Gamlir og nýir draugar

Í Bækur, Rýni höf. Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Inga Mekkin Beck
Skóladraugurinn
Vaka Helgafell, 2016
Íslensku barnabókaverðlaunin hafa nú verið veitt í þrjátíu ár en þau voru sett á fót í tilefni sjötugsafmælis barnabókahöfundarins góðkunna Ármanns Kr. Einarssonar.  Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns, Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið. Listinn yfir verðlaunahafa síðustu áratuga er glæsilegur og þar má finna marga sígilda gullmola á borð við Gegnum þyrnigerðið eftir Iðunni Steinsdóttur, Benjamín dúfu eftir Friðrik Erlingsson, Emil og Skunda eftir Guðmund Ólafsson og Margt býr í myrkrinu eftir Þorgrím Þráinsson. Síðustu ár hafa verðlaunin verið veitt ungum höfundum sem eru að stíga sín fyrstu spor á ritvellinum og er það vel. Má þar nefna höfunda sem hafa getið sér gott orð eins og Bryndísi Björgvinsdóttur, Gunnar Theodór Eggertsson og Ragnheiði Eyjólfsdóttur sem hlaut verðlaunin 2015 og fylgir þeim eftir strax í ár með framhaldsbók.

Í ár komu verðlaunin í hlut Ingu Mekkin Beck en hún sver sig í ætt við verðlaunahafa síðustu ára því að Skóladraugurinn er hennar fyrsta bók. Sagan segir frá Gunnvöru sem er nýflutt frá Bandaríkjunum í lítinn bæ úti á landi þar sem hún þekkir engan. Fyrsti skóladagurinn verður henni afar örlagaríkur ekki aðeins vegna þess að hún er látin setjast hjá Petru sem verður besta vinkona hennar heldur ekki síður vegna þess að skólastjórinn segir bekknum söguna af draugnum sem dvelur í kjallara skólans og fer á kreik á um það bil fimmtíu ára fresti. Bekkurinn hefur margoft heyrt söguna og finnst lítið til koma en Gunnvör verður undir eins hugfangin og sagan hverfur ekki úr huga hennar næstu daga. Smám saman kemur í ljós hvers vegna Gunnvör er svona heilluð af möguleikanum á því að draugar séu til og sagan af draugnum fléttast saman við erfiðleika og sorg fjölskyldu Gunnvarar.

Eftirtektarverðast við söguna er hvernig höfundur nýtir drauga og draugatrú til þess að opna glugga inn í annað og erfiðara umfjöllunarefni: sorg og dauða.
Framan af er sagan nokkuð spennandi þó að ef til vill hefði mátt undirbyggja persónu Gunnvarar aðeins betur því að það tekur lesanda nokkra stund að átta sig á sögu hennar. Þó að framvindan krefjist þess að hluti þeirrar sögu komi í ljós hægt og bítandi mætti kynning á Gunnvöru að ósekju vera skýrari. Sagan flæðir þó ágætlega þannig að erfitt er að leggja hana frá sér og er í heildina vel skrifuð. Draugasagan sjálf er afar áhugaverð þar sem þjóðsagnaarfur kemur við sögu og hjátrú Íslendinga er nýtt en um leið birtast í sögunni nýrri einkenni út bíómyndum um drauga sem ættaðir eru úr Hollywood. Draugarnir tveir sem Gunnvör kynnist eru harla ólíkir, annar gamall og illur viðureignar enn hinn ungur og saklaus. Höfundur vísar til dæmis til bíómyndarinnar um drauginn Casper og yngri draugurinn, Patti, við kallast að sumu leyti á við hann.

Eftirtektarverðast við söguna er hvernig höfundur nýtir drauga og draugatrú til þess að opna glugga inn í annað og erfiðara umfjöllunarefni: sorg og dauða. Í ljós koma meðal annars hverjar afleiðingar þöggunar um voveifleg slys getur verið. Lausn draugasögunnar felur í sér tækifæri fyrir sögupersónurnar að ræða þessi málefni og foreldrar Gunnvarar, sem lesandi kynnist þó ekki mjög náið, ná að gera upp erfiða tíma í samvinnu við Gunnvöru. Kjarnakonan Hansína leikur þar lykilhlutverk og minnir á hjálpsömu álfkonuna sem leiðir aðalpersónuna í rétta átt en hún er þó ekki sveipuð neinum ævintýraljóma heldur minnir á rammíslenskar kerlur sem víla ekkert fyrir sér og hræðast fátt. Það er þó nokkuð óljóst í lokin hvernig hún tekst á við gamla drauginn og í raun verður hans hlutverk alltaf fremur óskýrt og lesandi er litlu nær um hans örlög.

Höfundi tekst ágætlega að skapa spennu af og til, kalt vatn rennur milli skinns og hörunds þegar Gunnvör fer að leita að draugnum í kjallaranum og nokkrum sinnum eykst hraðinn þannig að blaðsíðurnar þjóta áfram. Inn á milli hægist á en yfirleitt eru þeir kaflar ekki langir þannig að sagan fellur ekki. Það er ef til vill helst í lokin sem sagan verður örlítið langdregin þar sem hnýta þarf alla lausa enda og útskýra ýmislegt sem er gefið í skyn í sögunni. Sumt af því hefði mögulega mátt leysa fyrr í sögunni eins og til dæmis hefði verið hægt að skýra betur ömmu Petru sem þykir skrítin og jafnvel geggjuð eins og nokkrum sinnum kemur fram án þess að lesandi fái nokkra tilfinningu fyrir henni. Í heildina er bókin þó gott byrjendaverk og vonandi hvatning til Ingu um að skrifa meira. Sagan er fengur fyrir ungt fólk sem vill gleyma sér um stund, týnast inn í spennandi sögu í kunnuglegu umhverfi – hver veit hvað leynist í gömlum geymslum skólans?

Um höfundinn
Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er doktor í íslenskum bókmenntum og stundakennari við Íslensku‐ og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er íslenskar miðaldabókmenntir. Sjá nánar

Deila


Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.