrði settur upp við Lækjargötuna, hins vegar hefði verið rætt um aðrar staði, þar á meðal Hljómskálagarðinn.  Jafnframt tók Gunnar vel í þá tillögu frá bæjarfulltrúa sósíalista að skipuð yrði sérstök nefnd með aðild Fegrunarfélagsins, Húsameistarafélagsins og Félags íslenskra listmálara sem gera skyldi tillögur um skreytingu gatna og torga í bænum. Vilhjálmur Þ. Gíslason minnti á skömmu síðar í blaðagrein í Alþýðublaðinu að allar nýjar höggmyndir í borginni hefðu verið umdeildar en upplýsti jafnframt að Fegrunarfélagið ynni að því að fá frá Einari Jónssyni myndhöggvara „afsteypu af Útilegumanninum og Öldu aldanna, annarri eða báðum“.

Stefna Gunnars og Vilhjálms var að ná fram málamiðlun með þolinmæði og lagni. En andstæðingarnir voru ekki á því að leggja árar í bát. Í þeirra hópi voru minnipokamenn úr Fegrunarfélaginu, pólitískir andstæðingar borgarstjórans og íhaldssamir listunnendur sem drógu verk Ásmundar í dilk með óþjóðlegum klessumálverkum og atómljóðum. Á næstu misserum birtust reglulega einhverjar greinar í dagblöðunum þar sem Vatnsberinn var hafður að skotspæni. Slíkum skrifum var jafnan svarað en meðal þess sem veikti viðnámið var að Gunnar Thoroddsen einangraðist innan Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda forsetakosninganna 1952 þar sem hann studdi tengdaföður sinn, Ásgeir Ásgeirsson, á meðan flokkurinn tók opinbera afstöðu með hinum frambjóðandanum, séra Bjarna Jónssyni.

Um mitt sumar 1952, nánar tiltekið 18. júlí, birtist nafnlaus grein í vikublaðinu Varðbergi þar sem fullyrt var að sigur Ásgeirs í forsetakosningunum hefði stigið tengdasyni hans til höfuðs og hann ákveðið að gera alvöru úr því að setja Vatnsberann upp, að þessu sinni í Hljómskálagarðinum. Greinarhöfundi leist illa á þau áform en taldi staðsetningu verksins vera aukaatriði. „Reykvíkingar hafa þegar sýnt svo greinilega vilja sinn og álit á þessari ófreskju, að hverjum meðalgreindum manni ætti að vera farið að skiljast, að það er móðgun við bæjarbúa að hampa henni framan í þá.“  Ragnar í Smára og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson fengu líka dembu yfir sig við sama tækifæri: „Helsti stuðningsmaður Vatnsberans að þessu sinni er Hannes á horninu. Það má segja, að víða finnast vesalmenni, sem eru reiðubúnir að ganga á mála, þó að málstaðurinn sé slæmur. – Væri þeim nær Hannesi á horninu og Ragnari í Smára að flytja Vatnsberann austur á þeirra sveit og setja hann niður á Eyrarbakka. Þar væri hann sjálfsagt vel þeginn.“

Hérna er hún á réttum stað

Í þessu andrúmslofti, þar sem menn hótuðu jafnvel að mölva styttuna niður ef hún yrði sett á stall,  héldu bæjaryfirvöld áfram að sér höndum en Ragnar, sem hafði lítt beitt sér opinberlega fram að þessu, gekk nú fram fyrir skjöldu. Vatnsberinn var ein af ástæðum þess að hann hleypti nýju lífi í tímaritið Helgafell. Sérstakt viðhafnarhefti tímaritsins 1953 var helgað Ásmundi, sem átti sextugsafmæli það ár, en auk þess voru myndhöggvarinn og verk hans til umfjöllunar í fleiri heftum. Þá samdi Ragnar við Björn Th. Björnsson um ritun listaverkabókar um Ásmund sem koma skyldi út bæði á íslensku og ensku. Síðast en ekki síst skipulagði hann tangarsókn úr óvæntri átt. Þegar opnuð var iðnsýning í Iðnskólanum á Skólavörðuholti haustið 1952 hafði höggmynd eftir Ásmund, Járnsmiðnum, verið komið fyrir við innganginn.  Verkið stóð óhreyft eftir að sýningunni lauk en í tilefni af fimmtíu ára afmæli Iðnskólans tveimur árum síðar keyptu Ragnar og sex aðrir einstaklingar, þeirra á meðal Tómas Guðmundsson skáld, Járnsmiðinn af listamanninum og gáfu skólanum og bænum að gjöf. En andstæðingar Vatnsberans létu ekki skáka sér svo auðveldlega.  Á fyrri hluta ársins 1955 taldi listaverkanefnd Reykjavíkur bæjarráð á að samþykkja að Járnsmiðurinn yrði fluttur á grasblett milli Snorrabrautar og Þorfinnsgötu.

Allt þetta mál fékk mikið á Ásmund og svo fór að listaverkið var aftur flutt í Sigtúnið þar sem hann bjó og starfaði. Ragnar lýsti þessum málalyktum svo í Vettvangsgrein í Morgunblaðinu 1961:  „Nú hefur Ásmundur fengið Vatnsberann aftur í hornið til sín og þangað streyma nú erlendir gestir okkar og bjóða fram dollara og pund ef þeir mættu taka hann með sér. En Ásmundur hefir aldrei verið mjög fátækur maður, aldrei svo armur að hann vildi láta af hendi það sem honum var hjartfólgið. Ekki hef ég séð hann í annað sinn glaðari en þegar flóttanum mikla lauk heima í garði hans, og vatnskerlingunni blessaðri var rennt af kviktrjánum.“

Viðtal Morgunblaðsins við Ásmund Sveinsson árið 1967.
Viðtal Morgunblaðsins við Ásmund Sveinsson árið 1967.

Það var svo seint á sjöunda áratugnum að þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, Geir Hallgrímsson, fór þess á leit við Ásmund að fá að setja Vatnsberann upp einhvers staðar í borgarlandinu. Listamaðurinn tók dræmt í það í fyrstu en þegar Geir kvaðst vilja steypa listaverkið í kopar gat hann ekki annað en sagt já. Ákveðið var að koma því fyrir í Öskjuhlíðinni og var Ásmundur hafður þar með í ráðum. Í viðtali í Morgunblaðinu í ágústmánuði 1967 segir hann meðal annars: „Fyrst vildu þeir klína henni fast við vatnsgeymana á Öskjuhlíðinni. Það fannst mér óráð. Eftir nokkra leit fann ég svo fallega klöpp austan Reykjanesbrautar. Þann stað leist mér strax vel á og þar stendur styttan nú. … Hérna er hún á réttum stað. Mér þykir mjög vænt um þetta allt saman. Vatnsberinn er fyrsta myndin mín, sem sett er upp út í óhreyfðri náttúrunni. Ég er viss um að það fer vel um hana  hérna. Heyrið þið strákar, sagði hann við tvo patta, sem komnir voru til að fylgjast með. Viljið þið ekki gæta styttunnar fyrir mig — vera löggur? —  Jú, svöruðu strákarnir hreyknir. —  Það má ekki rispa — ekki krota, sagði meistarinn og hinir nýskipuðu verðir kinkuðu alvarlega kolli.“

Í ljósi þessara orða þykir mér óráð að ætla að finna blessaðri vatnskerlingunni „nýtt heimili“ í Austurstrætinu.

(Hluti þessarar greinar byggir á texta úr kaflanum „Í nálægð meistara“ í bók minni Mynd af Ragnari í Smára (Bjartur 2009).)


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *