Ég býð mig fram

Ég býð mig fram var frumsýnt í Tjarnarbíói, 21. febrúar sl. Verkið er samansafn 15 örverka sem öll eru flutt á einni kvöldstund. Fjögur þeirra eru í anddyri Tjarnarbíós og eru eins konar innsetningar, dansverk og ljósmyndasýning. Þessi verk gefa tóninn fyrir það sem koma skal; fjölbreytt verk, misinnihaldsrík en öll skemmtileg áhorfs.

Í upphafi sýningarinnar er gestum s.s. boðið að virða fyrir sér verkin fjögur í anddyrinu. Þar er Almar S. Atlason með sitt verk, Merking, sem er eins konar leikmynd. Almar setur sjálfan sig í forgrunn án þess að hann kalli sig flytjanda, en gestum gefst tækifæri til að húðflúra skilaboð á bakið á honum. Ögrandi verk og vissulega eru ekki allir sem þora að reyna sig við blekið. Ljósmyndasería Ólafar Kristínar Helgadóttur, Vefur, sýnir nána snertingu kvenlíkama og vill höfundur tengja verkið samfélagi án fordóma á nánast líffræðilegan hátt. Fallegt verk. Bessastaðir er dansverk sem sýnir kokteilboð á Bessastöðum. Skemmtileg hugmynd um uppáhaldslag forseta sem spilað er í öllum partýjum. Verkið er hins vegar sýnt í fordyri hússins og er í litlu lokuðu glerrými. Verkið sjá færri en vilja, en það er kannski einmitt mergurinn málsins. Tónlistarmyndband er svo sýnt á sjónvarpsskjá. Verkið kallast Doesn‘t really matter. Þar var mikið um að vera, mikil hreyfing, margt fólk og há tónlist. Ég verð að játa mig sigraða í þessum heimi tónlistarmyndbanda.

Á leiksviðinu taka svo við 11 sviðsverk eftir jafnmarga listamenn og eru þau fjölbreytt eftir því og mismunandi að efni. Þar á meðal eru mjög persónuleg verk, ádeiluverk og pólitísk, en einnig rómantísk, fyndin verk og  verk um hugrekki. Það er ógerningur að ræða hvert og eitt verk en ég nefni hér nokkur eftirminnileg. Fyrsta verkið sem nefnist &, eftir Frank Fannar Pedersen, var ljóðrænt og fallegt og tilvalið sem opnunaratriðið á leiksviðinu. Fire works í leikstjórn Kitty Von Sometime var kraftmikið myndband með hljómsveitinni Gus Gus og dönsurum. 1925 eftir Ingvar E. Sigurðsson var skemmtileg sveitarómantík og verk Ilmar Stefánsdóttur Human var eftirminnilegt. Ástand sands eftir Friðgeir Einarsson var í fyrirlestrarformi og bráðfyndið. Vængir eftir Helga Björnsson var svo lokaatriðið sem einhvern veginn rammaði inn sýninguna og tengdi við upphafsatriði hennar þótt ólík væru.

Önnur verk voru með ágætum og í heildina var þetta mjög vel heppnuð listahátíð, fjölbreytt og kraftmikil. Að lokum má ekki gleyma aðstoðarmanneskju sýningarinnar sem skipti um leikmynd milli atriða. Alvörugefin kona í búningi sem minnti á sýningarstjóra þöglu myndanna enda var tónlistin sem fylgdi henni í þeim dúr og vakti mikla kátínu meðal gesta.

Það er unun að sjá hvernig margir ólíkir listamenn geta myndað jafn heildstæða sýningu og þarna er á ferðinni. Því ber að þakka styrkri stjórn hins listræna stjórnanda Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur. Unnur hefur einstaklega líflega og fallega útgeislun á sviði og ekki annað hægt en að hrífast með.

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

[fblike]

Deila