„Pachamama“ og gullið góða

Loftlags- og umhverfisumræðu vex smám saman ásmegin í löndum Rómönsku Ameríku. Lengi vel var litið á málið sem „vestrænt“ vandamál – í þeirri merkingu að um sukk iðnríkjanna væri að ræða og þau þyrftu sjálf að þrífa og taka til eftir sig. En eins og flestum er löngu ljóst er jörðin eitt samhangandi vistkerfi sem við lifum öll og hrærumst innan. Yngri kynslóðir álfunnar eru því óðum að vakna upp við þann vonda draum að verkefnin framundan eru ærin.

Til að nálgast umræðuna og öðlast e.t.v. einhvern skilning á sinnuleysinu sem virðist hafa ríkt til þessa fer vel að þekkja hugtakið „pachamama“, sem kemur úr tungumálum frumbyggja Andesfjalla. Hjá Inkunum vísar það til móður sólguðsins; frjósemisgyðjunnar sem ræður sprettu og uppskeru, en ber einnig fjöllin á herðum sér. Hún viðheldur lífi á jörðinni. Hún er móðir jörð!  Quechua fólkið notar hugtakið í ögn víðari merkingu því hjá því vísar „pachamama“ til fyrirbæra eins og vatns, jarðar, sólar og tungls. Hugtakið tjáir einnig upphaf og uppruna – hvort heldur sem er manns eða náttúru.

Og til að tengja fortíð og nútíð fer einnig vel á því að rifja upp að á tímum hernáms Evrópuþjóða á Ameríku var kerfisbundið unnið að því að kristna þarlend samfélög og átrúnaður indjána gerður tortryggilegur ef ekki djöfullegur. En til að þetta tækist voru þekkt fyrirbæri samt gjarnan nýtt til að útskýra nýja átrúnaðinn. Þannig varð til dæmis til eins konar brú milli ímyndar Maríu meyjar og Pachamama. Jaðarstaða Maríu innan kristni, því faðirinn, sonurinn og heilagur andi voru jú í aðalhlutverkum, stuðlaði þannig beint og óbeint að dvínandi virðingu fyrir „pachamama“. Markmið nýlenduherranna var að njóta ágóða og fá sem mest út úr jarðnæði og auðlyndum nýlendnanna. Land var rutt í stórum stíl til að rækta það sem evrópumenn ágirntust og síðar þegar auðlyndir eins og gullið góða, silfur, kopar og olía funndust hafði þetta nýtingarfyrirkomulag fullkomlega verið fest í sessi.

Afkomendur evrópumanna skipuðu stétt landeigenda og röðuðu sér í valdastöður, á sama tíma og frumbyggjasamfélögin, þau sem héldu velli og lifðu ofsóknirnar af, hörfuðu lengra inn í skógana eða upp til fjalla. Álfan varð að forðabúri norðursins!

Enn þann dag í dag kemur fjármagnið úr norðri, vinnuaflið er heimaræktað og ódýrt, og ágóðinn rennur um „opnar æðar“ Rómönsku Ameríku,[1] – eins og fræðimaðurinn Edvardo Galeano vísar til í bók sinni Las venas abiertas de America Latina, aðallega til Bandaríkjanna, Kanada, Evrópu og nú síðast til Kína.

En hverjar eru svo helstu áskoranir álfunnar í umhverfismálum nú til dags?

Í því samhengi mætti til að mynda fjalla um óhreinsaðan efnaúrgang lyfjafyrirtækja sem rennur jafnt í Atlantshafið og Kyrrahafið. Eða eiturgufur iðnfyrirtækja og samsetningaverksmiðja alþjóðlegra stórfyrirtækja, eins og evrópskra bílaverksmiðja. Þá mætti ræða frárennslismál 20 milljóna manna stórborga eins og Buenos Aires, Líma eða Sao Pablo. Eða ruslahauganna frá þessum sömu borgum, þessi endalausu flæmi ófögnuðar, þar sem hræfuglar hringsóla yfir og þúsundir manna gramsa dag hvern í leit að verðmætum eða mat. Í því samhengi mætti einnig ræða hækkun sjávar og þá staðreynd að margar stórborgir álfunnar byggðust upp við sjávarsíðuna og hækkun um hálfan eða einn metra hefði gríðarlega eyðileggingu í för með sér. Á sama tíma eru loftgæði borganna sem byggðust inni í miðju landi, eins og Mexíkó-borgar eða Bógóta í Kólumbíu, ákallandi úrlausnarefni.

Einnig væri verðugt verkefni að fjalla um mál eins og notkun á áburði og skordýraeitri í landbúnaði – þaðan sem helstu útflutningstekjur margra landa álfunnar eru sprottnar. En staðfest er að efnin berast út í fæðukeðjuna og skolast með rigningarvatninu í árnar, vatnsbólin og á endanum á haf út. Ég gæti auk þess rætt áhrif vaxandi þurrka á aðstæður smábænda, aukið skógarhögg í þágu nautgriparæktar sem mikið hefur verið rætt í tengslum við útþenslustefnu nýrra stjórnvalda í Brasilíu inn á Amazonsvæðið. Einnig það ákallandi verkefni sem felst í því að tryggja aðgengi að nothæfu neysluvatni, en áberandi hefur verið umræðan um einkavæðingu drykkjavatns – t.d. í Síle. Sem svo veldur hinni algerlega óþörfu plastflöskumengun sem gosdrykkjafyrirtæki eins og Coca Cola græða stórlega á. Plastflákinn sem marar í hálfu kafi í Karíbahafinu, undan ströndum Hondúras, talar sínu máli.

En nóg um áskoranir og hörmungar, því allt eru þetta viðfangsefni sem hægt væri að vinna bug á með samstilltu átaki og ótrúlega miklu fjármagni sem reyndar hefur ekki verið vilji til að verja í þessar nauðsynlegu fjárfestingar fyrir framtíðina – ekki enn sem komið er.

Hér á eftir er vert að huga að einhverju því sem vinnur á móti þessum veruleika eða vel hefur verið gert. Fyrst má þar telja að það er ekki nema lítill hluti íbúa Rómönsku Ameríku sem getur leyft sér að vera eða verða þrælar neysluhyggjunnnar. Stærstur hluti íbúanna notar almenningssamgöngur, hefur aldrei upp í flugvél komið, hvað þá siglt um heimsins höf á fljótandi þorpum sem ganga fyrir olíu. Helmingur íbúanna á tvenn eða þrenn skópör, fjórðungur býr í húsnæði sem unnið er úr „náttúrulegum efnum“, þ.e.í  leir- eða timburkofum, svo … spyrja má af hverju ættu þessar nokkur hundruð milljónir karla og kvenna að taka þessa loftslagsumræðu eða mengunarvá til sín?

Svo eru hinir, fólk úr efri millistétt og yfirstétt, sem tímabært er að vakni til vitundar. Og það er að gerast. Um það vottar fjöldi vindorkuvera víða um álfuna, sólarrafhlöður á húsþökunum, endurvinnslukerfi í borgun, vegatollar og fokdýrir bílskúrskjallarar í borgunum. Innan stjórnmálanna gerist einnig margt.

Umhverfismálaráðuneytum hefur verið komið á laggirnar víða og málaflokkurinn þannig öðlast viðurkenningu og opinbera málssvara. Í Perú er unnið að nýrri löggjöf um námuvinnslu og aðbúnað námaverkafólks, og þar koma umhverssmál við sögu. Stjórnvöld í Ekvador stóðust nýverið áhlaup – þrátt fyrir klingjandi dollaraloforð – um aðgengi risastórra skemmtiferðaskipa að Galapagos-eyjum,. Frumbyggjahópar í norðanverðri Kólumbíu tryggðu fyrir skömmu að Texaco olíufyrirtækið fengi ekki leyfi til að bora á landi þeirra, þökk sé héraðsyfirvöldum sem studdu þau í baráttunni. Svipað var upp á teningnum þegar PetroChina var rekið af landi Sapara og Kichwa-indjána í Ekvador á síðasta ári.

Og á meðan vísinda- og fræðimenn vinna hörðum höndum að því að finna leiðir til úrbóta keppast listamenn við að leggja baráttunni lið. Sönglagatextar hvetja almenning til dáða og rithöfundar álfunnar láta ekki sitt eftir liggja. Argentíska skáldkonan Claudia Aboaf sem hér var á ferð í nóvember síðast liðnum dregur í síðustu bók sinni upp mynd af samfélagi á bökkum Silfurárinnar, sem aðskilur Argentínu og Úrúgvæ, þar sem vatn er ekki lengur að finna. Neysluvatn er flutt til staðarins með norskum tankskipum og ósætti íbúanna snýst ekki lengur um yfirráð lands eða hugmyndafræðilegan ágreining, heldur um lífsvökvann.

Berta Cáceres.

Að lokum má ekki gleyma aðgerðarsinnunum!

Hér í norðrinu eigum við Grétu Tunberg. Kanadamenn eiga Peltier, 14 ára gamla verðlaunaða frumbyggjastúlku, sem barist hefur fyrir aðgengi að hreinu drykkjarvatni um árabil. Nafni Bertu Cáceres, frá Hondúras, er mjög haldið mjög á lofti um alla Rómönsku Ameríku. Þrátt fyrir að rúm tvö ár séu liðin síðan hún var drepin „fyrir málstaðinn“ og kannski einmitt þess vegna. Konur eru reyndar mjög áberandi í umhvefisumræðunni og hreyfingar þeirra, ekki hvað síst úr frumbyggjasamfélögum Andesfjalla og Brasilíu, hafa látið í sér heyra um að ekki sé þörf á því að finna upp neitt nýtt hjól. Leyndarmálið um það hvernig maðurinn getur lifað í sátt og samlyndi við pachamama hafi samfélög þeirra varðveitt um aldir.

[1] Eduardo Galeano. Las venas abiertas de América Latina. Buenos Aires: Editorial El Ataneo, 1986 [1971].

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila